Ákvörðun Neytendastofu vegna kvörtunar Hagsmunasamtaka heimilanna

Ákvörðun Neytendastofu vegna kvörtunar Hagsmunasamtaka heimilanna

Síðla árs 2016 kvörtuðu Hagsmunasamtök heimilanna undan markaðssetningu lífeyrissjóðsins í tengslum við nýjan lánakost sjóðsins, óverðtryggð lán. Kvörtun Hagsmunasamtakanna laut að því að ekki komu fram upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar, heildarfjárhæð sem neytandi þarf að greiða og úrskurðar- og réttarúrræði í auglýsingu sjóðsins um óverðtryggð lán.

Niðurstaða Neytendastofu er sú að lífeyrissjóðurinn hafi brotið gegn ákvæðum þágildandi laga um neytendalán og lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, með því að hafa ekki umræddar upplýsingar í auglýsingu sinni.

Ný lög um fasteignalán til neytenda tóku gildi 1. apríl 2017 og fór þá fram heildarendurskoðun á verklagi lífeyrissjóðsins í tengslum við lánveitingar sjóðfélagalána. Sjóðurinn hefur ekki auglýst lán sín síðan, en fylgt kröfum núgildandi laga um upplýsingagjöf til sjóðfélaga, bæði með texta og lýsandi dæmum á heimasíðu sinni sem og veittri upplýsingagjöf við lántöku m.a. með svokölluðu upplýsingablaði.

Lífeyrissjóðurinn harmar ákvörðun Neytendastofu og taldi sig hlýta gildandi lögum á umræddum tíma að öllu leyti. Það er ekki ætlun lífeyrissjóðsins að veita ófullnægjandi uppýsingar til sinna sjóðfélaga eða láta hjá líða að greina frá upplýsingum sem skipta máli fyrir sjóðfélaga sína.