Fara í efni

Ágæt afkoma sjóðsins á árinu 2015

Afkoma Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar var kynnt á ársfundi sjóðsins þann 26. maí sl. Þar kom fram að sjóðurinn skilaði góðri ávöxtun á árinu 2015. Nafnávöxtun var 8,4% sem svarar til 6,3% hreinnar raunávöxtunar. Vel hefur gengið að ávaxta eignir sjóðsins undanfarin ár og er meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu fimm ára 4,3%. 

Á árinu 2015 greiddu 498 sjóðfélagar iðgjöld að meðaltali á mánuði til sjóðsins samanborið við 562 árið á undan. Heildar greiðslur lífeyris á árinu 2015 námu 3,8 ma.kr. en voru 3,2 ma.kr. árinu 2014. Lífeyrisþegar voru samtals 3.408 á árinu,   2.591 einstaklingur fékk greiddan ellilífeyri, 424 fengu greiddan makalífeyri og 386 fengu greiddan örorkulífeyri, 7 fengu barnalífeyri.

Samkvæmt lögum verða lífeyrissjóðir að eiga eignir til að mæta skuldbindingum sínum. Þessi sjóður er undanþeginn framangreindu þar sem Reykjavíkurborg ber bakábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Samþykktir sjóðsins gera ekki ráð fyrir að iðgjöld og ávöxtun eigna hans dugi fyrir skuldbindingum sjóðsins og því greiða launagreiðendur mánaðarlega  aukaframlag  sem nemur 69% af greiddum lífeyri en á árinu 2015 nam aukaframlagið tæpar 1,8 ma.kr. Samkvæmt niðurstöðu tryggingafræðilegrar athugunar á stöðu í lok árs 2015, að teknu tilliti til aukaframlagsins nema eignir sjóðsins umfram skuldbindingar um 24,5 ma.kr.