Fara í efni

Starfsreglur endurskoðunarnefndar

Starfsreglur endurskoðunarnefndar á PDF formi.

Markmið

Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkur skipar endurskoðunarnefnd í samræmi við 108. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og gildandi reglur og leiðbeiningar Fjármálaeftirlitsins. Hlutverk nefndarinnar er að aðstoða stjórn sjóðsins að uppfylla eftirlitsskyldur sínar í tengslum við birtingu reikningsskila, innra eftirlit, áhættustýringu og endurskoðunarferlið. Nefndin er undirnefnd stjórnar og ber stjórn ábyrgð á störfum nefndarinnar.

Nefndarmenn

 Stjórnin skipar nefndarmenn og ákveður þóknun þeirra. Þeir eru skipaðir til jafnlangs tíma og stjórn sjóðsins og eru skipaðir eigi síðar en mánuði eftir fyrsta fund nýrrar stjórnar.

Endurskoðunarnefndin er skipuð þremur mönnum, þar af skal að minnsta kosti einn nefndarmaður vera óháður sjóðnum, stjórnendum og öðru starfsfólki.

Sérhver nefndarmaður skal búa yfir þekkingu og reynslu í samræmi við störf nefndarinnar og að minnsta kosti
einn nefndarmanna hafa staðgóða þekkingu og reynslu á sviði endurskoðunar eða reikningsskila.

Heimildir

Nefndin hefur heimild til nauðsynlegrar upplýsingaöflunar innan sjóðsins til þess að geta uppfyllt skyldur sínar.
Nefndin hefur heimild til að;

  • afla faglegrar og óháðrar ráðgjafar sem hún telur nauðsynlega til að sinna sínu hlutverki. Ráðgjafaþjónustu ber að kynna fyrir formanni sjóðsins en slíkur kostnaður skal rúmast innan fjárhagsáætlunar sjóðsins.
  • gera kröfu um að einstakir starfsmenn sjóðsins taki þátt í fundum nefndarinnar og veita þær upplýsingar sem óskað er eftir.
  • hafa óheftan aðgang að innri og ytri endurskoðendum sjóðsins.

Ábyrgð

Endurskoðunarnefnd er samskiptaaðili milli stjórnar sjóðsins, stjórnenda hans, innri og ytri endurskoðenda í tengslum við skýrslugjöf þeirra og málefna sem tengjast hlutverkum nefndarinnar.

Fundarstörf

Nefndin skal funda að lágmarki fjórum sinnum á ári. Meirihluti nefndarmanna ræður niðurstöðu. Nefndin ákveður hvort að hún boði stjórnendur sjóðsins og/eða innri og ytri endurskoðendur á fundi. Nefndin fundar í tengslum við gerð reikningsskila sjóðsins. Fundargerðir eru skriflegar og varðveittar í númeraröð og samþykktar af fundarmönnum og afrit þeirra lagðar fyrir stjórn. Nefndin hefur aðgang að starfsmanni sjóðsins til að rita fundargerðir nefndarinnar. Formaður nefndarinnar undirbýr fundi og dagskrá funda er undirbúin.
Árlega fundar nefndin með innri og ytri endurskoðenda án þess að stjórnendur sjóðsins eru viðstaddir.

Hlutverk

Hlutverk endurskoðunarnefndar eru eftirfarandi:

Eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits og áhættustýringu

Nefndin hefur eftirlit með því að stjórn sjóðsins tryggi með stefnu sinni og verklagsreglum að sjóðurinn skjali innra eftirlit á þann hátt að innleiddar eftirlitsaðgerðir séu tengdar þeim áhættum sem þeim er ætlað að verja eða draga úr. Nefndin yfirfer hvort innra eftirlit, áhættustýring og innri endurskoðun virki sem skyldi og fylgir úrbótum eftir

Nefndin fer yfir störf innri endurskoðunar og skipulag, ásamt því að meta hæfni og fagleg úrræði. Þá fer nefndin yfir endurskoðunaráætlun ársins áður en hún er lögð fram fyrir stjórn til samþykktar, yfirfer niðurstöður innri endurskoðunar ársins og kannar viðbrögð stjórnenda við þeim.

Formaður endurskoðunarnefndar tekur við ábendingum um sviksemi ( e. whistleblower) og gera stjórn grein fyrir þeim málum sem koma til vitundar nefndarinnar, þar sem grunur er um brot á lögum, reglum eða reglugerðum eða þar sem innra eftirlit hefur brugðist.


Eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila

Nefndin fer yfir reikningsskil og helstu álitaefni í reikningsskilum með viðeigandi stjórnendum sjóðsins áður en stjórn samþykkir reikningana. Þá fer hún fara yfir skýrslu stjórnar sjóðsins áður en hún er gefin út. Nefndin leitast við að leysa ágreiningsmál sem kunna að koma upp á milli stjórnenda og endurskoðenda varðandi reikningsskilin.

Mat á óhæði endurskoðanda og hafa eftirlit með öðrum störfum hans fyrir sjóðinn

Nefndin aflar staðfestingu á óhæði endurskoðanda og aflar upplýsinga um aðra þjónustu sem endurskoðandinn veitir sjóðnum og leggur mat á hvort sú þjónusta geti haft áhrif á óhæði hans. Nefndin kannar hvort endurskoðunarfyrirtækið birti árlega á heimasíðu sinni skýrslu um gagnsæi, sbr. 29. gr.laga nr. 79/2008, um endurskoðendur

Eftirlit með endurskoðun ársreiknings sjóðsins

Nefndin fundar með endurskoðendum sjóðsins og fer yfir endurskoðunaráætlun og metur umfang hennar áður en hún er lögð fram til stjórnar til samþykktar. Nefndin fer yfir helstu niðurstöður endurskoðunarinnar, kannar hvort sérstök atriði hafi komið upp við endurskoðunina, hvort ágreiningur hafi komið upp á milli þeirra og stjórnenda og hvort að endurskoðendur hafi fengið þann aðgang að upplýsingum sem þeir óskuðu eftir. Nefndin fer yfir endurskoðunarskýrslu áður en hún er lögð fyrir stjórn félagsins. Í skýrslunni eiga að koma fram mikilvæg atriði sem fram hafa komið við endurskoðunina og sérstaklega er gerð grein fyrir veikleikum í innra eftirliti við gerð reikningsskila. Nefndin skal leitast við að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma í tengslum við endurskoðunina.

Skýrslugjöf endurskoðunarnefndar

Við samþykkti ársreiknings gerir nefndin skýrslu til stjórnar um störf og niðurstöður verkefna hennar á árinu.

Setur fram tillögu til stjórnar um val á endurskoðunarfyrirtæki.

Nefndin setur fram tillögu til stjórnar um val á endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki.

Mat á störfum nefndarinnar

Nefndin metur árlega starfshætti sína með það fyrir augum að meta þörf fyrir breytingar á þeim.

Annað

Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt að látið sé af starfi.

Gildistaka og breytingar

Til breytingar á framangreindum starfsreglum þarf samþykki stjórnar sjóðsins.

Samþykkt á stjórnarfundi Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar 20. október 2021