Fara í efni

Iðgjöld


Þessi síða er fyrst og fremst ætluð launagreiðendum til aðstoðar og útskýringa. Pósthólf iðgjaldadeildar er: skilagreinar@lifbru.is


Iðgjöld

Iðgjöld skulu greidd til lífeyrissjóðsins af dagvinnulaunum viðkomandi. Iðgjald er einnig greitt af vaktaálagi og orlofs- og desemberuppbót. Iðgjald er ekki greitt af yfirvinnu.

 

Skylduaðild að lífeyrissjóði

Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar er lokaður nýjum sjóðsfélögum frá 1. júlí 1998. Greiðsla iðgjalda er fyrst leyfileg næsta mánuð eftir 16 ára afmælisdag og þeim skal ljúka í lok þess mánaðar er viðkomandi á 70 ára afmæli.

 

Gjalddagi og eindagi iðgjalda

Gjalddagi iðgjalda er 10. dagur næsta mánaðar. Eindagi er síðasti dagur þess mánaðar. Berist greiðslur eftir eindaga reiknast á þær dráttarvextir frá gjalddaga til greiðsludags.

 

Iðgjaldaprósenta

Iðgjald í sjóðnum er 12% af heildarlaunum. Hlutur launþega er 4% og mótframlag launagreiðanda er 8%.

 

Vaktaálag

Greiða skal iðgjald af vaktaálagi vaktavinnufólks. Vaktavinnufólk teljast þeir sem hafa vinnutíma sem hreyfist með reglubundnum hætti. Sama regla gildir um einstaklinga sem hafa vinnuskyldu eingöngu á næturnar, það er á tímabilinu frá kl. 22:00 til 09:00 og skal þá álagsgreiðslan vera grundvöllur iðgjalds. Iðgjald á hins vegar ekki að greiða af annarskonar álagsgreiðslum svo sem bakvöktum, óþægindavöktum eða gæsluvöktum. Ekki á heldur að greiða iðgjald af álagsgreiðslum vegna fasts vinnutíma utan dagvinnumarka, t.d. frá kl.13 til 18 daglega. Vaktaálagsgreiðslum skal haldið aðgreindum frá öðrum iðgjöldum. Mikilvægt er að aðgreina iðgjöld vegna mánaðarlauna frá iðgjöldum vegna vaktaálags á sér skilagrein. Iðgjöldum af persónuuppbót og orlofsuppbót skal skila með iðgjöldum vegna mánaðarlauna.

 

Lágmarks starfshlutfall

Ekki skal greiða iðgjald til sjóðsins sé launþegi í minna en hálfu starfi (50%). Starfsfólk sem uppfyllir ekki áðurnefnd skilyrði og starfar undir 50% hlutfalli, skal greiða iðgjöld af launum sínum til Brúar lífeyrissjóðs.

 

Breytilegt starfshlutfall

Auki sjóðfélagi starfshlutfall sitt og fær fyrir það laun samkvæmt óbreyttum launaflokki, þ.e. aukið hlutfall fastra umsaminna mánaðarlauna, skal iðgjald greitt af þeim launum sem greidd eru fyrir hið nýja starfshlutfall.

 

Tvö störf hjá tveimur launagreiðendum

Iðgjöld skulu greidd af báðum eða öllum störfum jafnvel þó samanlagt starfshlutfall fari yfir 100%.

 

Tvö störf hjá sama launagreiðanda

Gegni launþegi fleiri en einu starfi hjá sama launagreiðanda mega iðgjaldagreiðslur ekki vera hærri en sem nemur 100% starfi. Gegni sama manneskja tveimur starfsþáttum eða tveimur störfum hjá sama ráðningaraðila eða stofnun, mega þau störf vera talin sem eitt starf og iðgjald greitt í samræmi við það.

 

Stöðvun iðgjaldagreiðslu starfsmanns

Sé mörkum 95 ára reglu náð greiðir launagreiðandi hlut beggja aðila í iðgjaldinu, þ.e. 4% iðgjald sjóðfélaga og 8% mótframlag launagreiðanda. Það iðgjald skal aðgreina frá venjubundnum iðgjöldum af mánaðarlaunum eða vaktaálagi.