Fara í efni

LsRb - Réttindi

Aðild að sjóðnum

Þeir einir hafa rétt til að greiða áfram til sjóðsins sem voru sjóðfélagar í júní 1998 og hafa greitt þangað óslitið frá þeim tíma, eru í a.m.k. hálfu starfi og taka kjör samkvæmt kjarasamningum byggðum á lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna eða kjaraákvörðunum um æðstu embættismenn Reykjavíkurborgar.
 
Hafi iðgjaldagreiðsla sjóðfélaga fallið niður vegna launalauss leyfis eða veikinda á viðkomandi rétt til að hefja aftur greiðslu iðgjalda innan 12 mánaða frá því að greiðsla iðgjalda féll niður. Annars er um að ræða geymd réttindi. 
 

Réttindi

Réttindi eru tryggð með bakábyrgð launagreiðanda og þau myndast með tíma og hlutfalli starfs. Almennt er réttindaávinnslan 2% á ári af dagvinnulaunum fyrir fullt starf. Hlutastarf skilar hlutfallslegum réttindum en iðgjald greiðist einnig af vaktaálagi, orlofs- og persónuuppbót. Þeir sem vinna minna en 50% starf eiga ekki aðild að sjóðnum. Ekki er greitt iðgjald af yfirvinnu.

 

Í stuttu máli:

  • Réttindi tryggð með bakábyrgð launagreiðanda
  • Miðast við tíma og hlutfall starfs
  • 2% á ári af dagvinnulaunum
  • Hlutastarf = hlutfallsleg réttindi
  • Skilyrði um meira en 50% starf til að vera sjóðfélagi

Eftirlaun

Þeir sem eru orðnir 65 ára og hafa látið af störfum geta hafið töku lífeyris. Mögulegt er að hefja lífeyristöku fyrr ef sjóðfélagi hefur náð 95 ára reglunni sem er samanlagður sjóðfélagaaldur og lífaldur. Þeim sjóðfélögum sem nálgast 95 ára regluna er bent á að leita sér ráðgjafar hjá lífeyrisfulltrúa Brúar lífeyrissjóðs.

Viðmiðunarlaun lífeyris eru almennt þau dagvinnulaun sem sjóðfélagi hafði við starfslok. Þrjár undantekningar geta verið á því.

  1. Ef sjóðfélagi var í hærra launuðu starfi eða störfum í að minnsta kosti tíu á fyrr á sjóðfélagatíma sínum, skal miða við hæst launaða starfið, hafi hann verið í því að lágmarki í tíu ár. Annars er miðað við það starf, sem hann að viðbættum enn hærra launuðum störfum, gengdi í að minnsta kosti tíu ár.
  2. Ef sjóðfélagi hefur öðlast rétt til að hefja töku lífeyris en ákveðið að fresta því og tekið eftir það við lægra launuðu starfi en það sem hann var í áður, skal miða lífeyrinn við starfið sem var hærra launað.
  3. Ef sjóðfélagi var í hærra launuðu starfi en þurfti af heilsufarsástæðum að láta af stöðu sinni og tók við öðru lægra launuðu starfi skal miða lífeyrinn við hærra launaða starfið.

Hafi sjóðfélagi ekki uppfyllt skilyrði um ráðningu, starfshlutfall og starfstíma hjá launagreiðanda á viðkomandi réttindi í B-deild sjóðsins. Réttur til töku lífeyris miðast við 67 ára aldur í B-deild sjóðsins. Hefji sjóðfélagi töku lífeyris fyrr, lækkar mánaðarleg upphæð áætlaðs lífeyris miðað við 67 ára aldur um 0,5%  á mánuði. Hefji sjóðfélagi töku lífeyris síðar, hækkar mánaðarleg upphæð áætlaðs lífeyris miðað við 67 ára aldur, um 0,8% á mánuði. Í B-deild miðast réttindi við ákveðna grundvallarfjárhæð, kr. 122.203 uppreiknað m.v. vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í júní 2016.

 

Í stuttu máli:

  • Lífeyrisaldur 65 ára
  • 95 ára regla - möguleiki á að fara fyrr á lífeyri
  • 95 ára regla = (lífaldur+starfsaldur)
  • Ávinnsla 2% á ári af 100% launum
  • Viðmiðunarlaun lífeyris dagvinnulaun við starfslok, ath þó undantekningar
  • B-deild LsRb - önnur réttindi

Makalífeyrir

Við fráfall sjóðfélaga hefur maki rétt á 50% af áunnum réttindum hans ævilangt. Hafi sjóðfélagi látist í starfi eða í beinu framhaldi af töku eftirlauna af starfi greiðist 20% viðbótarálag á makalífeyri miðað við fullt starf sjóðfélaga. Makalífeyrir fellur niður ef maki hefur sambúð að nýju.

Hafi sjóðfélagi átt réttindi í B-deild sjóðsins greiðist fullur makalífeyrir í 36 mánuði og helmings makalífeyrir í aðra 24 mánuði eftir það en ekki ævilangt.

 

Í stuttu máli:

  • Makalífeyrir er a.m.k. 50% af áunnum réttindum sjóðfélaga
  • Maki fær 20% viðbót ef sjóðfélagi hefur látist í starfi eða á eftirlaunum í beinu framhaldi af starfi
  • Fellur niður við nýja sambúð
  • B-deild LsRb - önnur réttindi

Barnalífeyrir

Hafi sjóðfélagi látist hafa börn hans, yngri en 18 ára, rétt á að sækja um barnalífeyri.

Réttur þessi gildir jafnt fyrir börn, kjörbörn og fósturbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti.

Sjóðfélagi í B-deild sjóðsins ávinnur börnum sínum ekki rétt til barnalífeyris.

 

Í stuttu máli:

  • Barnalífeyrir greiddur til barna látins sjóðfélaga til 18 ára aldurs
  • B-deild LSRB - enginn barnalífeyrir

Örorkulífeyrir

Þeir sem greitt hafa til sjóðsins í a.m.k. þrjú ár og a.m.k. í sex mánuði á undanfarandi 12 mánuðum og hafa verið metnir af lækni til meira en 10% örorku geta átt rétt á örorkulífeyri.

Örorkulífeyrir er framreiknaður til 65 ára aldurs að ákveðnum forsendum uppfylltum (miðað er við þau réttindi sem sjóðfélagi hefði átt hefði hann greitt iðgjöld á sömu forsendum til ellilífeyrisaldurs).

Örorkulífeyrir fer eftir mati á örorkuprósentu (dæmi: 45% örorka veitir 45% réttindi).

Önnur og strangari skilyrði gilda um rétt til örorkulífeyris úr B-deild LsRb.

Sótt er um örörkulífeyri rafræn hér. Ítarlegt læknisvottorð (Læknisvottorð v/umsóknar um örorkubætur) þarf að fylgja umsókninni, má ekki vera eldra en þriggja mánaða.

 

Í stuttu máli:

  • Miðað við a.m.k. 10% örorkumat
  • Lágmarkstími iðgjaldagreiðslu
  • Framreiknað til 65 ára aldurs að ákveðnum skilyrðum uppfylltum
  • B-deild LsRb - önnur réttindi

32 ára og 95 ára regla

Sjóðfélagar sem greitt hafa iðgjöld til sjóðsins í 32 ár hafa val um að launagreiðandi greiði einnig þeirra framlag í iðgjöldum eða 4%. Kallast það að verða iðgjaldafrír. Þeir sem kjósa að verða iðgjaldafríir við 32 ára markið geta hafið töku lífeyris í fyrsta lagi 65 ára. Þeir sem kjósa 32 ára regluna ávinna sér 1% í réttindi á ári miðað við fullt starf, í stað 2%, fram til 65 ára aldurs. Láti sjóðfélagi ekki af störfum við 65 ára lífeyristökualdur ávinnur hann sér 2% í réttindi á ári miðað við fullt starf frá og með þeim tímamótum.

Þeir sem hafa möguleika á að ná 95 árum í samanlögðum iðgjaldatíma til sjóðsins og lífaldri, fyrir 64 ára aldur, ná svokallaðri 95 ára reglu. Við 95 ára reglu markið greiðir launagreiðandi 4% hlut í iðgjöldum sjóðfélaga, þ.e. sjóðfélagar verða iðgjaldafríir. Hámarksréttindi sjóðfélaga við 95 ára reglu markið er 64%.

Þeir sem ná 95 ára reglu geta hafið töku lífeyris fyrir 65 ára aldur, en þó aldrei fyrr en þeir hafa náð 60 ára aldri. Þeir sem kjósa 95 ára regluna ávinna sér 1% í réttindi á ári, miðað við fullt starf, þangað til 60 ára aldri er náð, en eftir 60 ára aldur 2% í réttindi á ári, miðað við fullt starf. Hafi sjóðfélagi áunnið sér 64% réttindi áður en 95 ára reglu er náð halda iðgjaldagreiðslur áfram til sjóðsins þangað til reglu er náð.

Eigi sjóðfélagi kost á báðum reglunum, 32 ára reglunni og 95 ára reglunni, þarf hann að velja hvorri reglunni hann vilji fylgja og er það val óafturkræft.

32 ára regla

  • Neðangreint dæmi miðast við sjóðfélaga í fullu starfi (100% starfshlutfall).
  • Sjóðfélagi sem byrjaði að greiða í sjóðinn 30 ára og hefur verið í fullu starfi í 32 ár eða til 62 ára aldurs, ávinnur sér 64% réttindi (2% x 32 ár m.v. 100% starf = 64% réttindi).
  • Frá 62 ára aldri til 65 ára aldurs ávinnur sjóðfélagi á 32 ára reglunni sér 1% á ári miðað við fullt starf, samtals 3% (1% x 3 ár m.v. 100% starf = 3% réttindi).
  • Ákveði sjóðfélagi að hefja töku lífeyris við 65 ára aldur hefur hann áunnið sér 67% réttindi (64% + 3% = 67% réttindi).
  • Frá 65 ára aldri til 70 ára aldurs ávinnur sjóðfélagi á 32 ára reglunni sér 2% réttindi á ári miðað við fullt starf, samtals 10% (2% x 5 ár m.v. 100% starf = 10% réttindi).
  • Ákveði sjóðfélagi að hefja töku lífeyris við 70 ára aldur hefur hann áunnið sér 77% réttindi (64% + 3% + 10% = 77% réttindi).

95 ára regla

  • Neðangreint dæmi miðast við sjóðfélaga í fullu starfi (100% starfshlutfall).
  • Sjóðfélagi sem byrjaði að greiða í sjóðinn 21 árs nær 95 ára reglunni þegar hann verður 58 ára. Hann hefur þá greitt í sjóðinn í 37 ár (58 ára + 37 ára iðgjaldagreiðslutími = 95 ár).
  • Áunninn lífeyrisréttur við 95 ára reglu markið er 64%.
  • Frá 58 ára aldri til 60 ára aldurs ávinnur sjóðfélagi á 95 ára reglunni sér 1% á ári miðað við fullt starf, samtals 2% (1% x 2 ár m.v. 100% starf = 2% réttindi).
  • Ákveði sjóðfélagi að hefja töku lífeyris við 60 ára aldur hefur hann áunnið sér 66% réttindi (64% + 2% = 66% réttindi).
  • Frá 60 ára aldri til 70 ára aldurs ávinnur sjóðfélagi á 95 ára reglunni sér 2% réttindi á ári miðað við fullt starf, samtals 20% (2% x 10 ár m.v. 100% starf = 20% réttindi).
  • Ákveði sjóðfélagi að hefja töku lífeyris við 70 ára aldur hefur hann áunnið sér 86% réttindi (64% + 2% + 20% = 86% réttindi).

 

32 ára regla:

  • Getur tekið gildi eftir greiðslur iðgjalda í 32 ár
  • Hefja má töku lífeyris í fyrsta lagi 65 ára

95 ára regla:

  • Samanlagður iðgjaldatími og lífaldur
  • Hámarksréttindi eru 64% við reglumarkið