Hvernig greiði ég aukalega inn á lán?
Inni á Mínum síðum stendur þér til boða að greiða aukalega inn á fasteignalánið þitt. Gott er að hafa í huga að hluti greiðslunnar fer til að greiða áfallna vexti og verðbætur frá síðasta gjalddaga. Í sumum tilfellum getur því verið hentugt að greiða sem fyrst eftir gjalddaga láns.
- Mínar síður > Lánin mín > Velja lán > Greiða inn á lán
- Sláðu inn fjárhæð sem þú vilt leggja inn á lánið.
- Smelltu á "Greiða inn á lán" og krafa stofnast í heimabanka.
- Þú getur nú farið í heimabankann þinn og valið að greiða kröfuna.
Lánareiknir
Mínar síður > Lánin mín > Lánareiknir
Lánareiknir gefur kost á að reikna út áhrif þess að greiða t.d. aukalega inn á lánið. Lánareiknirinn sýnir hvernig innborgunin muni bókast og hvernig áætlaðar framtíðarafborganir munu þróast. Einnig er hægt að reikna út hvernig stytting lánstíma breytir framtíðarafborgunum.
Umframgreiðslusamningur
Mínar síður > Lánin mín > Umfr. samningur
Umframgreiðslusamningur gefur kost á að greiða aukalega inn á lánið með reglulegum greiðslum. Þú velur fjárhæð innborgana, hversu reglulega þú vilt greiða, hversu oft og hvaða dag mánaðar. Í framhaldinu mun reikningur birtast í netbanka þegar gjalddagi samnings nálgast.
Spurt og svarað
Fer innborgun inn á höfuðstól?
Þegar greitt er aukalega inn á lán fer hluti greiðslunnar til að greiða áfallna vexti og verðbætur frá síðasta gjalddaga. Því getur verið hentugt að greiða inn á lánið sem fyrst eftir gjalddaga því þá rennur stærsti hluti innborgunar inn á höfuðstól.
Hvenær er hentugast að greiða aukalega inn á lán?
Það getur verið hentugt að greiða aukalega inn á lán sem fyrst eftir gjalddaga. Hluti greiðslunnar fer til að greiða áfallna vexti og verðbætur láns en sá útreikningur er ávallt miðaður við síðasta gjalddaga.
Útreikningur á eftirstöðvum lánsins fylgir dagsetningu greiðslu en ekki stofnun kröfu. Þá má nefna að innborgun vegna umframgreiðslu sem er útbúin eftir kl. 20 fram að miðnætti miðast við stöðu lánsins daginn eftir og reiknast áfallnir vextir þar af leiðandi miðað við þann dag.
Dæmi um umframgreiðslu: Ef gjalddagi láns er fimmta hvers mánaðar og krafa er stofnuð á gjalddaga en greidd daginn eftir þá greiðast áfallnir vextir fyrir þennan umfram dag.
Hvað tekur langan tíma fyrir greiðslu að færast inn á lánið?
Þegar búið er að velja fjárhæð og smella á "greiða inn á lán" stofnast krafa í netbankanum þínum innan næsta klukkutíma. Eftir að þú hefur greitt kröfuna bókast greiðslan að öllu jöfnu inn á lánið u.þ.b. klukkutíma eftir að hún er gerð
Skiptir máli hvort lán sé verðtryggt eða óverðtryggt?
Hægt er að borga inn á bæði verðtryggt og óverðtryggt lán.
Skiptir máli hvort lán sé með jöfnum greiðslum eða jöfnum afborgunum?
Hægt er að borga inn á lán hvort sem það er með jöfnum greiðslum eða jöfnum afborgunum.
Hvernig virkar umframgreiðslusamningur?
Umframgreiðslusamningur gefur kost á að greiða aukalega inn á lánið með reglulegum greiðslum. Þú velur fjárhæð innborgana, hversu reglulega þú vilt greiða, hversu oft og hvaða dag mánaðar.
Eingöngu er hægt að vera með einn samning í gildi á hverjum tíma.
Get ég hætt við að greiða kröfu eftir að hún stofnast?
Ef þú velur að greiða ekki kröfu í netbanka þá fellur hún sjálfkrafa niður innan eins til tveggja daga. Á meðan er ekki hægt að stofna nýja umframgreiðslu eða nýjan umframgreiðslusamning.
Hvernig hætti ég við umframgreiðslusamning?
Þú getur valið að sleppa því að greiða kröfuna í netbankanum eða haft samband við sjóðinn um að fella niður umframgreiðslusamninginn.
Hver er lágmarksfjárhæð umframgreiðslu?
Engin lágmarksfjárhæð er á umframgreiðslum.
Er uppgreiðslugjald eða umframgreiðslugjald?
Nei, sjóðurinn innheimtir hvorki uppgreiðslu- né umframgreiðslugjald.