Sjóðfélagalán

Brú lífeyrissjóður býður sjóðfélögum lán á hagstæðum kjörum gegn veði í íbúðarhúsnæði.

Sjóðurinn starfar af heiðarleika, sanngirni og gagnsæi með fagmennsku að leiðarljósi við lánveitingar til sjóðfélaga sjóðsins. Sjóðurinn hefur réttindi og hagsmuni sjóðfélaga í huga við lánveitingar sjóðsins.

 

Hér má nálgast  Lánareiknivél    

Hér má nálgast  Lánareglur             

Hér er hægt að  sækja um lán

Hér er hægt að sjá gjaldskrá lána

                   

Hvernig lán veitum við?

Brú lífeyrissjóður býður upp á verðtryggð lán með föstum vöxtum annars vegar og óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum hins vegar. 

 • Sjóðurinn lánar frá 1.000.000 kr. upp í allt að 50.000.000 kr., frá 5 árum upp í 40 ár.
 • Hámarks veðhlutfall er 75% af fasteignamati fasteignar. Söluverð samkvæmt kaupsamningi kemur eftir atvikum í stað fasteignamats.
 • Sjóðurinn gerir skilyrði um 1. veðrétt fari veðhlutfall yfir 65% og/eða ef veðhlutfall fer umfram 75% af fasteignamati eignar og er hámarks lánstími slíkra lána 35 ár.
 • Lántökugjald er aðeins 51.000 kr.
 • Ekkert lántökugjald er tekið við endurfjármögnum lána frá sjóðnum, ef lán eru eldri en 12 mánaða.
 • Ekkert uppgreiðslugjald er við uppgreiðslu lána.
 • Lán eru með mánaðarlegum gjalddögum 5. hvers mánaðar.

Heildarlántökukostnaður, heildarfjárhæð sem greiða skal og árleg hlutfallstala kostnaðar geta tekið breytingum í tilviki fasteignalána með breytilegum forsendum sem getur leitt til aukins kostnaðar fyrir sjóðfélaga. Sjá nánar lánareiknivél.

 

Verðtryggð lán með 3,6% föstum vöxtum

Verðtryggð lán með föstum vöxtum breytast í hlutfalli við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Fastir vextir eru alltaf þeir sömu, út líftíma lánsins og eru nú 3,6%. Með því að festa vexti lánsins hafa breytingar á vaxtakjörum ekki áhrif á vaxtakjör sjóðfélaga.

Verðtryggð lán breytast í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs. Verðbætur bætast við höfuðstól og koma til greiðslu á lánstíma lánsins. Við útreikning á einstökum greiðslum hækkar hver afborgun í takt við verðbólgu en vextir reiknast af verðbættum höfuðstól. Verðlagsbreytingar hafa því bein hlutfallsleg áhrif á höfuðstól og mánaðarlega greiðslu verðtryggðra lána. Samkvæmt lögum verða verðtryggð lán að vera til að minnsta kosti fimm ára.

 

Óverðtryggð lán með 5,53% breytilegum vöxtum 

Óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum eru með fasta vexti fyrstu 36 mánuðina en eftir þann tíma verða vextir breytilegir. Hægt er að sækja um að festa vexti í aðra 36 mánuði áður en fastvaxtatímabili lýkur. 

Vextir eru endurskoðaðir á hálfs árs fresti, það er 1. janúar og 1. júlí og geta þá tekið breytingum. Í upphafi lánstíma og hvers fastvaxtatímabils er tekið mið af þágildandi breytilegum óverðtryggðum vöxtum.

Breytilegir vextir geta hækkað eða lækkað eftir því hvernig markaður og efnahagsástand sveiflast. Þegar vextir breytast hefur það bein áhrif á afborgun láns, en mismunandi áhrif eftir því hversu langur tími er eftir af láninu annars vegar og hins vegar eftir því hvort um jafngreiðslulán eða lán með jöfnum afborgunum er að ræða.

Óverðtryggð lán taka ekki breytingum til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs. Verðlagsbreytingar hafa því ekki bein hlutfallsleg áhrif á höfuðstól og mánaðarlega greiðslu óverðtryggðra lána.

 

Hverjir geta sótt um lán?

Sjóðfélagar í Brú lífeyrissjóði geta sótt um lán hjá sjóðnum. Einnig geta sjóðfélagar Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar sótt um lán hjá sjóðnum.

Sjóðfélagar eru einnig þeir sem hafa einhvern tímann greitt í ofantalda sjóði og eiga þannig geymd réttindi.

Þeir sem fá greiddan lífeyri úr framangreindum sjóðum eiga einnig rétt á láni svo og starfsmenn sveitarfélaga og stofnana sem eru í meirihluta í eigu þeirra, óháð aðild að sjóðnum.

 

Jafngreiðslulán eða jafnar afborganir

Þegar sjóðfélagi sækir um lán þarf að ákveða hvort sótt sé um lán með jöfnum afborgunum eða lán með jöfnum greiðslum.

Þegar tekið er lán með jöfnum greiðslum (annuitet) er sama fjárhæð til greiðslu á hverjum gjalddaga út allan lánstímann og tekur greiðslan breytingum samkvæmt vísitölu og vöxtum. Greiðslum vaxta og afborgana er dreift jafnt á lánstímann.

Þegar tekið er lán með jöfnum afborgunum er greiðslufjárhæð hærri í upphafi, þar sem byrjað er að greiða niður höfuðstól lánsins og fer greiðslufjárhæð lækkandi eftir sem á líður lántökutímann. Höfuðstóll lækkar því hraðar og því verður vaxtagreiðslan lægri. Greiðslurnar taka breytingum samkvæmt vísitölu og vöxtum.

 

Veð

Aðeins er lánað gegn veði í íbúðarhúsnæði á Íslandi í eigu sjóðfélaga og er miðað við allt að 75% af fasteignamati fasteignar. Veðsetning skal þó aldrei fara yfir 100% af brunabótamatsvirði auk lóðarmatsverði viðkomandi eignar. Ef heildarveðsetning eignar fer umfram 65% og/eða ef veðhlutfall fer umfram 75% af fasteignamati eignar er gerð krafa um 1. veðrétt og hámarks lánstími miðast þá við 35 ár.

Ef íbúðarhúsnæði sem setja á til veðtryggingar láni er jafnframt að hluta í eigu sambúðaraðila sjóðfélaga er áskilið að viðkomandi eigandi verði meðlántakandi (samskuldari) að umbeðnu láni.

Söluverð samkvæmt kaupsamningi kemur eftir atvikum í stað fasteignamats.

  

Nýting láns

Sjóðurinn setur ekki skilyrði um tiltekna nýtingu láns við lánveitingu.

 

Fylgigögn með lánsumsókn

Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja lánsumsókn.

 • Veðbókarvottorð eða veðbandayfirlit.
 • Afrit af þinglýstum kaupsamningi hafi eign skipt um eigendur á síðustu tveimur árum.
 • Fasteigna- og brunabótamat (kaupsamningur ásamt brunatryggingarvottorði ef hús er í smíðum).
 • Síðustu kvittanir fyrir afborgunum af lánum skv. veðbókarvottorði. Kvittanir sýni eftirstöðvar með verðtryggingu.
 • Veðleyfi, sé þess þörf vegna áhvílandi skulda.
 • Afrit af tryggingabréfum sem hvíla á eigninni, ef við á.
 • Lífeyrissjóðurinn framkvæmir greiðslumat. Sjá gjaldskrá hér.  

Sjóðurinn áskilur sér rétt til að krefjast annarra gagna eftir því sem þurfa þykir.

 

Lánshæfismat

Við afgreiðslu lánsumsókna hjá sjóðnum eru upplýsingar um lánshæfismat sjóðfélaga sóttar í gagnagrunn um lánshæfi í samræmi við samþykki sjóðfélaga um gagnaöflun.

 

Fyrir greiðslumat

Lífeyrissjóðurinn framkvæmir greiðslumat. Til þess að hægt sé að framkvæma greiðslumat skal leggja fram eftirtalin gögn:

 • Afrit af síðasta skattframtali.
 • Staðfestingu á tekjum síðustu þriggja mánaða, s.s. afrit af launaseðlum eða staðgreiðsluyfirlit frá ríkisskattstjóra, og ennfremur staðfestingu á fjármagnstekjum, svo sem húsaleigutekjum og föstum bótagreiðslum.
 • Staðfestingu á eftirstöðvum og greiðslubyrði allra skulda.
 • Staðfestingu á föstum greiðslum, s.s. vegna meðlags- og lífeyrisgreiðslna.
 • Þinglýsingarvottorð fyrir fasteignir í eigu lántakanda.
 • Upplýsingar um húsaleigubætur.
 • Upplýsingar um ábyrgðarskuldbindingar.
 • Önnur gögn sem skipt geta máli varðandi fjárhagsstöðu lántakanda.

Leggi sjóðfélagi ekki fram umbeðnar upplýsingar eða ófullnægjandi upplýsingar er ekki mögulegt að framkvæma greiðslumat og þar með afgreiða lánsumsókn sjóðfélaga.

Athuga skal sérstaklega að greiðslumat skal ekki vera eldra en tólf mánaða. Sé greiðslumat eldra en þriggja mánaða þarf lántaki að undirrita staðfestingu þess efnis að þær upplýsingar sem matið byggðist á hafi ekki breyst og fjárhagsstaða hans sé ekki verri en þegar matið var framkvæmt.

  

Lánaráðgjöf ekki veitt af sjóðnum

Sjóðurinn veitir ekki lánaráðgjöf og er sjóðfélögum bent á að leita til fjármálaráðgjafa hvað slíka ráðgjöf varðar.

 

Skýringardæmi

Hér er að finna skýringardæmi til frekari útskýringar fyrir sjóðfélaga á tegundum útlánavaxta sjóðsins, einkennum verðtryggðra lána og heildarfjárhæð láns, veðsetningarhlutfalli, heildarlántökukostnaði, heildarfjárhæð og árlegri hlutfallstölu kostnaðar.

Hafir þú einhverjar spurningar eða leitar eftir frekari útskýringum er þér velkomið að hafa samband við sjóðinn.

 

Innheimtuferli lána

Innheimtuviðvörun er send út 20 dögum eftir gjalddaga og lokaaðvörun er send út 90 dögum eftir gjalddaga. Í lokaaðvörun er gefinn 10 daga frestur áður en krafan er send lögfræðingi til innheimtu. Afrit af innheimtuviðvörun og lokaaðvörun er einnig send ábyrgðarmanni (mönnum), sé(u) hann (þeir) til staðar.

Standi sjóðfélagi ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt lánasamningi sendir sjóðurinn innheimtuviðvörun í samræmi við Innheimtulög, sbr. ofangreint. Bregðist sjóðfélagi ekki við innheimtuviðvörun innan 10 daga má búast við því að krafan verði send öðrum aðila til frekari innheimtuaðgerða, en slíkt hefur í för með sér aukinn kostnað. Greiðslufall sjóðfélaga getur leitt til málshöfðunar eða annarra innheimtuaðgerða á grundvelli réttarfarslaga og aukins kostnaðar fyrir sjóðfélaga.

 

Úrræði vegna greiðsluerfiðleika

Ýmis úrræði eru í boði hjá sjóðnum fyrir skuldara í greiðsluvanda. Áhersla er lögð á að aðstoða sjóðfélaga eftir fremsta megni við að halda lánum í skilum með úrræðum sem í boði eru. Sé um veruleg vanskil að ræða er sjóðfélaga bent á að hafa samband við Umboðsmann skuldara varðandi ráðgjöf.

  

Hvert á að greiða?

Hægt er að greiða inn á lánin eða greiða þau upp hvenær sem er, án aukakostnaðar.

Ef greiða skal upp lán eru bankareikningar eftirfarandi:

Lán Brúar lífeyrissjóðs
0334-26-051982
kt. 491098-2529

Eldri lán sjóðsins:

Lán B-deildar Brúar lífeyrissjóðs
0301-26-16613
kt. 660613-9780

Lán Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar
0301-26-51912
kt. 430269-6589

Lán Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar
0322-13-301290
kt. 480673-1239