Fara í efni

LSRB tekur þátt í samstarfi um áherslu á grænar fjárfestingar

LSRB hefur skrifað undir viljayfirlýsingu gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition (CIC) um fjárfestingu fyrir 30,5 milljón Bandaríkjadala, eða tæplega 4 milljarða króna, í verkefnum sem tengjast hreinni orku og loftlagstengdum verkefnum fram til ársins 2030. Í eignasafni LSRB eru nú þegar fjárfestingar fyrir tæplega 7 milljarða króna sem flokkast undir skilgreiningu slíkra grænna fjárfestinga og áhersla á grænar fjárfestingar er í samræmi við stefnu sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar.

LSRB er þar með einn af þrettán íslenskum lífeyrissjóðum sem samanlagt ætla að fjárfesta fyrir 4,5 milljarð Bandaríkjadala, um 580 milljarða króna, í slíkum verkefnum fram til ársins 2030. Heildarmarkmið norrænna og breskra lífeyrissjóða sem standa að CIC eru 130 milljarðar Bandaríkjadala.

Formlega var þátttaka íslensku lífeyrissjóðanna kynnt í morgun á loftlagsráðstefnu sameinuðu þjóðanna, COP26, í Glasgow í Skotlandi. Með yfirlýsingunni er staðfestur vilji sjóðanna til að stórauka grænar fjárfestingar sínar og styðja þannig við markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Þar er meðal annars horft til ákvæða Parísarsamkomulagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Climate Investment Coalition (CIC) eru alþjóðleg samtök með það markmið að stuðla að aukinni fjárfestingu í hreinni orku og öðrum umhverfislausnum, svo sem nýtingu jarðhita, vindorku, sólarorku, bættrar orkunýtingar í byggingum og bættri tækni við flutning raforku.

Nánari upplýsingar er að finna í:
Fréttatilkynningu íslensku lífeyrissjóðanna
Fréttatilkynningu Climate Investment Coalition