Fara í efni

Skipting ellilífeyrisréttinda


Samningur um skiptingu ellilífeyrisréttinda

Sjóðfélagi og maki geta gert samkomulag um að skipta ellilífeyrisréttindum. Skiptingin tekur ekki til örorku-, maka- eða barnalífeyris. Skiptingin þarf að vera gagnkvæm og jöfn þ.e. maki þinn verður að veita þér sama hlutfall réttinda sinna. Þess vegna þurfa báðir aðilar að skipta réttindum sínum. Þú mátt framselja allt að helmingi lífeyrisréttindanna til maka þíns

Hægt er að skipta ellilífeyrisréttindum með þrenns konar hætti;

  • Skipta þeim ellilífeyrisgreiðslum sem þegar eru hafnar.
  • Skipta áunnum ellilífeyrisréttindum, enda sé það gert í síðasta lagi áður en sjóðfélaginn hefur náð 65 ára aldri.
  • Skipta framtíðarréttindum, þ.e. þeim ellilífeyrisréttindum sem munu ávinnast eftir að samkomulag um skiptinguna hefur verið gert.

Báðir aðilar þurfa að undirrita samning, leggja þarf fram sambúðar og/eða hjúskaparvottorð sem staðfestir það tímabil sem skipta ber samkvæmt samningi auk þess sem báðir aðilar þurfa að leggja fram heilbrigðisvottorð undirritað af lækni. Heilbrigðisvottorðin eru send trúnaðarlækni sjóðsins til yfirferðar.

Sé heimild til skiptingar, þ.e. fullnægjandi gögn lögð fram og trúnaðarlæknir telur ekki sjúkdóma eða heilsufar draga úr lífslíkum umsækjenda, er samningurinn sendur til þeirra lífeyrissjóða sem umsækjendur hafa greitt til á tilgreindu tímabili.
Rétt er að taka fram að óvarlegt kann að vera að gera samning um skiptingu ellilífeyrisréttinda eigi einstaklingur réttindi í svokölluðum hlutfallssjóðum (B deildar sjóðum) þar sem makalífeyrisréttindi í þeim sjóðum eru greidd ævilangt.


> Samningur um skiptingu ellilífeyrisréttinda - til útfyllingar

> Samningur um skiptingu ellilífeyrisgreiðslna - til útfyllingar

> Heilbrigðisvottorð vegna umsóknar um skiptingu ellilífeyrisréttinda - til útfyllingar af lækni


Brú aðstoðar við gerð samnings

Við hjá Brú lífeyrissjóði aðstoðum við gerð samnings um skiptingu ellilífeyrisréttinda og veitum ráðgjöf. Hægt er að hringja í síma 540-0700, koma við á skrifstofu okkar að Sigtúni 42, 105 Reykjavík eða senda tölvupóst á lifeyrismal@lifbru.is.

Frekari upplýsingar er að finna inn á vef Landssamtaka lífeyrissjóða, þar sem algengum spurningum um skiptingu lífeyrisréttinda er svarað.