Fara í efni

Samþykktir Brúar lífeyrissjóðs

Breyttar samþykkir Brúar lífeyrissjóðs tóku gildi þann 24. ágúst 2018. Samþykktirnar voru samþykktar af stjórn sjóðsins þann 23. apríl 2018 og samþykktar af aðildarfélögum sjóðsins, BHM, BSRB, KÍ og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Samþykktirnar voru sendar til umsagnar Fjármálaeftirlitsins og staðfestar af Fjármála- og efnahagsráðuneytinu þann 24. ágúst 2018.

Breytingarnar eru í sjö liðum og taka til eftirtalinna atriða; hálfur lífeyrir í A og V deildum sjóðsins, ákvæði um lífeyrisauka A deildar og ákvæði um sjóðfélaga sem öðlast hafa jafna ávinnslu hjá bæði A deild Brúar lífeyrissjóðs og A deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), sameining Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar við B deild sjóðsins, breytingar á réttindaákvæðum Lífeyrissjóðs starfsmanna Akraneskaupstaðar í B deild sjóðsins og ákvæði 35.6, skýringarákvæði um áunninn réttindi í V deild fyrir breytingar 1. júní 2017 og ákvæði um framreikning makalífeyris, viðmiðun stopulla ára í A deild og ákvæði um breytingar á samþykktum sjóðsins.

Rétt er þó að geta þess að ákvæði samþykktanna um hálfan lífeyri taka gildi 1. september 2018.
Samþykktir Brúar lífeyrissjóðs á PDF formi

I. Kafli: Sameiginleg ákvæði

1. Nafn og tilgangur

1.1  

Sjóðurinn heitir Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík. Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum þessara samþykkta.

1.2 

Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi lífeyrissjóðsins í samræmi við lög nr. 129/1997 og lög nr. 87/1998.

1.3 

Lífeyrissjóðurinn greiðir sjóðfélögum ellilífeyri og örorkulífeyri og eftirlifandi maka þeirra og börnum og eftir atvikum sambúðaraðila lífeyri samkvæmt ákvæðum þeim sem hér fara á eftir.

1.4

Sjóðurinn leggur sérstaka áherslu á ellilífeyristryggingar og áskilur sér heimild til að verja þau réttindi umfram önnur við endurskoðun á réttindaákvæðum samþykkta þessara.

1.5

Sjóðurinn skal ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að sinna hlutverki sínu og er ekki heimilt að inna af hendi framlög í öðrum tilgangi.

1.6

Sjóðurinn starfar í þremur fjárhagslega aðskildum deildum, A – deild, B – deild og V – deild.

2. Sjóðfélagar

2.1  

Sjóðfélagar í A- deild eru þeir starfsmenn sveitarfélaga, stofnana, fyrirtækja og samlaga þeirra sem eru á aldrinum 16-70 ára og eru ráðnir samkvæmt kjarasamningi milli aðildarfélaga BSRB, aðildarfélaga Bandalags háskólamanna eða Kennarasambands Íslands annars vegar og sveitarfélaga, stofnana, fyrirtækja eða samlaga þeirra hins vegar. Framkvæmdastjórar sveitarfélaga og stjórnendur stofnana, fyrirtækja og samlaga þeirra eiga rétt til aðildar að A-deild. Sjóðsstjórn er heimilt að veita starfsmanni aðild að A-deild sem ekki á rétt til aðildar samkvæmt framangreindu.

2.2  

Þær starfsstéttir sem áttu skylduaðild að lífeyrissjóðum sveitarfélaga þann 30. júní 1998 og ekki falla undir skilgreiningu greinar 2.1 geta með sama hætti átt skylduaðild að sjóðnum.

2.3  

Sjóðfélagar í B-deild eru þeir sem áttu aðild eða rétt til aðildar að Eftirlaunasjóði starfsmanna Hafnarfjarðarkaupstaðar, Lífeyrissjóði Akranesskaupstaðar, Lífeyrissjóði Neskaupstaðar, Lífeyrissjóði starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar og Lífeyrissjóði starfsmanna Vestmannaeyjabæjar þann 30. júní 2013, Eftirlaunasjóði Reykjanesbæjar þann 31. desember 2016 og Lífeyrissjóði starfsmanna Kópavogsbæjar 31. desember 2017 er þessir sjóðir sameinuðust Brú lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga.

2.4  

Sjóðfélagar að V – deild geta þeir orðið sem þess óska, enda eigi viðkomandi ekki skylduaðild að öðrum lífeyrissjóði.

2.5  

Starfsmenn sem aðild eiga að A - deild sjóðsins skv. grein 2.2, geta átt val um aðild að V- deild skv. grein 15.1.

2.6  

Sjóðfélagar eru þeir sem greitt er fyrir, greiða eða hafa greitt iðgjöld til sjóðsins og eiga hjá honum réttindi.

3. Stjórn sjóðsins

3.1  

Stjórn sjóðsins skal skipuð sex einstaklingum. Samband íslenskra sveitarfélaga skipar þrjá stjórnarmenn, BSRB skipar tvo og Bandalag háskólamanna skipar einn. Jafnframt skulu sömu aðilar skipa jafnmarga einstaklinga til vara. Skipunartími stjórnarmanna er fjögur ár. Stjórnin kýs formann úr sínum hópi til tveggja ára í senn.

3.2  

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Þó skulu fulltrúar atvinnurekenda og stéttar-félaga hafa á hendi formennsku til skiptis, tvö ár í senn. Stjórnin skal setja sér starfs-reglur; hún skal halda gerðabók og rita í hana allar ákvarðanir sínar. Til þess að ákvörðun sé löglega samþykkt, þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði. Viðhafa skal leynilega atkvæðagreiðslu ef einn eða fleiri stjórnarmenn krefjast þess.

3.3  

Stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans. Stjórnin skal fjalla um allar meiriháttar ákvarð-anir varðandi stefnumótun sjóðsins og starfsemi. Stjórn sjóðsins ræður framkvæmda-stjóra, ákveður laun hans og önnur starfskjör og setur honum starfsreglur. Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á innra eftirlit sjóðsins, ræður forstöðumann endurskoðunardeildar eða semur við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila um innri endurskoðun. Stjórn sjóðsins velur endurskoðanda sjóðsins og skipar í endurskoðunarnefnd sjóðsins samkvæmt ákvæðum laga um ársreikninga nr. 3/2006.

3.4  

Stjórnin veitir og afturkallar prókúruumboð til handa framkvæmdastjóra og öðrum starfsmönnum.

3.5  

Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri sjóðsins skulu vera lögráða, fjárhagslega sjálf-stæðir, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld, svo og sérlögum um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi, í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Stjórnarmenn mega ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann né vera starfsmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann. Stjórnarmenn mega ekki sinna lögmannsstörfum fyrir annan lífeyrissjóð. Starfsmönnum sjóðsins er ekki heimilt að sitja í stjórn hans. Stjórnarmenn skulu búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt.

3.6  

Stjórnarformaður og framkvæmdastjóri sjóðsins skulu ekki sitja í stjórnum atvinnu-fyrirtækja í umboði hans. Þetta gildir þó ekki um fyrirtæki sem stofnuð eru til að sinna sérstökum þáttum í starfsemi sjóðsins. Ef stjórnarmaður lífeyrissjóðsins er jafnframt stjórnarmaður í fyrirtæki sem sjóðurinn á verulegan hlut í, getur sá hinn sami ekki gegnt stjórnarformennsku í lífeyrissjóðnum.

3.7  

Stjórnarmaður lífeyrissjóðs eða starfsmaður má ekki taka þátt í meðferð máls, ef hann hefur hagsmuna að gæta sem kynnu að fara í bága við hagsmuni sjóðsins. Sama gildir ef um er að ræða ákvarðanir sem tengjast fyrirtæki, þar sem stjórnarmaður kann að eiga umtalsverðra hagsmuna að gæta sem eigandi, stjórnarmaður eða starfsmaður. Sama gildir um aðila sem eru fjárhagslega tengdir stjórnarmönnum eða starfsmönnum í skilningi reglna FME nr. 1050/2012. Um hæfi til meðferðar einstakra mála fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga. Skylt er þeim, sem í hlut á, að upplýsa um aðstæður sem valda kunna vanhæfi skv. framansögðu.

3.8  

Stjórn sjóðsins, starfsmenn og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd sjóðsins mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna umfram aðra eða á kostnað sjóðsins. Þeir skulu einnig gæta þagmælsku um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu fyrir lífeyrissjóðinn og varða kann hagsmuni einstaklinga eða fyrirtækja og annað það sem leynt á að fara eðli máls samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi eða horfið úr stjórn.

3.9  

Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og fer í því efni eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn sjóðsins hefur gefið. Framkvæmdastjóri ræður aðra starfs-menn til sjóðsins. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða heimildar stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi sjóðsins. Í slíkum tilvikum skal haft samráð við formann stjórnar og aðra stjórnarmenn eftir föngum og stjórn í heild sinni tilkynnt um ráðstöfunina. Slíkar ákvarðanir skal síðan taka fyrir á næsta stjórnarfundi.

3.10  

Menntun, starfsreynsla og starfsferill framkvæmdastjóra skal vera með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt.

3.11  

Allar meiri háttar breytingar á skipulagi sjóðsins, innra eftirliti, bókhaldi og reikningsskilum skal framkvæmdastjóri aðeins gera að höfðu samráði við stjórn og að fengnu samþykki hennar.

3.12  

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að bókhald sjóðsins sé fært í samræmi við lög og viðurkenndar venjur og ber að fylgja þeirri fjárfestingarstefnu og verklagsreglum um fjárfestingar og verðbréfaviðskipti sem stjórn sjóðsins hefur sett. Á reglubundnum stjórnarfundum skal framkvæmdastjóri leggja fram yfirlit um fjárfestingar, rekstur og efnahag sjóðsins.

3.13  

Framkvæmdastjóri skal veita stjórn og endurskoðanda allar þær upplýsingar um hag og starfsemi sjóðsins sem þeir óska.

4. Ársfundur og aðrir sjóðfélagafundir

4.1  

Ársfund sjóðsins skal halda fyrir lok júní ár hvert. Stjórn sjóðsins skal boða til ársfundar með tryggilegum hætti með a.m.k. 14 daga fyrirvara.

4.2 Dagskrá ársfundar skal vera sem hér segir:  

4.2.1  

Skýrsla stjórnar lögð fram.

4.2.2  

Ársreikningar kynntir.

4.2.3  

Skýrsla um tryggingafræðilega úttekt kynnt.

4.2.4  

Fjárfestingarstefna kynnt og grein gerð á breytingum frá fyrra ári.

4.2.5  

Breytingar á samþykktum sjóðsins kynntar.

4.2.6  

Önnur mál.

4.3  

Allir sjóðfélagar svo og fulltrúar sveitarfélaga og stofnaðila sjóðsins, þ.e. BSRB, BHM, KÍ og Sambands íslenskra sveitarfélaga, eiga rétt til fundarsetu á ársfundi með málfrelsi og tillögurétti. Hver fundarmaður fer með eitt atkvæði. Stjórn sjóðsins er skylt að taka til umfjöllunar þær tillögur sem hljóta meirihluta atkvæða. Um breytingar á samþykktum sjóðsins fer skv. greinum 49.1 og 49.2.

4.4  

Aðra sjóðfélagafundi skal halda þegar stjórn telur ástæðu til. Slíka sjóðfélagafundi skal boða á sama hátt og ársfund.

4.5  

Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar skulu gerðir í samræmi við lög og reikningsskilareglur. Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.

5. Fjárfestingarstefna

5.1  

Stjórn sjóðsins mótar fjárfestingarstefnu sjóðsins og sér um ráðstöfun á fjármagni hans og er henni skylt að ávaxta það með hliðsjón af þeim kjörum, sem best eru boðin á hverjum tíma, að teknu tilliti til áhættu og með hliðsjón af langtímaskuldbindingum sjóðsins.

5.2  

Fjárfestingar sjóðsins og fjárfestingarstefna hans skulu vera í samræmi við heimildir laga og uppfylla allar þær kröfur um form og efni, sem gerðar eru í ófrávíkjanlegum ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nú VII. kafla laga nr. 129/1997, og bindandi stjórnvaldsfyrirmælum á hverjum tíma.

5.3  

Stjórn sjóðsins skal móta fjárfestingarstefnu þar sem sett eru viðmið um að hvaða marki skuli fjárfesta í einstökum eignaformum. Þar skulu enn fremur koma fram mark-mið m.a. um dreifingu eigna, tímalengd krafna, myntsamsetningu, seljanleika og aðrar þær viðmiðanir sem stjórn sjóðsins telur að gefi gleggsta mynd af fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins.

5.4  

Á ársfundi skal stjórnin leggja fram fjárfestingarstefnu og gera grein fyrir breytingum frá fyrra ári.

6. Iðgjöld

6.1  

Iðgjald til sjóðsins skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds vegna þess starfs sem kjara- eða ráðningarsamningur sem veitir aðild að sjóðnum tekur til. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

6.2  

Þá skal telja til iðgjaldsstofns atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Iðgjaldsstofn manns vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða vegna vinnu hans við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar skal vera jafnhár fjárhæð skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 58. gr. þeirra laga.

6.3  

Til gjaldstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnað, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrki, dagpeninga og fæðispeninga. Enn fremur skal ekki telja til gjaldstofns eftirlaun og lífeyri sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóður greiðir, bætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, slysa- og sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóðum stéttar-félaga og bætur tryggingafélaga vegna atvinnutjóns af völdum slysa.

II.kafli Breytingar á A-deild

7. Lífeyrisaukasjóður

7.1  

Lífeyrisaukasjóður er það framlag sem launagreiðendur greiða til A – deildar á grundvelli 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVIII við lög nr. 129/1997.

7.2  

Lífeyrisaukasjóðnum er ætlað að standa undir jafnri ávinnslu réttinda, sbr. grein 12, sbr. og grein 11.

7.3  

Framlag launagreiðenda í lífeyrisaukasjóð af reiknaðri framtíðarskuldbindingu jafnrar ávinnslu réttinda skal vera greitt í einu lagi með peningum eða verðtryggðum skuldabréfum með 3,5% vöxtum að hámarki til 30 ára. Greiðsla lífeyrisaukasjóðs með peningum eða verðtryggðum skuldabréfum skal háð samþykki stjórnar sjóðsins.

7.4  

Launagreiðendur aðrir en sveitarfélög, stofnanir sveitarfélaga, fyrirtæki og aðrar rekstareiningar sem að hálfu eða meiri hluta eru í eigu sveitarfélaga og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar, sbr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, geta óskað eftir því að greiða framlag í lífeyrisaukasjóð með sérstöku iðgjaldi í samræmi við grein 10. Greiðsla lífeyrisaukasjóðs með sérstöku iðgjaldi skal háð samþykki stjórnar sjóðsins.

7.5  

Lífeyrisaukasjóður skal vera hluti af hreinni eign A – deildar en gera skal sérstaka grein fyrir stöðu hans í skýringum í ársreikningi sjóðsins. Lífeyrisaukasjóður skal ávaxtast með sama hætti og aðrar eignir A – deildar og skulu fjárfestingatekjur færðar árlega til hækkunar eða lækkunar á lífeyrisaukasjóðnum.

7.6  

Lífeyrisaukasjóður skal bæta þann mismun, lífeyrisauka, sem myndast annars vegar á uppsafnaðri ávinnslu réttinda sjóðfélaga samkvæmt III. kafli A – deild og hins vegar á uppsafnaðri ávinnslu réttinda sjóðfélaga samkvæmt grein 12.

7.7  

Færslur úr lífeyrisaukasjóði skal reikna árlega í tengslum við tryggingafræðilega athugun, sbr. grein 40, sbr. og grein 23 og færa árlega í sjóð A – deildar, sbr. nánar grein 7.8. Grein þessi tekur einnig til færslna úr lífeyrisaukasjóði vegna lífeyris sem greiddur er mánaðarlega vegna framreiknaðra lífeyrisaukaréttinda skv. grein 12.10.

7.8  

Til grundvallar færslum úr lífeyrisaukasjóði í sjóð A – deildar er reiknuð breyting á skuldbindingu miðað við jöfn réttindi annars vegar og breyting á skuldbindingu miðað við aldursháð réttindi hins vegar og mismunurinn þar á milli er framlag ársins. Útreikningurinn skal taka mið af þeim sjóðfélögum sem eiga rétt á viðmiðun við jafna ávinnslu réttinda, sbr. grein 12. Útreikningurinn skal sýna hve mikið þarf að færa inn í A – deild til að standa undir ávinnslu lífeyrisréttinda skv. grein 12.8 og 12.10. Heildariðgjald að viðbættri jákvæðri færslu úr lífeyrisaukasjóði skal vera jafnverðmætt og ávinnsla lífeyrisréttinda skv. grein 12.8 og 12.10.

7.9  

Þess skal sérstaklega gætt að færslur úr lífeyrisaukasjóði trufli ekki að jafnræði ríki meðal allra sjóðfélaga. Tryggingastærðfræðingur sjóðsins skal árlega skila greinargerð til stjórnar sjóðsins.

7.10  

Eigi síðar en fyrir árslok 2021 skal stjórn sjóðsins láta framkvæma sérstaka athugun á forsendum og framkvæmd uppgjörs lífeyrisauka samkvæmt grein þessari.

8. Jafnvægissjóður

8.1  

Auk framlags launagreiðenda í lífeyrisaukasjóð, sbr. grein 7, skulu launagreiðendur greiða framlag í jafnvægissjóð. Jafnvægissjóður skal nýttur til að koma áfallinni tryggingafræðilegri stöðu A – deildar sjóðsins í jafnvægi miðað við 31.05.2017, sbr. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVIII við lög nr. 129/1997.

8.2  

Framlag launagreiðenda í jafnvægissjóð vegna halla áfallinna lífeyrisskuldbindinga skal vera greitt í einu lagi annað hvort með peningum eða verðtryggðum skuldabréfum með 3,5% vöxtum að hámarki til 30 ára. Greiðsla jafnvægissjóðs með peningum eða verðtryggðum skuldabréfum skal háð samþykki stjórnar sjóðsins.

8.3  

Jafnvægissjóður skal ekki teljast sem hluti lífeyrisaukasjóðs.

8.4  

Jafnvægissjóður skal vera hluti af hreinni eign A – deildar.

9. Varúðarsjóður

9.1  

Varúðarsjóður er það framlag sem launagreiðendur A – deildar leggja til á grundvelli 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVIII við lög nr. 129/1997.  

9.2  

Varúðarsjóðnum er ætlað að standa til vara að baki lífeyrisaukasjóðnum, sbr. grein 7, ef eignir lífeyrisaukasjóðsins duga ekki til að hann geti staðið við hlutverk sitt. 

9.3  

Framlag launagreiðenda í varúðarsjóð skal vera greitt í einu lagi með peningum eða verðtryggðum skuldabréfum með 3,5% vöxtum að hámarki til 20 ára. Greiðsla varúðarsjóðs með peningum eða verðtryggðum skuldabréfum skal háð samþykki stjórnar sjóðsins.  

9.4  

Varúðarsjóður skal aðgreindur frá öðrum fjármunum sem A deild fer með og telst ekki með í reiknaðri hreinni eign til greiðslu lífeyris. Árleg ávöxtun varúðarsjóðs skal lögð við höfuðstól hans.  

9.5  

Samband íslenskra sveitarfélaga skipar þrjá fulltrúa og BSRB, Bandalag háskólamanna og Kennarasamband Íslands skipa þrjá fulltrúa í matshóp sem yfirferð tryggingafræðilega stöðu og ákveður hvort skilyrði fyrir ráðstöfun fjármuna úr varúðarsjóði séu uppfyllt. Komist matshópur ekki að niðurstöðu um nýtingu varúðarsjóðsins skulu aðilar velja sameiginlega oddamann sem tekur þá sæti í matshópnum.  

9.6 Matshópur skal leggja mat á stöðu lífeyrisaukasjóðsins á eftirfarandi hátt:  

9.6.1  

Sé tryggingafræðileg staða lífeyrisaukasjóðs samkvæmt árlegu mati neikvæð um 10% eða meira í fimm ár eða hafi hún haldist neikvæð um a.m.k. 5% samfellt í meira en tíu ár skal leggja höfuðstól varúðarsjóðsins í heild eða að hluta við eignir lífeyrisaukasjóðsins, í báðum tilvikum þar til að neikvæðu 5% viðmiði er náð, og fjármunirnir nýttir til að mæta skuldbindingum hans.

9.6.2  

Að tuttugu árum liðnum frá stofnun varúðarsjóðs skal leggja höfuðstól hans í heild eða að hluta við eignir lífeyrisaukasjóðsins að því marki sem þörf er á til að tryggingafræðileg staða hans verði jákvæð um a.m.k. 2,5%. Það sem eftir kann að standa af höfuðstóli varúðarsjóðs skal endurgreiða launagreiðendum nema stjórn sjóðsins ásamt stofnaðilum hans, Sambands íslenskra sveitarfélaga, BSRB, BHM og KÍ telji að sérstök rök séu fyrir því að ráðstafa eftirstöðvunum til lífeyrisaukasjóðsins eða A – deildar.

9.6.3  

Komi í ljós að varúðarsjóðurinn geti ekki staðið við hlutverk sitt, þ.e. ef eign sjóðsins dugir ekki til að styðja þannig við lífeyrisaukasjóðinn að komist verði hjá skerðingu á greiðlum úr honum, skulu launagreiðendur taka upp viðræður við heildarsamtök opinberra starfsmanna um hvernig við því verði brugðist. Í þeim viðræðum skal lagt mat á hvort þær tryggingafræðilegu forsendur sem byggt er á við ákvörðun á framlagi í lífeyrisaukasjóð, svo sem forsendur varðandi útreikning á lífslíkum, hafi leitt til vanmats á fjárþörf sjóðsins. Verði það niðurstaðan skal brugðist við því þannig að markmið um jafn verðmæt réttindi sjóðfélaga séu tryggð.

10. Sérstakt iðgjald launagreiðenda

10.1  

Launagreiðendur, aðrir en þeir sem greiða framlag í lífeyrisaukasjóð í samræmi við grein 7.3 , skulu greiða sérstakt iðgjald sem standa skal undir jafnri ávinnslu réttinda, sbr. grein 12, sbr. og grein 11.

10.2  

Iðgjald launagreiðenda samkvæmt grein 10.1 skal bæta þann mismun, lífeyrisauka, sem myndast annars vegar á ávinnslu réttinda sjóðfélaga samkvæmt grein III. kafli A – deild og hins vegar á ávinnslu réttinda sjóðfélaga samkvæmt grein 12, og skal iðgjaldið reiknað út frá öllum sjóðfélögum sem eiga rétt á jafnri ávinnslu réttinda.

10.3  

Iðgjald launagreiðenda samkvæmt grein 10.1 skal greiða samhliða iðgjöldum í A – deild skv. grein 14. Stofn til iðgjalds launagreiðanda samkvæmt grein 10.1 skal vera hinn sami og kveðið er á um í grein 6.

10.4  

Iðgjald launagreiðenda samkvæmt grein 10.1 skal endurskoða árlega í samræmi við niðurstöðu tryggingafræðilegrar athugunar, sbr. grein 40, sbr. og grein 23. Stjórn sjóðsins skal taka ákvörðun um breytingu iðgjaldsins eigi síðar en 1. október fyrir komandi almanaksár.

11. Sjóðfélagar sem eiga rétt á jafnri ávinnslu réttinda

11.1  

Sjóðfélagar sem hafa greitt í A – deild einhvern tíma á síðustu 12 mánuðum fyrir 1. júní 2017 og starfa hjá launagreiðendum sem greiða framlag í lífeyrisaukasjóð í samræmi við grein 7.3 eða grein 7.4, eiga rétt á jafnri ávinnslu réttinda, sbr. grein 12.

11.2  

Sjóðfélagar sem hafa greitt í A – deild einhvern tíma á síðustu 12 mánuðum fyrir 1. júní 2017 og starfa hjá öðrum launagreiðendum en þeim sem tilgreindir eru í grein 11.1, eiga því aðeins rétt á jafnri ávinnslu réttinda, sbr. grein 12, að launagreiðandi samþykki greiðslu framlags í lífeyrisaukasjóð í samræmi við grein 7.3 eða 7.4.

11.3  

Sjóðfélagar sem greiddu ekki í A – deild einhvern tíma á síðustu 12 mánuðum fyrir 1. júní 2017, án þess þó að formlegu ráðningarsambandi þeirra og launagreiðanda sem tryggir starfsmenn sína í A deild hafi verið slitið, skulu falla undir grein 11.1 eða 11.2.

11.4  

Sjóðfélagar sem greiddu ekki í A – deild einhvern tíma á síðustu 12 mánuðum fyrir 1. júní 2017, skulu falla undir grein 11.1 eða 11.2, hefji þeir á ný greiðslur í A deild eigi síðar en 31. maí 2018.

11.5  

Falli iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga í A – deild niður, af öðrum ástæðum en tilgreindar eru í grein 11.3, til lengri tíma en 12 mánaða, fellur réttur sjóðfélaga til frekari jafnrar ávinnslu réttinda, sbr. grein 12, niður.

11.6  

Sjóðfélagar sem eiga rétt til jafnrar ávinnslu réttinda í A – deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og skipta um starf og verða sjóðfélagar í A – deild, skulu falla undir grein 11, að því tilskildu að ekki hafi liðið lengri tími en 12 mánuðir á milli starfa og að samkomulag sé til staðar milli sjóðsins og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um kostnað við lífeyrisauka vegna sjóðfélaga sem færast milli sjóðanna.

11.7  

Sjóðfélagar sem skipta um starf og fara milli mismunandi launagreiðanda skulu falla undir grein 11 að því tilskyldu að um launagreiðanda sé að ræða sem tryggir starfsmenn sína í A deild og samþykkt hefur framlag í lífeyrisaukasjóð í samræmi við grein 7.3 eða 7.4.

11.8  

Sjóðnum er heimilt að framlengja tímabil það sem getið er um í greinum 11.4, 11.5 og 11.6 um 12 mánuði vegna náms, veikinda eða fæðingarorlofs sjóðfélaga.

12. Viðmiðun við jafna ávinnslu réttinda

12.1  

Viðmiðun við jafna ávinnslu réttinda sem fjallað er um í grein 12 eru ævilangur ellilífeyrisréttur frá 65 ára aldri, örorkulífeyrir ef svo á við til 65 ára aldurs og 50% af réttindum sjóðfélaga í tímabundinn makalífeyri. Greinar 17, 18, 20, 21 og 22 eiga við um örorku- og makalífeyri.

12.2  

Jöfn ávinnsla réttinda veitir lífeyrisréttindi sem eru 1,9% af þeim launum sem iðgjald er greitt af. Lífeyrisrétturinn er verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í þeim launamánuði sem iðgjaldið er greitt af.

12.3  

Fresti sjóðfélagi töku ellilífeyris, hækkar viðmiðun lífeyris sjóðfélaga sem miðaðist við 65 ára aldur, fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er frestað fram yfir 65 ára aldurinn, en þó ekki lengur en til 80 ára aldurs, samkvæmt Tafla 1a: Hækkun ellilífeyris þegar taka hefst eftir 65 ára aldur.

Tafla 1a: Hækkun ellilífeyris þegar taka hefst eftir 65 ára aldur
Taka lífeyris hefst   Hækkun fyrir hvern mánuð
65-66 ára 0,56%
66-67 0,62%
67-68 0,69%
68-69 0,77%
69-70 0,86%
70-71 0,96%
71-72 1,09%
72-73 1,23%
73-74 1,41%
74-75 1,61%
75-76 1,86%
76-77 2,17%
77-78 2,53%
78-79 2,99%
79-80 3,55%
Tafla 1a mun breytast til lækkunar þegar lífslíkur munu taka tillit til lækkandi dánartíðni í framtíðinni.

12.4  

Flýti sjóðfélagi töku ellilífeyris, lækkar áunninn lífeyrir hans samkvæmt Tafla 1b: Lækkun ellilífeyris þegar taka hefst fyrir 65 ára aldur, fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er flýtt.

Tafla 1b: Lækkun ellilífeyris þegar taka hefst fyrir 65 ára aldur
Taka lífeyris hefst   Lækkun fyrir hvern mánuð
65-64 ára 0,65%
64-63 0,60%
63-62 0,55%
62-61 0,50%
61-60 0,45%

 

12.5  

 Hafi sjóðfélagi hafið töku ellilífeyris og greiðir áfram til A-deildar sjóðsins skulu viðmiðunar lífeyrisréttindi vera 0,95% af þeim launum sem iðgjald er greitt af  og reiknast án þeirrar hækkunar sem fjallað er um í grein 12.3. 

12.6  

Hefji sjóðfélagi töku ellilífeyris fyrir 65 ára aldur er sú ákvörðun endanleg. Réttur til örorkulífeyris fellur því niður frá þeim tíma er greiðsla ellilífeyris hefst.

12.7  

Viðmiðun jafnrar ávinnslu réttinda skv. grein 12 tekur til ávinnslu réttinda hverju sinni. Áunnin viðmiðunarréttindi sjóðfélaga sem eiga rétt á jafnri ávinnslu réttinda skv. grein 11, skulu taka breytingum skv. grein 23.

12.8  

Mánaðarlega og við úrskurð lífeyris skulu áunnin réttindi frá 1. júní 2017 sem reiknuð eru með viðmiðun við jafna ávinnslu réttinda, að teknu tilliti til breytinga skv. grein 23, borin saman við áunnin réttindi frá 1. júní 2017 skv. III. kafli A – deild. Reynast áunnin réttindi sem reiknuð eru með viðmiðun við jafna ávinnslu réttinda, sbr. að framan, hærri en áunnin réttindi skv. III. kafli A – deild, sbr. að framan, skulu sjóðfélaga reiknuð réttindi svo að jöfnuði verði náð. Þau réttindi skulu teljast til áunninna réttinda sjóðfélaga og lúta eftir því sem við getur átt ákvæðum skv. III. kafli A – deild.  

12.9  

Þrátt fyrir ákvæði 12.8 skal í þeim tilvikum, sem sjóðfélagi hefur öðlast rétt til jafnrar ávinnslu réttinda hjá sjóðnum og í A – deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, horfa til réttinda sjóðfélaga í báðum sjóðunum við mat á því hvort sjóðfélaga reiknist áunnin réttindi sem reiknuð eru með viðmiðun við jafna ávinnslu réttinda eða áunnin réttindi skv. III. kafli A – deild. 

12.10  

Stofnist réttur til framreiknings við úrskurð lífeyris skal hinn framreiknaði réttur reiknaður bæði eftir ákvæðum III. kafli A – deild og ákvæðum greinar 12 um viðmiðun við jafna ávinnslu réttinda. Reynast áunnin réttindi auk framreiknaðra réttinda með viðmiðun við jafna ávinnslu réttinda hærri en áunnin réttindi auk framreiknaðra réttinda skv. ákvæðum III. kafli A – deild, skal sjóðfélaga reiknaður lífeyrir svo að jöfnuði verði náð.

12.11 

Sjóðfélagi sem ekki hefur hafið töku ellilífeyris í A – deild sjóðsins getur ákveðið að hefja töku hálfs lífeyris hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð og telst hann þá hafa ráðstafað þeim hluta ellilífeyrisréttinda sinna, sbr.12.6. Ákvæði 12.4 skal gilda um þann hluta sem ráðstafað er fyrir 65 ára aldur. Ákvæði 12.3 skal gilda um hinn frestaða hluta eftir að 65 ára aldri er náð.  

12.12  

Sjóðfélagi sem hefur hafið töku ellilífeyris við gildistöku þessa ákvæðis getur með sérstakri umsókn þar að lútandi, fram til 1. janúar 2020 farið á hálfan ellilífeyri. Skal þá tryggingastærðfræðingur meta sérstaklega áhrif frestunar- og/eða flýtingar á fjárhæð lífeyris enda gilda ekki ákvæði 12.4 og 12.3 í slíkum tilvikum. Við mat tryggingastærðfræðings skal byggja á því að tryggingafræðilegar skuldbindingar lífeyrissjóðsins breytist ekki, þannig skal byggja á sömu sjónarmiðum og liggja að baki ákvæðum 12.4 og12.3. Sjóðfélagi sem nýtir sér heimild ákvæðis þessa telst eftir sem áður hafa ráðstafað réttindum endanlegan samkvæmt ákvæði 12.6. 

III. Kafli A- deild

13. Áunninn réttindi vegna iðgjalda til 1. júní 2017

13.1  

Áunninn réttindi sjóðfélaga í A – deild vegna iðgjalda til 1. júní 2017 skulu varðveitt samkvæmt þeim réttindareglum sem þá giltu. Réttindin geta tekið breytingum í samræmi við grein 23.

14. Iðgjöld í A – deild.

14.1  

Sjóðfélagar greiða 4% af launum skv. grein 6 í iðgjald til sjóðsins. Sjóðfélagar bera eigi ábyrgð á skuldbindingum deildarinnar með öðru en iðgjöldum sínum.

14.2  

Iðgjald launagreiðenda skal vera að lágmarki 11,5% af iðgjaldsstofni.

14.3  

Iðgjald veitir lífeyrisréttindi samkvæmt Tafla 2: Árlegur lífeyrir fyrir 10.000 kr. iðgjald. Taflan sýnir árlegan lífeyri fyrir hvert 10.000 króna iðgjald sem greitt er. Lífeyrisrétturinn er verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í þeim mánuði sem iðgjald berst.

Tafla 2: Árlegur lífeyrir fyrir 10.000 kr iðgjald.
Aldur 

Lífeyris-
réttindi

Aldur  Lífeyris-
réttindi
Aldur Lífeyris-
réttindi
Aldur Lífeyris-
réttindi
Aldur Lífeyris-
réttindi
16 3128 26 2119 36 1575 46 1211 56 930
17 2993 27 2050 37 1533 47 1179 57 908
18 2866 28 1985 38 1494 48 1148 58 887
19 2749 29 1923 39 1455 49 1117 59 867
20 2640 30 1865 40 1417 50 1087 60 849
21 2538 31 1811 41 1381 51 1059 61 831
22 2443 32 1759 42 1346 52 1031 62 813
23 2354 33 1710 43 1311 53 1004 63 797
24 2271 34 1663 44 1277 54 978 64 779
25 2192 35 1618 45 1243 55 954 65 756
                66 726

 

15. Val sjóðfélaga A- deildar

15.1  

Eigi sjóðfélagi aðild að A – deild skal honum heimilt að flytja í V – deild með formlegri tilkynningu til sjóðsins. Slíkt val er óafturkallanlegt. Sjóðfélagi sem fær aðild að A – deild samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi skal fá þá aðild staðfesta af lífeyrissjóðnum og jafnframt skal sjóðurinn kynna fyrir sjóðfélaga möguleika hans á aðild að V – deild og hvaða kostir eru þar í boði.

16. Ellilífeyrir í A-deild

16.1  

Hver sjóðfélagi A– deildar, sem er orðinn 67 ára, á rétt á ellilífeyri. Árlegur ellilífeyrir frá 67 ára aldri er uppsafnaður lífeyrisréttur reiknaður samkvæmt Tafla 2: Árlegur lífeyrir fyrir 10.000 kr. iðgjald. Ávinnsla réttinda ræðst af aldri sjóðfélaga í lok þess launamánaðar sem iðgjald er greitt af til lífeyrissjóðsins. Ellilífeyririnn greiðist í fyrsta sinn fyrir næsta mánuð eftir að sjóðfélaginn verður 67 ára

16.2  

Sjóðfélaga er heimilt að fresta allt til 80 ára aldurs að taka ellilífeyri úr A–deild og hækkar lífeyririnn, sem miðaðist við 67 ára aldur, samkvæmt Tafla 3a: Hækkun lífeyris þegar taka hefst eftir 67 ára aldur, fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er frestað fram yfir 67 ára aldurinn, en þó ekki lengur en til 80 ára aldurs.

Tafla 3a: Hækkun lífeyris þegar taka hefst eftir 67 ára aldur

Taka lífeyris hefst Hækkun fyrir hvern mánuð
67-68 ára 0,6%
68-69 0,66%
69-70 0,73%
70-71 0,83%
71-72 0,94%
72-73 1,07%
73-74 1,22%
74-75 1,40%
75-76 1,61%
76-77 1,88%
77-78 2,20%
78-79 2,60%
79-80 3,10%

Tafla 3a mun breytast til lækkunar þegar lífslíkur munu taka tillit til lækkandi dánartíðni í framtíðinni

16.3  

Á sama hátt er sjóðfélaga heimilt að hefja töku ellilífeyris áður en hann nær 67 ára aldri, þó ekki fyrr en frá 60 ára aldri og skal þá áunninn lífeyrir hans lækkaður samkvæmt Tafla 3b: Lækkun lífeyris þegar taka hefst fyrir 67 ára aldur, fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er flýtt.

Tafla 3b: Lækkun lífeyris þegar taka hefst fyrir 67 ára aldur

Taka lífeyris hefst Lækkun fyrir hvern mánuð
67-66 ára 0,6%
66-65 0,55%
65-64 0,5%
64-63 0,45%
63-62 0,41%
62-61 0,37%
61-60 0,35%

 

16.4  

Haldi sjóðfélagi áfram að ávinna sér réttindi eftir að hann hefur hafið töku ellilífeyris skulu viðbótarréttindi hans reiknuð á ný þegar hann hefur náð 70 ára aldri. Réttindi, sem sjóðfélagi ávinnur sér eftir að taka lífeyris hefst, reiknast án þeirrar hækkunar sem fjallað er um í grein 16.2. Þrátt fyrir ákvæði greinar 16.1 skulu réttindi sem aflað er eftir að taka lífeyris hefst, vera samkvæmt Tafla 3c: Árlegur lífeyrir fyrir 10.000 kr. iðgjald sem greitt er eftir að 67 ára aldri er náð og hækkun vegna frestunar á töku þessa lífeyris.

Tafla 3c: Árlegur lífeyrir fyrir 10.000 kr. iðgjald sem greitt er eftir að 67 ára aldri er náð og hækkun vegna frestunar á töku þessa lífeyris.

Aldur Lífeyrisréttindi
67 745
68 771
69 798

 

  Aldur við ávinnslu réttinda  
Taka lífeyris hefst 67 68 69  
68 0,62%    

 

 

Hækkun fyrir hvern mánuð

69 0,69% 0,65%  
70 0,78% 0,72% 0,67%
71 0,89% 0,82% 0,76%
72 1,00% 0,93% 0,86%
73 1,15% 1,07% 0,99%
74 1,31% 1,22% 1,13%
75 1,51% 1,41% 1,30%
76 1,77% 1,64% 1,52%
77 2,06% 1,92% 1,78%
78 2,44% 2,27% 2,10%
79 2,89% 2,69% 2,50%

 

16.5  

Hefji sjóðfélagi töku ellilífeyris fyrir 67 ára aldur er sú ákvörðun endanleg. Réttur til örorkulífeyris fellur því niður frá þeim tíma er greiðsla ellilífeyris hefst.

16.6  

Sjóðfélagi sem ekki hefur hafið töku ellilífeyris í A – deild sjóðsins getur ákveðið að hefja töku hálfs lífeyris hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð og telst hann þá hafa ráðstafað þeim hluta ellilífeyrisréttinda sinna, sbr. 16.5. Ákvæði 16.3 skal gilda um þann hluta sem ráðstafað er fyrir 67 ára aldur. Ákvæði 16.2 skal gilda um hinn frestaða hluta eftir að 67 ára aldri er náð.

16.7  

Sjóðfélagi sem hefur hafið töku ellilífeyris við gildistöku þessa ákvæðis getur með sérstakri umsókn þar að lútandi, fram til 1. janúar 2020 farið á hálfan ellilífeyri. Skal þá tryggingastærðfræðingur meta sérstaklega áhrif frestunar- og/eða flýtingar á fjárhæð lífeyris enda gilda ekki ákvæði 16.3 og 16.2 í slíkum tilvikum. Við mat tryggingastærðfræðings skal byggja á því að tryggingafræðilegar skuldbindingar lífeyrissjóðsins breytist ekki, þannig skal byggja á sömu sjónarmiðum og liggja að baki ákvæðum 16.3 og 16.2. Sjóðfélagi sem nýtir sér heimild ákvæðis þessa telst eftir sem áður hafa ráðstafað réttindum endanlegan samkvæmt ákvæði 16.5.

17. Makalífeyrir í A – deild

17.1  

Eftirlifandi maki sjóðfélaga, sem naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum eða greitt hafði iðgjald til hans a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum, á rétt á lífeyri úr sjóðnum.

17.2  

Fjárhæð óskerts makalífeyris er helmingur af áunnum lífeyrisréttindum sjóðfélaga skv. grein 16.1. Óskertur makalífeyrir skal að lágmarki greiddur í 36 mánuði og 50% makalífeyrir í 24 mánuði til viðbótar.

17.3  

Hafi makinn barn yngra en 22 ára á framfæri sínu, sem sjóðfélaginn hafði áður á fram-færi sínu, skal fullur makalífeyrir greiddur fram að 22 ára aldri yngsta barnsins. Sé maki a.m.k. 50% öryrki skal greiddur makalífeyrir meðan sú örorka varir, enda sé eftirlifandi maki yngri en 67 ára við fráfall sjóðfélagans.

17.4  

Jafnframt skal greiða makalífeyri ótímabundið til eftirlifandi maka sjóðfélaga sem fæddir eru fyrir 1. janúar 1945 með þeim takmörkunum sem hér segir: Makalífeyrir skv. greinum 17.2 og 18.1 skal lækka um 2% fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1925, 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1930, 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1935 og 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1940.

17.5  

Makalífeyrisþegi telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er hér átt við sambúð tveggja einstaklinga sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. eitt ár. Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar, en gengur aftur í gildi ef síðara hjónabandinu eða sambúðinni er slitið án réttar til lífeyris.

18. Framreikningur makalífeyris í A – deild

18.1  

Veiti dauðsfallið eftirlifandi maka jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum sjóði skal hann því aðeins njóta framreikningsréttinda úr þessum sjóði að hinn látni hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs. Séu skilyrði greinar 17.1 um iðgjaldagreiðslutíma ekki uppfyllt ákvarðast upphæð makalífeyris í samræmi við grein 44.1. Hafi sjóðfélagi greitt til sjóðsins a.m.k. sex mánuði af síðustu tólf skal auk áunninna réttinda telja helming þeirra réttinda sem ætla má að sjóðfélaginn hefði áunnið sér fram til 65 ára aldurs, reiknuð í samræmi við ákvæði greinar 21.4. Hafi sjóðfélaginn notið örorkulífeyris úr sjóðnum skal reikna réttindi frá þeim tíma er honum var veittur örorkulífeyrir og til þess tíma er makalífeyrir er veittur, allt að 65 ára aldri, í samræmi við ákvæði greinar 22.3, en síðan til 65 ára aldurs í samræmi við réttindi þau sem lögð voru til grundvallar örorkulífeyri.

19. Barnalífeyrir í A – deild

19.1  

Nú andast sjóðfélagi sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. 24 mánuði af undan-farandi 36 mánuðum eða notið úr honum elli- eða örorkulífeyris við andlátið í a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum, og eiga þá börn hans og kjörbörn sem hann lætur eftir sig og yngri eru en 22 ára rétt á lífeyri úr sjóðnum til 22 ára aldurs. Veiti fráfall sjóðfélagans börnunum jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði skal lífeyrir úr þessum sjóði þó bundinn því skilyrði að sjóðfélaginn hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs.

19.2  

Fullur barnalífeyrir vegna fráfalls sjóðfélaga er 10.000 kr. með hverju barni fyrir hvern almanaksmánuð. Fjárhæð þessi breytist í hlutfalli við breytingu á vístölu neysluverðs frá 173,5 stigum. Fullur barnalífeyrir greiðist ef árleg áunnin réttindi, áætluð í samræmi við greinar 17.2 og 18.1, samsvara a.m.k. 932 krónur miðað við 173,5 stig vísitölu neysluverðs í mánaðarlegan lífeyrisrétt samkvæmt grein 16.1. Séu áætluð árleg réttindi lægri lækkar barnalífeyrir frá sjóðnum hlutfallslega og fellur niður ef árleg áunnin réttindi reiknast minni en 466 krónur í mánaðarlegan lífeyrisrétt samkvæmt grein 16.1 miðað við 173,5 stig vísitölu neysluverðs.

19.3  

Sé sjóðfélaga, sem uppfyllir skilyrði greina 21.1.1 og 21.1.2, úrskurðaður örorkulífeyrir úr sjóðnum vegna 100% örorku öðlast börn hans, fædd fyrir orkutap eða á næstu tólf mánuðum þar á eftir, svo og kjörbörn sem ættleidd hafa verið fyrir orkutap, sama rétt og börn látins sjóðfélaga njóta skv. grein 19.2 með þeirri undantekningu að fjárhæð fulls barnalífeyris fyrir hvern almanaksmánuð er 7.500 kr. með hverju barni. Fjárhæð þessi breytist í hlutfalli við breytingu á vístölu neysluverðs frá 173,5 stigum. Sé örorka skv. kafla 20 metin lægri en 100% skal barnalífeyrir sjóðsins vera hlutfallslega lægri. Barnalífeyrir, sem greiddur er vegna örorku sjóðfélaga, fellur ekki niður þó að sjóðfélaginn nái ellilífeyrisaldri.

19.4  

Fósturbörn og stjúpbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, skulu eiga rétt á barnalífeyri. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins vegna slíkra barna vera hinar sömu og vera mundu ef um börn eða kjörbörn væri að ræða.

19.5  

Barnalífeyrir greiðist framfæranda barnsins til 18 ára aldurs þess, en eftir það til barnsins.

20. Örorkulífeyrir í A – deild

20.1  

Sjóðfélagi sem er yngri en 67 ára og verður fyrir orkutapi sem er 40% eða meira og hefur áunnið sér alls a.m.k. 1.865 krónur miðað við 173,5 stig vísitölu neysluverðs í mánaðarlegan lífeyrisrétt samkvæmt grein 16.1 eða hefur greitt til sjóðsins iðgjald í a.m.k. tvö ár á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við áunnin réttindi fram að orkutapi.

20.2  

Örorkulífeyrir er sama hlutfall af hámarksörorkulífeyri og orkutapið er metið, sbr. þó grein 20.1.

20.3  

Örorkulífeyrir er ekki greiddur ef orkutap varir skemur en sex mánuði.

20.4  

Sjóðfélaga er skylt, sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur slíks lífeyris, að láta sjóðnum í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt og atvinnutekjur sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til lífeyris.

20.5  

Réttur til örorkulífeyris stofnast aðeins ef sjóðfélagi hefur orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir úr sjóðnum vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Því til sönnunar getur sjóðurinn krafist upplýsinga frá vinnuveitanda, Ríkisskattstjóra, Tryggingastofnun ríkisins og sjúkrasjóðum. Við mat á tekjuskerðingu er tekið tillit til greiðslna frá öðrum lífeyrissjóðum, atvinnutekna, bóta almannatrygginga og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem sjóðfélagi nýtur vegna orkutaps. Við mat á tekjuskerðingu skal nota sem viðmiðunartekjur meðaltal tekna sjóðfélaga síðustu þrjú ár fyrir orkutap verðbætt til úrskurðardags. Viðmiðunar-tekjurnar taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu launa.

20.6  

Stjórn sjóðsins ákveður á hverjum tíma hvaða tekjur sjóðfélaga teljast til viðmiðunartekna.

20.7  

Hlutfall orkutaps og tímasetning þess er ákvarðað að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku umsækjanda. Trúnaðarlæknir metur hlutfall orkutaps og tímasetningu þess.

20.8  

Fyrstu fimm árin eftir orkutap skal mat þess aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi sem hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Að því tímabili loknu skal hlutfall orkutaps ákvarðað að nýju með tilliti til vanhæfni sjóðfélagans til að gegna almennum störfum. Sjóðurinn getur óskað eftir því að endurmat fari fram oftar telji hann þess þörf.

20.9  

Sjóðnum er heimilt að setja sem skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt gæti heilsufar hans.

21. Framreikningur örorkulífeyris í A – deild

21.1  

Séu neðangreind skilyrði uppfyllt skal lífeyrir framreiknaður til 65 ára aldurs samkvæmt ákvæðum greinar 21.4.

21.1.1  

að sjóðfélagi hafi greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og áunnið sér eigi minna en 466 krónur miðað við 173,5 stig vísitölu neysluverðs í mánaðarlegan lífeyrisrétt samkvæmt grein 16.1 hvert þessara þriggja ára,

21.1.2  

að sjóðfélagi hafi greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum fyrir orkutap, og

21.1.3  

að sjóðfélagi hafi ekki orðið fyrir orkutapi sem rekja megi til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.

21.2  

Eigi sjóðfélaginn jafnframt rétt á örorkulífeyri úr öðrum lífeyrissjóði skal framreikningur jafnframt taka mið af skilyrðum samkomulags um samskipti lífeyrissjóða og viðauka þess samkomulags.

21.3  

Hafi sérstakar ástæður, svo sem aldur sjóðfélaga, búseta hans erlendis eða nám, orðið þess valdandi að hann hefur ekki getað uppfyllt tímaskilyrði þau sem nefnd eru í grein 21.1.1 er sjóðnum heimilt að stytta þann tíma sem þar er krafist í tvö undanfarandi almanaksár, enda verði talið fullvíst að orsök örorku verði ekki rakin til tíma fyrir orkutap.

21.4  

Framreikningur er viðbót við örorkulífeyri sem nemur þeim réttindum sem árlegt meðaltal iðgjalda næstu þrjú almanaksárin fyrir orkutapið gæfi sjóðfélaga, væri það greitt þau ár sem vantar á 65 ára aldur sjóðfélaga, reiknaður í samræmi við metið hlutfall orkutaps. Telji sjóðurinn þetta þriggja ára meðaltal vera sjóðfélaganum óhagstætt vegna sjúkdómsforfalla eða atvinnuleysis er sjóðnum heimilt að leggja til grundvallar meðaltal réttinda fleiri ár aftur í tímann og sleppa úr meðaltalinu því almanaksári sem lakast er.

21.5  

Hafi sjóðfélagi haft skerta almenna starfsorku fyrir þann tíma er hann hóf iðgjalda-greiðslur til sjóðsins og meta má þá starfsorkuskerðingu 50% eða meira er lífeyrissjóðnum heimilt að reikna meðaltal réttinda hans öll þau almanaksár sem hann hefur greitt iðgjald til sjóðsins og miða framreikning við þetta meðaltal.

21.6  

Nú hafa iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga verið svo stopular að þær hafa fallið niður eða verið innan við sem svarar 400 þúsund króna árslaunum, miðað við 173,5 stig vísitölu neysluverðs, fleiri en eitt almanaksár eftir lok þess árs er sjóðfélagi náði 25 ára aldri og skal þá framreikningstími styttur í hlutfallinu milli fjölda almanaksára sem árlegar iðgjaldagreiðslur hafa svarað til lægri árslauna en 400 þúsund króna og fjölda almanaksára frá 25 ára aldri fram til starfsorkutaps.

21.7  

Nemi árlegt meðaltal sem miða skal framreikning við skv. grein 21.4 eða 21.5 meira en 5.595 krónum í mánaðarlegan lífeyrisrétt samkvæmt grein 16.1 miðað við 173,5 stig vísitölu neysluverðs er lífeyrissjóðnum heimilt að reikna með meðaltalinu allt að tíu árum, en síðan til 65 ára aldurs, að reikna með framangreindu meðaltali á ári að viðbættum helmingi þeirra réttinda sem umfram eru.

21.8  

Ef rekja má sjúkdóma þá sem valda orkutapi sjóðfélaga svo langt aftur í tímann að nemi a.m.k. helmingi almanaksára frá lokum þess árs er sjóðfélagi náði 16 ára aldri til þess tíma er orkutap telst hafa orðið skulu framreiknuð réttindi aldrei reiknast hærri en þau réttindi sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér í lífeyrissjóðum fram að orkutapi.

22. Niðurfelling / breyting örorkulífeyris í A – deild

22.1  

Ef metið hlutfall orkutaps sjóðfélaga breytist við endurmat þá breytist örorkulífeyrir samsvarandi og fellur niður ef orkutapið fer niður fyrir 40%.

22.2  

Sjóðnum er heimilt að lækka eða fella niður örorkulífeyri ef tekjur aukast þannig að skilyrðum greinar 20.5 er ekki lengur fullnægt.

22.3  

Örorkulífeyrir fellur niður við 67 ára aldur, og hefst þá taka ellilífeyris. Fjárhæð ellilífeyris er þá reiknuð út frá áunnum réttindum sjóðfélaga við orkutap. Hafi sjóðfélagi notið framreiknings skv. kafla 21, skal fjárhæð ellilífeyris einnig reiknuð út frá framreikningi. Við töku ellilífeyris skv. grein þessari skal ekki miðað við hlutfall orkutaps sjóðfélaga.

23. Endurskoðun réttinda í A – deild

23.1  

Deildin skal eiga fyrir skuldbindingum sínum skv. tryggingafræðilegri athugun, sbr. grein 40.1. Ef eignir duga ekki fyrir áföllnum skuldbindingum skal sjóðurinn gera viðeigandi ráðstafanir svo sem að skerða áunnin réttindi og/eða skerða þau réttindi sem iðgjald til sjóðsins veitir.

23.2  

Við tryggingafræðilega athugun A – deildar skal annars vegar reikna stöðu deildarinnar í heild og hins vegar reikna sérstaklega framtíðarskuldbindingar vegna þeirra sjóðfélaga sem eiga rétt á jafnri ávinnslu réttinda, sbr. grein 11, sbr. og grein 12 og stöðu lífeyrisaukasjóðsins, sbr. grein 7.

23.3  

Við tryggingafræðilega athugun A – deildar skal reikna skuldbindingar vegna sjóðfélaga sem náð höfðu 60 ára aldri fyrir 1. júní 2017 og/eða höfðu hafið töku ellilífeyris fyrir 1. júní 2017 sem og þeirra sjóðfélaga sem höfðu hafið töku örorku-, maka- og/eða barnalífeyris fyrir 1. júní 2017.

23.4  

Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meiri frávik eru á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga sem kveðið er á um í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 er stjórn sjóðsins skylt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins. Stjórn sjóðsins er heimil hækkun eða lækkun lífeyrisréttinda sé munur eignarliða og lífeyrisskuldbindinga innan 10% marka að höfðu samráði við tryggingafræðing sjóðsins. Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meira en 10% munur er á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga er sjóðnum skylt samkvæmt lögum nr. 129/1997 að gera nauðsynlegar breytingar á sam-þykktum sjóðsins. Sama gildir ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Staða sjóðsins, þ.e. munur milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga samkvæmt tryggingafræðilegri athugun, skal þó ætíð vera jákvæð eftir hækkun lífeyrisréttinda, bæði þegar litið er til áunninna réttinda og heildarréttinda.

23.5  

Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að hækka eða lækka þurfi lífeyrisréttindi skulu slíkar breytingar ekki taka til þeirra sjóðfélaga sem eiga réttindi í A deild sjóðsins og náð höfðu 60 ára aldri fyrir 1. júní 2017 og/eða höfðu hafið töku ellilífeyris fyrir 1. júní 2017.

23.6  

Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að hækka eða lækka þurfi lífeyrisréttindi skulu slíkar breytingar ekki taka til þeirra sjóðfélaga sem eiga réttindi í A deild sjóðsins og höfðu hafið töku örorku-, maka- og/eða barnalífeyris fyrir 1. júní 2017.

23.7  

Fjárhagsleg áhrif greina 23.5 og 23.6 á sjóðinn skal gera upp með samningi við launagreiðendur viðkomandi sjóðfélaga. Ekki skal nýta varúðarsjóð, sbr. grein 9, í þessu skyni, sbr. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVIII við lög nr. 129/1997.

IV. Kafli: V-deild

24. Áunnin réttindi vegna iðgjalda til 1. júní 2017

24.1  

Áunnin réttindi sjóðfélaga í V – deild vegna iðgjalda til 1. júní 2017 skulu varðveitt samkvæmt þeim réttindareglum sem þá giltu. Réttindin geta tekið breytingum í samræmi við grein 33.

24.2  

Viðmiðun áunninna réttinda í V – deild vegna iðgjalda til 1. júní 2017 eru ævilangur ellilífeyrisréttur frá 65 ára aldri, örorkulífeyrir ef svo á við til 65 ára aldurs og 50% af réttindum sjóðfélaga í tímabundinn makalífeyri. Greinar 27, 28, 30, 31 og 32 eiga við um örorku- og makalífeyri.

24.3  

Hefji sjóðfélagi töku ellilífeyris fyrir 65 ára aldur er sú ákvörðun endanleg. Réttur til örorkulífeyris fellur því niður frá þeim tíma er greiðsla ellilífeyris hefst.

24.4  

Fresti sjóðfélagi töku ellilífeyris, hækkar viðmiðun lífeyris sjóðfélaga sem miðaðist við 65 ára aldur, fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er frestað fram yfir 65 ára aldurinn, en þó ekki lengur en til 80 ára aldurs, samkvæmt Tafla 4a: Hækkun ellilífeyris þegar taka hefst eftir 65 ára aldur.

Tafla 4a: Hækkun ellilífeyris þegar taka hefst eftir 65 ára aldur

Taka lífeyris hefst Hækkun fyrir hvern mánuð
65-66 ár 0,56%
66-67 0,62%
67-68 0,69%
68-69 0,77%
69-70 0,86%
70-71 0,96%
71-72 1,09%
72-73 1,23%
73-74 1,41%
74-75 1,61%
75-76 1,86%
76-77 2,17%
77-78 2,53%
78-79 2,99%
79-80 3,55%

 Tafla 4a mun breytast til lækkunar þegar lífslíkur munu taka tillit til lækkandi dánartíðni í framtíðinni.

24.5  

Flýti sjóðfélagi töku ellilífeyris, lækkar áunninn lífeyrir hans samkvæmt Tafla 4b: Lækkun ellilífeyris þegar taka hefst fyrir 65 ára aldur, fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er flýtt.

Tafla 4b: Lækkun ellilífeyris þegar taka hefst fyrir 65 ára aldur

Taka lífeyris hefst Lækkun fyrir hvern mánuð
65-64 ára 0,65%
64-63 0,60%
63-62 0,55%
62-61 0,50%
61-60 0,45%

 

24.6  

Sjóðfélagi sem ekki hefur hafið töku ellilífeyris í V – deild sjóðsins getur ákveðið að hefja töku hálfs lífeyris hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð og telst hann þá hafa ráðstafað þeim hluta ellilífeyrisréttinda sinna, sbr. 24.3. Ákvæði 24.5 skal gilda um þann hluta sem ráðstafað er fyrir 65 ára aldur. Ákvæði 24.4 skal gilda um hinn frestaða hluta eftir að 65 ára aldri er náð.

24.7  

Sjóðfélagi sem hefur hafið töku ellilífeyris við gildistöku þessa ákvæðis getur með sérstakri umsókn þar að lútandi, fram til 1. janúar 2020 farið á hálfan ellilífeyri. Skal þá tryggingastærðfræðingur meta sérstaklega áhrif frestunar- og/eða flýtingar á fjárhæð lífeyris enda gilda ekki ákvæði 24.5 og 24.4 í slíkum tilvikum. Við mat tryggingastærðfræðings skal byggja á því að tryggingafræðilegar skuldbindingar lífeyrissjóðsins breytist ekki, þannig skal byggja á sömu sjónarmiðum og liggja að baki ákvæðum 24.5 og 24.4. Sjóðfélagi sem nýtir sér heimild ákvæðis þessa telst eftir sem áður hafa ráðstafað réttindum endanlegan samkvæmt ákvæði 24.3.

25. Iðgjald í V – deild

25.1  

Iðgjald til sjóðsins skal hverju sinni ekki vera lægra en lög, kjarasamningar eða ráðningarsamningar gera ráð fyrir. Iðgjald til öflunar lágmarkstryggingarverndar skal vera 12%. Ef sjóðfélagi lætur ekki vita um ráðstöfun iðgjalds umfram iðgjald til lágmarkstryggingarverndar skal það allt renna til öflunar réttinda samkvæmt greinum 26 -30. Sjóðfélaga er heimilt að ráðstafa iðgjaldi umfram lágmarksiðgjald í viðbótartryggingavernd (séreignasparnað) skv. lögum nr. 129/1997.

25.1  

Iðgjald veitir lífeyrisréttindi samkvæmt Tafla 5: Árlegur lífeyrir fyrir 10.000 kr iðgjald. Taflan sýnir árlegan lífeyri fyrir hvert 10.000 króna iðgjald sem greitt er. Ávinnsla réttinda ræðst af aldri sjóðfélaga í lok þess launamánaðar sem iðgjald er greitt af til lífeyrissjóðsins. Lífeyrisrétturinn er verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í þeim mánuði sem iðgjaldið berst.

Tafla 5: Árlegur lífeyrir fyrir 10.000 kr iðgjald

Aldur Lífeyris-réttindi

Aldur

Lífeyris-réttindi Aldur Lífeyris-réttindi Aldur Lífeyris-réttindi Aldur Lífeyris-réttindi
16 3168 26 2147 36 1598 46 1230 56 944
17 3031 27 2077 37 1557 47 1198 57 921
18 2903 28 2012 38 1516 48 1166 58 900
19 2784 29 1950 39 1477 49 1135 59 880
20 2673 30 1891 40 1440 50 1105 60 860
21 2571 31 1836 41 1403 51 1075 61 842
22 2475 32 1784 42 1367 52 1047 62 824
23 2385 33 1734 43 1332 53 1019 63 806
24 2300 34 1687 44 1297 54 993 64 788
25 2221 35 1642 45 1263 55 968 65 765
                66 734

 

26. Ellilífeyrir í V – deild

26.1  

Hver sjóðfélagi, sem er orðinn 67 ára, á rétt á ellilífeyri. Árlegur ellilífeyrir frá 67 ára aldri er uppsafnaður lífeyrisréttur reiknaður samkvæmt Tafla 5: Árlegur lífeyrir fyrir 10.000 kr iðgjald. Ellilífeyririnn greiðist í fyrsta sinn fyrir næsta mánuð eftir að sjóðfélaginn verður 67 ára.

26.2  

Sjóðfélaga er heimilt að fresta allt til 80 ára aldurs að taka ellilífeyri og hækkar lífeyririnn, sem miðaðist við 67 ára aldur samkvæmt Tafla 6a: Hækkun lífeyris þegar taka hefst eftir 67 ára aldur.

Tafla 6a: Hækkun lífeyris þegar taka hefst eftir 67 ára aldur

Taka lífeyris hefst Hækkun fyrir hvern mánuð
67-68 ára 0,60%
68-69 0,66%
69-70 0,73%
70-71 0,83%
71-72 0,94%
72-73 1,07%
73-74 1,22%
74-75 1,40%
75-76 1,61%
76-77 1,88%
77-78 2,20%
78-79 2,60%
79-80 3,10%

Tafla 6a mun breytast til lækkunar þegar lífslíkur munu taka tillit til lækkandi dánartíðni í framtíðinni.

26.3  

Á sama hátt er sjóðfélaga heimilt að hefja töku ellilífeyris áður en hann nær 67 ára aldri, þó ekki fyrr en frá 60 ára aldri og skal þá áunninn lífeyrir hans lækkaður samkvæmt Tafla 6b: Lækkun lífeyris þegar taka hefst fyrir 67 ára aldur.

Taka lífeyris hefst Lækkun fyrir hvern mánuð
66-67 ára 0,6%
65-66 0,55%
64-65 0,5%
63-64 0,45%
62-63 0,41%
61-62 0,37%
60-61 0,35%

 

26.4  

Sjóðfélaga er heimilt að greiða iðgjald eftir að 67 ára aldri er náð og reiknast lífeyrir og hækkun vegna frestunar á töku þessa lífeyris samkvæmt Tafla 6c: Árlegur lífeyrir fyrir 10.000 kr. iðgjald sem greitt er eftir að 67 ára aldri er náð og hækkun vegna frestunar á töku þessa lífeyris. Viðbótarréttindi hans skulu reiknuð á ný þegar hann hefur náð 70 ára aldri.

Tafla 6c: Árlegur lífeyrir fyrir 10.000 kr. iðgjald sem greitt er eftir að 67 ára aldri er náð og hækkun vegna frestunar á töku þessa lífeyris

Aldur Lífeyrisréttindi
67 758
68 785
69 813

 

  Aldur við ávinnslu réttinda  
Taka lífeyris hefst 67 68 69  
68 0,62%    

 

 

Hækkun fyrir hvern mánuð

69 0,69% 0,65%  
70 0,78% 0,72% 0,67%
71 0,89% 0,82% 0,76%
72 1,00% 0,93% 0,86%
73 1,15% 1,07% 0,99%
74 1,31% 1,22% 1,13%
75 1,51% 1,41% 1,30%
76 1,77% 1,64% 1,52%
77 2,06% 1,92% 1,78%
78 2,44% 2,27% 2,10%
79 2,89% 2,69% 2,50%

Tafla 6c mun breytast til lækkunar þegar lífslíkur munu taka tillit til lækkandi dánartíðni í framtíðinni.

26.5  

Hefji sjóðfélagi töku ellilífeyris fyrir 67 ára aldur er sú ákvörðun endanleg. Réttur til örorkulífeyris fellur því niður frá þeim tíma er greiðsla ellilífeyris hefst.

26.6  

Sjóðfélagi sem ekki hefur hafið töku ellilífeyris í V – deild sjóðsins getur ákveðið að hefja töku hálfs lífeyris hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð og telst hann þá hafa ráðstafað þeim hluta ellilífeyrisréttinda sinna, sbr. 26.5. Ákvæði 26.3 skal gilda um þann hluta sem ráðstafað er fyrir 67 ára aldur. Ákvæði 26.2 skal gilda um hinn frestaða hluta eftir að 67 ára aldri er náð.

26.7  

Sjóðfélagi sem hefur hafið töku ellilífeyris við gildistöku þessa ákvæðis getur með sérstakri umsókn þar að lútandi, fram til 1. janúar 2020 farið á hálfan ellilífeyri. Skal þá tryggingastærðfræðingur meta sérstaklega áhrif frestunar- og/eða flýtingar á fjárhæð lífeyris enda gilda ekki ákvæði 26.3 og 26.2 í slíkum tilvikum. Við mat tryggingastærðfræðings skal byggja á því að tryggingafræðilegar skuldbindingar lífeyrissjóðsins breytist ekki, þannig skal byggja á sömu sjónarmiðum og liggja að baki ákvæðum 26.3 og 26.2. Sjóðfélagi sem nýtir sér heimild ákvæðis þessa telst eftir sem áður hafa ráðstafað réttindum endanlegan samkvæmt ákvæði 26.5.

27. Makalífeyrir í V – deild

27.1  

Eftirlifandi maki sjóðfélaga, sem hafði áunnið sér alls a.m.k. 1.865 krónur í mánaðarlegan lífeyrisrétt miðað við 173,5 stig vísitölu neysluverðs eða greitt hafði iðgjald til lífeyrissjóðsins a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum á rétt á árlegum makalífeyri sem nemur helmingi uppsafnaðra lífeyrisréttinda samkvæmt Tafla 5: Árlegur lífeyrir fyrir 10.000 kr iðgjald, í tvö ár

27.2  

Hafi makinn barn yngra en 18 ára á framfæri sínu, sem sjóðfélaginn hafði áður á framfæri sínu, skal fullur makalífeyrir greiddur fram til 18 ára aldurs yngsta barnsins. Sé maki a.m.k. 50% öryrki skal greiddur makalífeyrir meðan sú örorka varir, enda sé eftirlifandi maki yngri en 67 ára við fráfall sjóðfélagans.

27.3  

Makalífeyrisþegi telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist, eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er hér átt við sambúð tveggja einstaklinga sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. eitt ár. Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar, en gengur aftur í gildi ef síðara hjónabandinu eða sambúðinni er slitið án réttar til lífeyris.

28. Framreikningur makalífeyris í V – deild

28.1  

Ef sjóðfélagi sem ekki hefur hafið töku lífeyris hefur greitt til sjóðsins á síðustu þremur árunum fyrir andlát skal reikna viðbót við áunninn lífeyrisrétt sem nemur þeim réttindum sem árlegt meðaltal iðgjalda þessara þriggja ára gæfi samkvæmt Tafla 5: Árlegur lífeyrir fyrir 10.000 kr iðgjald, væri það greitt þau ár er vantar á 65 ára aldur. Hafi sjóðfélagi notið örorkulífeyris úr sjóðnum skal reikna réttindi frá þeim tíma er honum var veittur örorkulífeyrir og til þess tíma er makalífeyrir er veittur, allt að 65 ára aldri, í samræmi við ákvæði greinar 32.3, en síðan til 65 ára aldurs í samræmi við réttindi þau sem lögð voru til grundvallar örorkulífeyri.

29. Barnalífeyrir í V – deild

29.1  

Þegar sjóðfélagi deyr, sem hefur áunnið sér alls a.m.k. 1.865 krónur í mánaðarlegan lífeyrisrétt miðað við 173,5 stig vísitölu neysluverðs og að auki greitt til sjóðsins a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum, eiga börn hans, kjörbörn og ættleidd börn yngri en 18 ára rétt á lífeyri til 18 ára aldurs, svo fremi að sjóðfélaginn hafi síðast greitt til þessarar deildar lífeyrissjóðsins. Barnalífeyririnn með hverju barni er 7.500 krónur á mánuði og breytist lífeyririnn í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá 173,5 stigum.

29.2  

Sama rétt til lífeyris, sbr. ákvæði 29.1, öðlast börn fædd eða ættleidd fyrir orkutap sjóðfélaga sem nýtur fulls örorkulífeyris. Ef örorka er metin lægri en 100% skal barnalífeyrir vera hlutfallslega lægri.

30. Örorkulífeyrir í V – deild

30.1  

Sjóðfélagi sem er yngri en 67 ára og verður fyrir orkutapi sem er 50% eða meira og hefur greitt til lífeyrissjóðs að lágmarki 24 mánuði fyrir orkutap á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum.

30.2  

Örorkulífeyrir skal vera sama hlutfall af áunnum lífeyrisrétti reiknuðum, skv. Tafla 5: Árlegur lífeyrir fyrir 10.000 kr iðgjald og metið hlutfall orkutaps.

30.3  

Örorkulífeyrir er ekki greiddur ef orkutap varir skemur en sex mánuði.

30.4  

Skylt er sjóðfélaga sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur slíks lífeyris að láta sjóðnum í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt og atvinnutekjur sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til lífeyris.

30.5  

Réttur til örorkulífeyris stofnast aðeins ef sjóðfélagi hefur orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir úr sjóðnum vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannarlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Því til sönnunar getur sjóðurinn krafist upplýsinga frá vinnu-veitanda, Ríkisskattstjóra, Tryggingastofnun ríkisins og sjúkrasjóðum. Við mat á tekjuskerðingu er tekið tillit til greiðslna frá öðrum lífeyrissjóðum, atvinnutekna, bóta almannatrygginga og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem sjóðfélagi nýtur vegna orkutaps. Við mat á tekjuskerðingu skal nota sem viðmiðunartekjur meðaltal tekna sjóðfélaga síðustu þrjú ár fyrir orkutap verðbætt til úrskurðardags. Viðmiðunar-tekjurnar taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu launa.

30.6  

Stjórn sjóðsins ákveður á hverjum tíma hvaða tekjur sjóðfélaga teljast til viðmiðunartekna.

30.7  

Hlutfall orkutaps og tímasetning þess er ákvarðað að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku umsækjanda. Trúnaðarlæknir metur hlutfall orkutaps og tímasetningu þess.

30.8  

Fyrstu þrjú árin eftir orkutapið skal mat þess aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi sem hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Að því tímabili loknu skal hlutfall orkutaps ákvarðað að nýju með tilliti til vanhæfni sjóðfélagans til að gegna almennum störfum. Sjóðurinn getur óskað eftir því að endurmat fari fram oftar telji hann þess þörf.

30.9  

Sjóðnum er heimilt að setja sem skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt gæti heilsufar hans.

31. Framreikningur örorkulífeyris í V – deild

31.1  

Séu neðangreind skilyrði uppfyllt skal lífeyrir framreiknaður til 65 ára aldurs samkvæmt ákvæðum greinar 31.3:

31.1.1.
að sjóðfélagi hafi greitt til sjóðsins í a.m.k. þrjú af fjórum undanfarandi almanaksárum fyrir orkutap og að inngreidd iðgjöld á ári hafi verið að lágmarki kr. 45.000 miðað við 173,5 stig vísitölu neysluverðs,

31.1.2
að sjóðfélagi hafi greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. sex mánuði af undanfarandi tólf mánuðum fyrir orkutap, og

31.1.3
að sjóðfélagi hafi ekki orðið fyrir orkutapi sem rekja megi til ofnotkunar áfengis, lyfja, eða fíkniefna.

31.2  

Sjóðnum er heimilt að lækka eða fella niður örorkulífeyri ef tekjur aukast þannig að skilyrðum greinar 30.5 er ekki lengur fullnægt.

31.3  

Örorkulífeyrir fellur niður við 67 ára aldur og hefst þá taka ellilífeyris. Fjárhæð ellilífeyris er þá reiknuð út frá áunnum réttindum sjóðfélaga við orkutap. Hafi sjóðfélagi notið framreiknings sbr. kafla 31 skal fjárhæð ellilífeyris einnig reiknuð út frá framreikningi. Við töku ellilífeyris skv. grein þessari skal ekki miðað við hlutfall orkutaps sjóðfélaga.

32. Niðurfelling / breyting á örorkulífeyri í V – deild

32.1  

Ef metið hlutfall orkutaps sjóðfélaga breytist við endurmat þá breytist örorkulífeyrir samsvarandi og fellur niður ef orkutapið fer niður fyrir 50%.

32.2  

Sjóðnum er heimilt að lækka eða fella niður örorkulífeyri ef tekjur aukast þannig að skilyrðum greinar 30.5 er ekki lengur fullnægt.

32.3  

Örorkulífeyrir fellur niður við 67 ára aldur og hefst þá taka ellilífeyris. Fjárhæð ellilífeyris er þá reiknuð út frá áunnum réttindum sjóðfélaga við orkutap. Hafi sjóðfélagi notið framreiknings sbr. kafla 31 skal fjárhæð ellilífeyris einnig reiknuð út frá framreikningi. Við töku ellilífeyris skv. grein þessari skal ekki miðað við hlutfall orkutaps sjóðfélaga.

33. Endurskoðun réttinda í V – deild

33.1  

Deildin skal eiga fyrir skuldbindingum sínum skv. tryggingafræðilegri athugun, sbr. grein 40.1. Ef eignir duga ekki fyrir áföllnum skuldbindingum skal sjóðurinn gera viðeigandi ráðstafanir svo sem að skerða áunnin réttindi og skerða þau réttindi sem iðgjald til sjóðsins veitir.

33.2  

Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meiri frávik eru á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga sem kveðið er á um í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 er stjórn sjóðsins skylt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins. Stjórn sjóðsins er heimil hækkun eða lækkun lífeyrisréttinda sé munur eignarliða og lífeyrisskuldbindinga innan 5% marka að höfðu samráði við tryggingafræðing sjóðsins. Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meira en 10% munur er á milli eignarliða og líf-eyrisskuldbindinga er sjóðnum skylt samkvæmt lögum nr. 129/1997 að gera nauð-synlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Sama gildir ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár.

V. Kafli: B-deild

34. Um réttindi sjóðfélaga sem flytjast í B-deild

34.1  

Fimm lífeyrissjóðir sveitarfélaga sameinuðust Brú lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga 1. júlí 2013. Einn lífeyrissjóður sveitarfélaga sameinaðist Brú lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga 1. janúar 2017 og einn lífeyrissjóður sveitarfélaga sameinaðist Brú lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga 1. janúar 2018. Sjóðfélagar þessara sjóða urðu við það sjóðfélagar í B-deild Brúar lífeyrissjóðs. Sjóðfélagar halda áunnum lífeyrisréttindum sínum óskertum, njóta sömu lífeyrisávinnslu og lúta sömu skyldum og kvöðum varðandi réttindi og í samþykktum sjóðanna áður en til samrunanna kom. Sérákvæði fyrir hvern sjóðfélagahóp eru í viðaukum 1-7 sem eru hluti af samþykktum Brúar lífeyrissjóðs. Þessi sérákvæði ganga framar sambæri-legum ákvæðum í almennum köflum samþykkta Brúar lífeyrissjóðs. Að öðru leyti gilda almenn ákvæði samþykkta Brúar lífeyrissjóðs (greinar 1 - 5 og greinar 39 - 50) fyrir þessa sjóðfélaga. Réttindi sjóðfélaga B-deildar skulu skráð í sérgreind réttindasöfn, eitt fyrir hvern þeirra sjóða sem sameinuðust í deildinni 2013, 2017 og 2018 eða kunna að sameinast henni síðar. Skal þar skrá bæði réttindi sem áunnin voru fyrir sameiningu og þau sem síðar ávinnast. Falli réttur sjóðfélaga til að greiða til réttindasafns niður á sjóðfélagi ekki rétt til frekari greiðslna iðgjalda til deildarinnar.

35. Ábyrgð sveitarfélaga á skuldbindingum B-deildar

35.1  

Ábyrgð hvers sveitarfélags á skuldbindingum B-deildar takmarkast við skuldbindingar vegna þess réttindasafns deildarinnar sem tekur til viðkomandi lífeyrissjóðs og fer eftir ákvæðum þess viðauka samþykkta sem um safnið gilda. Sem hluta af tryggingafræðilegri athugun B-deildar skal sýna aðgreinda skuldbindingu vegna hvers réttindasafns, bæði áfallnar skuldbindingar og framtíðar ásamt reiknuðum hluta í eignum og mati á kostnaði samkvæmt greinum 35.2 - 35.8.

35.2  

B-deild sjóðsins tekur þátt í rekstrar- og fjárfestingarkostnaði sjóðsins á hverju ári í hlutfalli við áfallnar skuldbindingar deildarinnar í lok ársins á undan. Innan B-deildar skal árlega reikna skiptingu kostnaðar milli réttindasafna eftir sömu aðferð. Kostnaður hvers réttindasafns greiðist af eignarhluta þess í eignum B-deildar.

35.3  

Sveitarfélög og aðrir aðilar sem tryggt hafa starfsmenn í B-deild skulu endurgreiða sjóðnum mánaðarlega tiltekið hlutfall af útgjöldum hans til lífeyrisgreiðslna í B-deild.

35.4  

Endurgreiðsluhlutfall skal ákveða árlega sérgreint fyrir hvert réttindasafn. Bæjarstjórn í því sveitarfélagi þar sem upprunasjóður réttindasafns starfaði ákveður endurgreiðsluhlutfall réttindasafnsins að fenginni tillögu tryggingastærðfræðings og sjóðsstjórnar. Við þá ákvörðun skal miðað við að endurgreiðsla ásamt innborguðum iðgjöldum gæti staðið undir öllum lífeyrisgreiðslum og rekstrarkostnaði réttindasafnsins og upprunasjóðs þess ef miðað er við þá ávöxtun sem gert er ráð fyrir við tryggingafræðilega athugun sjóðsins. Við útreikninga skal gert ráð fyrir að ávöxtunin hefði náðst allan rekstrartíma og útreiknað endurgreiðsluhlutfall verið í gildi og til framtíðar reiknað með gildandi tryggingafræðilegum forsendum um lífs- og örorkulíkur.

35.5  

35.5. Taki starfsmenn aðildarstofnunar eða fyrirtækis ekki laun eftir kjarasamningum opinberra starfsmanna og hafi ákvæði um takmörkun iðgjaldagreiðslna ekki verið beitt er sjóðsstjórn heimilt að láta reikna endurgreiðsluhlutfall viðkomandi aðila sérstaklega.

35.6  

Stjórn sjóðsins er heimilt með samþykki sveitarfélags sem ber bakábyrgð á þeim réttindastöfnum sem greitt er til, að taka við greiðslu í reiðufé eða skuldabréfi, sem tryggt er með fullnægjandi hætti, frá launagreiðanda til uppgjörs á áföllnum skuldbindingum samkvæmt tryggingafræðilegu mati. Launagreiðandi, sem gert hefur upp áfallna skuldbindingu sína samkvæmt þessari málsgrein ber ekki frekari ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins vegna þess tímabils og þeirra starfsmanna sem uppgjörið tekur til. Ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt grein 35.1 og grein 36 helst þó óbreytt.

35.7  

Stjórn sjóðsins getur með samþykki sveitarfélags sem ber bakábyrgð á þeim réttindasöfnum sem greitt er til, heimilað launagreiðanda sem þess óskar að samtímagreiða lífeyrisskuldbindingar með mótframlagi, sem stjórn sjóðsins ákveður að fenginni tillögu tryggingastærðfræðings. Fellur þá niður skylda hans til endurgreiðslu lífeyris samkvæmt greinum 35.3 - 35.8.

35.8  

Verði greiðslufall á skuldabréfi sem B-deild hefur tekið við til uppgjörs á lífeyrisskuld-bindingum launagreiðanda, sbr. grein 35.6, skulu eftirstöðvar bréfsins færðar til lækkunar á skiptihlutfalli réttindasafns samkvæmt ákvæðum greinar 36.

36. Um stöðu réttindasafna B-deildar

36.1  

Við stofnun B deildar skiptist eignir í hlutfalli við þær eignir sem hver sjóður leggur til deildarinnar. Liggi markaðsverð fyrir skal miðað við það en um mat annarra eigna skal gera sérstakt samkomulag

36.2  

Samhliða tryggingafræðilegri athugun í lok hvers árs, skal skipta eignum B-deildar milli réttindasafna deildarinnar.

36.3  

Í lok hvers árs er reiknað hlutfall hvers réttindasafns. Þá er tekið tillit til iðgjalda, viðbótarframlaga, lífeyrisgreiðslna, kostnaðar og fjármagnstekna. Í tryggingafræðilegri athugun hvers árs skal sýna reiknað skiptihlutfall hvers réttindasafns. Nánar er mælt fyrir um útreikning á eignarhlutum réttindasafna í Viðauki 8: Reiknireglur vegna B-deildar.

36.4  

Hluti réttindasafna af eignum B-deildar í lok hvers árs skal jafnan vera hærri en tvöfaldar greiðslur lífeyris úr réttindasafninu að viðbættum rekstrakostnaði þess árið á undan. Uppfylli eitthvert réttindasafn ekki það skilyrði skal það sveitarfélag sem að réttindasafninu stendur greiða til B-deildar fyrir 1.júlí hvert ár þannig að ofangreindu lágmarki sé náð. Fram til þess að greiðsla hefur verið innt af hendi skal sjóðnum heimilt að endurkrefja viðkomandi sveitarfélag um allan greiddan lífeyri.

36.5  

Ef eignarhlutur réttindasafns reiknast neikvæður skal sjóðurinn stöðva greiðslur lífeyris úr því réttindasafni og verða þá greiðslur til lífeyrisþega á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags þar til það hefur greitt inn til B-deildar svo að skilyrði greinar 36 verði uppfyllt.

37. Um breytingar á ákvæðum viðauka vegna B-deildar

37.1  

Til breytinga á ákvæðum viðauka 1 – 5 vegna B-deildar, annarra en þeirra er leiða kunna af breytingum á landslögum, þarf samþykki meirihluta viðkomandi bæjarstjórnar og stjórnar starfsmannafélags viðkomandi sveitarfélags. Til breytinga á ákvæðum viðauka 6 vegna B-deildar, annarra en þeirra sem leiða kunna af breytingum á landslögum, þarf samþykki meirirhluta viðkomandi bæjarstjórnar. Til breytinga á ákvæðum viðauka 7 vegna B-deildar, annarra en þeirra sem leiða kunna af breytingum á landslögum, þarf samþykki meirihluta viðkomandi bæjarstjórnar, stjórnar starfsmannafélags viðkomandi sveitarfélags, Kennarasambands Íslands og BHM.

38. Um upplýsingagjöf vegna B-deildar

38.1  

Sjóðnum er skylt að upplýsa sveitarfélög, og starfsmannafélög þeirra eftir því sem við á, um rekstur og fjárhagsstöðu viðkomandi hluta B-deildar sjóðsins eigi sjaldnar en árlega með kynningarfundi. Skal kynningin taka mið af dagskrá aðalfundar sjóðsins.

VI. Kafli: Almenn ákvæði

39. Greiðsla lífeyris

39.1  

Sjóðfélagi sem óskar eftir greiðslu lífeyris skal skila inn umsókn til sjóðsins. Lífeyrir greiðist mánaðarlega eftir á. Sjóðfélagi, sem hefur töku lífeyris í beinu framhaldi af starfslokum og hefur fengið fyrirfram greidd laun, skal þó fá lífeyri greiddan fyrirfram.

39.2  

Nú nær lífeyrisgreiðsla ekki kr. 3.077 á mánuði og er sjóðnum þá heimilt að inna greiðsluna af hendi í einu lagi samkvæmt reglum í samræmi við tillögur tryggingastærðfræðinga. Fjárhæð þessi breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 410,7 stigum (m.v. mars 2013.)

40. Tryggingafræðileg athugun

40.1  

Árlega skal stjórn sjóðsins láta fara fram tryggingafræðilega athugun á fjárhag deilda sjóðsins í samræmi við 24. grein laga nr. 129/1997.

41. Framsal og veðsetning lífeyrisréttinda óheimil

41.1  

Réttur til lífeyris verður eigi af hendi látinn né veðsettur.

42. Skipting lífeyrisréttinda milli sjóðfélaga og maka

42.1  

Sjóðfélagi getur ákveðið að skipta lífeyrisréttindum á milli sín og maka síns í samræmi við 14. grein laga nr. 129/1997.

43. Skilyrði um iðgjaldagreiðslutíma

43.1  

Tímabil er iðgjaldagreiðslur hafa sannanlega fallið niður vegna veikinda eða atvinnu-leysis reiknast ekki með þegar úrskurða skal hvort skilyrði um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt.

44. Geymd réttindi

44.1  

Réttur til elli-, örorku- og makalífeyris fellur ekki niður þótt sjóðfélagi hætti iðgjalda-greiðslu. Rétturinn miðast þá einungis við áunnin geymd réttindi.

45. Heimildir stjórnar

45.1  

Stjórn sjóðsins er heimilt að taka að sér rekstur annarra lífeyrissjóða enda komi eðlileg þóknun fyrir.

45.2  

Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við stjórnir annarra lífeyrissjóða um samruna viðkomandi lífeyrissjóða. Stjórnin skal gæta þess að réttindi sjóðfélaga sjóðanna breytist ekki við samrunann. Samrunasamningur milli sjóðsins og annarra lífeyrissjóða skal hljóta samþykki með sama hætti og breytingar á samþykktum sjóðsins.

45.3  

Stjórn sjóðsins er heimilt að semja um að taka við réttindum, sem sjóðfélagar í öðrum lífeyrissjóðum eiga, eða flytja réttindi sjóðfélaga þessa sjóðs annað enda sé slíkt heimilt samkvæmt lögum. Við slíkan réttindaflutning skal þess gætt að sjóðurinn beri ekki skaða af honum. Stjórn sjóðsins skal semja við aðra lífeyrissjóði um hvernig skuli fara með réttindi þeirra sem flytjast á milli sjóða og setja nánari reglur um flutning á milli deilda.

46. Endurgreiðsla iðgjalda til erlendra ríkisborgara

46.1  

Sjóðnum er heimilt að endurgreiða iðgjöld erlendra ríkisborgara sem hverfa úr sjóðnum vegna brottflutnings úr landi, enda sé slík endurgreiðsla ekki óheimil sam-kvæmt milliríkjasamningum, sem Ísland er aðili að eða viðkomandi hafi verið íslenskur ríkisborgari þegar réttindin urðu til. Heimilt er að draga frá endurgreiddu iðgjaldi að viðbættum vöxtum kostnað vegna tryggingaverndar, sem sjóðfélaginn hefur notið, og kostnað vegna umsýslu samkvæmt mati tryggingastærðfræðings. Óheimilt er að endurgreiða iðgjöld ríkisborgara annarra ríkja Evrópska efnahags-svæðisins (EES) samkvæmt gildandi milliríkjasamningum.

46.2  

Skilyrði endurgreiðslu iðgjalda erlendra ríkisborgara eru eftirfarandi;

46.2.1  

að lagt sé fram afrit af vegabréfi sem staðfestir erlent ríkisfang,

46.2.2  

að lagt sé fram afrit af flugseðli,

46.2.3  

að lögð sé fram staðfesting um starfslok frá vinnuveitanda, og

46.2.4  

að formleg staðfesting á búsetu viðkomandi aðila berist sjóðnum innan þriggja mánaða frá dagsetningu umsóknar um endurgreiðslu iðgjalda.

46.3  

Hafi iðgjöld verið endurgreidd fellur niður sá lífeyrisréttur sem grundvallaðist á þeim.

47. Iðgjaldayfirlit skv. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 129/1997

47.1  

Sjóðnum er skylt að upplýsa sjóðfélaga um réttindi þeirra með því að senda þeim að minnsta kosti tvisvar á ári yfirlit um iðgjöld þeirra og árlega yfirlit um réttindi, svo og um rekstur og fjárhagsstöðu sjóðsins og breytingar á samþykktum.

48. Ágreiningsmál

48.1  

Vilji sjóðfélagi ekki una úrskurði sjóðstjórnar í máli, er hann hefur skotið til hennar, getur hann vísað málinu til gerðardóms innan þriggja mánaða frá því tilkynnt var um úrskurðinn. Gerðardómur skal skipaður þremur mönnum, einum tilnefndum af sjóðfélaga, einum af lífeyrissjóðnum og oddamanni til¬nefndum af Fjármálaeftirlitinu. Gerðardómurinn skal úrskurða í mál¬inu á grundvelli þeirra krafna, sönnunargagna, málsástæðna og annarra upplýsinga sem lágu fyrir sjóð¬stjórn er hún tók ákvörðun um málið. Komi fram nýjar kröfur, sönn¬unargögn og máls¬ástæður við meðferð málsins fyrir gerðardómi skal málinu vísað aftur til sjóðstjórnar til endurupptöku. Sjóðstjórn er þá skylt að taka málið upp að nýju til úrskurðar. Úrskurður gerðardóms er bindandi fyrir báða aðila. Máls¬kostnaði skal skipt milli málsaðila eftir mati dómsins, en þó skal sjóðfélagi ekki greiða meira en 1/3 máls¬kostnaðar. Um málsmeðferð fyrir gerðardómnum fer að öðru leyti samkvæmt lögum um samningsbundna gerðardóma.

49. Breytingar samþykkta þessa

49.1  

Samþykktum þessum verður ekki breytt nema með samþykki stjórna stofnaðila sjóðs¬ins, þ.e. BSRB, Bandalags háskólamanna, KÍ og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samþykki allra stjórna stofnaðila er nauðsynlegt til að breytingar á samþykktum nái fram að ganga. Breytingar á samþykktum teljast ekki samþykktar nema fyrir liggi samþykki allra stjórna stofnaðila. Sitji stjórn stofnaðila hjá eða samþykki ekki með skýrum hætti breytingar á samþykktum skal litið svo á að stjórn stofnaðila samþykki ekki breytingar á samþykktum.

49.2  

Stjórn lífeyrissjóðsins er heimilt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins án þess að kynna þær á ársfundi, sbr. grein 4.2 ef slíkar breytingar leiða beint af ófrávíkjanlegum ákvæðum laga eða reglugerða.

50. Gildistökuákvæði

50.1  

Samþykktir þessar gilda svo breyttar frá staðfestingu fjármálaráðuneytisins, utan ákvæða 12.11, 12.12, 16.6, 16.7, 24.6, 24.7, 26.6 og 26.7 sem taka gildi 1. september 2018, og koma í stað eldri samþykkta frá 1. júní 2017.

Reykjavík, 23. apríl 2018