Heimilt að nota séreignarsparnað í tíu ár
Þú getur notað allt að 500 þúsund krónur á ári af séreignarsparnaði skattrjálst í tíu ár til að kaupa þína fyrstu íbúð. Þú getur sparað fyrir útborgun inn á íbúð eða greitt niður íbúðarlán. Þessi heimild er í samræmi við lög nr. 111/2016 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð.
Með því að nýta þessa heimild getur þú eignast stærri eignarhlut í íbúðinni með tekjum sem annars væru skattlagðar. Skattfrelsi einstaklings takmarkast við fimm milljónir króna á tíu ára tímabili og er aðeins af iðgjöldum af séreignasparnaði sem eru að hámarki 4% framlag launþega og 2% framlag launagreiðanda. Par getur því nýtt að hámarki tíu milljónir króna samtals.
Helstu skilyrði um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð takmarkast við:
• að þú hafir ekki átt meira en 30% í íbúð áður.
• að þú eigir a.m.k. 30% hlut í húsnæðinu og að lán sé tryggt með veði í húseigninni.
• að þú kaupir eignina sjálf(ur) eða með öðrum einstaklingi.
Heimildin gildir í tíu ár samfellt og umsækjandi velur upphafstíma. Fólki er frjálst að skipta um húsnæði en skilyrði er að kaup á nýrri íbúð fari fram innan tólf mánaða frá sölu íbúðar sem veitti réttinn í upphafi.
Ef þú hefur þegar greitt séreignarsparnað inn á höfuðstól láns samkvæmt fyrri heimild getur þú sótt um þetta úrræði ef um er að ræða fyrstu íbúð. Tímabilið sem hefur verið nýtt kemur þá til frádráttar tíu ára tímabili.
Til að nýta úrræðið þarft þú að vera með samning um séreignarsparnað. Hægt er að sækja um hjá vörsluaðilum sem bjóða upp á séreignarsparnað.
Sótt er um rafrænt á vef ríkisskattstjóra, www.rsk.is. Umsókn skal berast í síðasta lagi tólf mánuðum eftir að kaupsamningur var undirritaður.