Viðbótarlífeyrissparnaður er ein hagkvæmasta sparnaðarleið sem einstaklingar hafa til umráða, ekki síst vegna mótframlags vinnuveitanda. Greiði sjóðfélagi 2-4% launum fyrir skatt fær hann jafnan 2% mótframlag samkvæmt kjarasamningi eða ráðningarsamningi.
Sparnaðurinn nýtur jafnframt skattalegs hagræðis. Á sparnaðartíma lækkar hann tekjuskatts- og útsvarsstofn og ávöxtun ber ekki fjármagnstekjuskatt ólíkt hefðbundum sparnaðarleiðum. Þá er inneign í viðbótarlífeyrissparnaði varin fyrir kröfuhöfum komi til gjaldþrots.
Útgreiðsla séreignar er að jafnaði heimil við 60 ára aldur, óháð því hvort einstaklingur er hættur störfum eða ekki. Þá er heimilt að taka inneign út fyrr verði sjóðfélagi óvinnufær vegna veikinda eða slysa. Við andlát einstaklings erfist inneign hans að fullu og rennur til maka eða annarra erfingja.
Viðbótarlífeyrissparnaður getur einnig nýst í tengslum við húsnæðiskaup. Fyrstu kaupendur geta ráðstafað óskattlögðum sparnaði inn á útborgun eða húsnæðislán.
Á undanförnum mánuðum hefur talsverð umfjöllun verið um þóknanir og kostnað við séreignarsparnað. Því er mikilvægt að kynna sér forsendurnar vel áður en ákvörðun er tekin. Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.
- Berðu saman þá valkosti sem eru í boði.
- Kannaðu gildistíma samningsins og hvort hann sé raunhæfur fyrir þínar aðstæður.
- Athugaðu hvort kostnaður sé við sölu eða samningsgerð og hvort hann sé dreginn frá sparnaði fyrirfram.
- Skoðaðu hvenær raunverulegur sparnaður hefst.
- Athugaðu annan kostnað, t.d. vegna eignastýringar, stjórnunar eða reksturs.
- Lestu lykilupplýsingablaðið vel: Þar koma fram mikilvægar upplýsingar, m.a. um kostnað ef samningi er sagt upp.
Birt í Skólavörðunni, Haust 2025, 2 tlb. höf. Gerður Guðjónsdóttir.