Hvernig eru viðmið vaxta reiknuð?
Vextir sjóðsins byggja á þremur viðmiðum sem lögð eru saman.
Í fyrsta lagi taka vextir mið af veginni sex mánaða meðalávöxtunarkröfu skráðra skuldabréfa á markaði. Útgefendur einstakra flokka eru ríkið, sveitarfélög og fjármálastofnanir. Í útreikningum sjóðsins eru ríkisskuldabréfaflokkar sýndir sem einn hópur en skuldabréfaflokkar sem gefnir eru út af fjármálastofnunum eða sveitarfélögum eru annar hópur.
Mismunurinn á milli ávöxtunarkröfu þessara tveggja hópa skuldabréfaflokka er kallaður álag í framsetningu sjóðsins. Þetta álag gefur til kynna þá auknu áhættu sem almennt felst í því að lána fjármálastofnunum eða sveitarfélögum fremur en íslenska ríkinu.
Í öðru lagi er horft til rekstrarkostnaðar sem reiknaður er árlega samhliða gerð ársreiknings sjóðsins. Við útreikninga er horft til kostnaðar vegna starfsfólks sjóðsins sem á beina aðkomu að lánveitingum og utanumhaldi safnsins auk hlutdeildar í skrifstofu- og stjórnunarkostnaði.
Í þriðja lagi er horft til mótaðilaáhættu eða tapsálags. Með tapsálagi er leitast við að safna í sjóð fyrir mögulegu tapi á útlánum. Tilgangur þess er að minnka líkur á því að afskriftir útlána hafi áhrif á réttindi sjóðfélaga.
Hvernig er sex mánaða meðalávöxtunarkrafa reiknuð?
Sjóðurinn safnar daglegum upplýsingum frá Kauphöll um ávöxtunarkröfu hvers skuldabréfaflokks og skráir þær í sérstakan gagnagrunn. Fyrir hvern flokk er reiknað meðaltal ávöxtunarkröfunnar síðustu sex mánuði. Með því að nota sex mánaða meðaltal eru skammtímasveiflur jafnaðar út og þannig fæst raunsannari mynd af ávöxtunarkröfu á markaði.
Einstakir flokkar fá mismunandi vægi sem byggist á því hversu langt er eftir af líftíma þeirra. Tilgangurinn er að auka vægi þeirra flokka sem hafa lengri líftíma til að endurspegla betur líftíma lánveitinga til sjóðfélaga.
Ávöxtunarkrafa hvers flokks er margfölduð með vægi hans og þannig fæst framlag viðkomandi flokks. Framlög allra flokka eru síðan lögð saman og deilt með samanlögðu vægi flokka.
Niðurstaða af þessum útreikningum er ein tala sem notuð er sem grunnviðmið í vaxtaákvörðunum sjóðsins hverju sinni.
Hvað er álag miðað við skráð bréf á markaði?
Við útreikning á veginni sex mánaða meðalávöxtunarkröfu eru ríkisskuldabréf metin sérstaklega þar sem almennt er litið svo á að þau myndi grunninn sem önnur skráð skuldabréf taka mið af. Skuldabréf sem gefin eru út af sveitarfélögum og fjármálastofnunum eru reiknuð saman og munurinn á ávöxtunarkröfu þessara tveggja hópa birtist sem álag. Þessi aðgreining er eingöngu til upplýsinga þar sem niðurstaðan yrði sú sama ef báðir hópar væru reiknaðir sem ein heild.
Hefur sjóðurinn fylgt sömu aðferðarfræði við ákvörðun vaxta?
Sjóðurinn hefur um langt skeið fylgt sömu aðferðarfræði við ákvörðun vaxta og haft ávöxtunarkröfu skráðra skuldabréfa sem meginviðmið við ákvörðun vaxta. Áhrif einstakra skuldabréfaflokka á það viðmið hefur ávallt verið reiknað út frá vægi þeirra á markaði. Í því sambandi er rétt að benda á tvö atriði.
Í fyrsta lagi var vægi skuldabréfaflokka reiknað út frá stærð þeirra. Til einföldunar má segja að ef tveir flokkar hefðu verið á markaði og annar verið af stærðinni 1 en hinn af stærðinni 9 hefðu áhrif stærri flokksins vegið 90% en minni flokkurinn 10%. Í mars 2021 var þessari aðferð breytt og síðan þá hefur vægi verið metið út frá líftíma i flokkanna. Ástæðan fyrir breytingunni á reikniaðferðinni er að þau lán sem sjóðurinn veitir eru langtímalán og er betri samsvörun að miða við langtímafjárfestingar.
Í öðru lagi var mikil óvissa í efnahagsmálum þegar Covid 19 faraldurinn stóð yfir og urðu fjármálamarkaðir fyrir miklum búsifjum. Virði hlutabréfa lækkaði verulega sem og ávöxtunarkrafa á skuldabréf sem leiddi til hækkunar á virði þeirra. Til skýringar er öfugt samband á milli ávöxtunarkröfu og virðis skuldabréfa, þegar ávöxtunarkrafa lækkar hækkar virði skuldabréfa. Meginhlutverk sjóðsins er að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga svo hann getið staðið við skuldbindingar sínar gagnvart þeim. Á þessum óvissutímum var ekki talið forsvaranlegt að veita sjóðfélagalán á þeim kjörum sem reiknað var en um leið og óvissa minnkaði var hefðbundin aðferðarfræði tekin upp að nýju.