Fara í efni

Samþykktarbreytingar fyrir A og V deild

Breytingar voru gerðar bæði á jafnri réttindaávinnslu í A deild og áunnum réttindum í A deild og V deild sjóðsins. Ástæða breytinganna var tryggingafræðilegur halli sem var tilkominn annars vegar vegna innleiðingu á nýju reiknilíkani Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga á lífslíkum landsmanna þar sem gert er ráð fyrir að lífaldur haldi áfram að hækka og hins vegar vegna slakrar ávöxtunar á árinu 2022.

Tryggingafræðileg staða A deildarinnar var neikvæð um 10,8% í árslok 2022 og þar með komin yfir viðmið lífeyrissjóðslaganna og áfallin tryggingafræðileg staða V deildar neikvæð á sama tíma um 13,8%. Voru gerðar breytingar á samþykktum sjóðsins í samræmi við tillögur tryggingastærðfræðings sjóðsins.

Hvenær tóku breytingarnar gildi?

Breytingarnar tóku gildi 1. janúar 2024.

Hvers vegna var samþykktum breytt?


1. Hækkandi lífslíkur 

Í árslok 2021 var innleitt nýtt reiknilíkan Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga á lífslíkum landsmanna sem gerir ráð fyrir að lífaldur muni halda áfram að hækka. Reiknilíkanið felur í sér þau nýmæli (miðað við þá aðferð sem notuð hefur verið) að lífslíkur hvers fæðingarárgangs karla og kvenna er lýst með sérstakri eftirlifendatöflu fyrir hvort kyn. Fram til þessa hefur verið gert ráð fyrir að allir fæðingarárgangar hefðu sömu lífslíkur. Samkvæmt þessu nýju líkani fara lífslíkur vaxandi með hækkandi fæðingarári og því hækka eftirlaunaskuldbindingar lífeyrissjóða umtalsvert miðað við fyrri forsendur.


2. Slök ávöxtun sjóðsins árið 2022

Ásamt nýju líkani þar sem gert er ráð fyrir hækkandi lífslíkum er ástæða breytinganna einnig slök ávöxtun sjóðsins á árinu 2022 en nafnávöxtun sjóðsins var neikvæð um 4,8% og raunávöxun neikvæð um 12,8%. Lagaskylda hafði því legið á stjórn sjóðsins að bregðast við stöðu sjóðsins til að tryggja að lífeyrisréttindi sem sjóðfélagar ávinna sér dugi til greiðslu ævilangs lífeyris.

  • Tryggingafræðileg staða A deildarinnar í árslok 2022 reiknaðist utan leyfðra vikmarka laga nr. 129/1997. Tryggingafræðileg staða í lok árs 2022 var neikvæð um 10,8%.
  • Tryggingafræðileg staða V deildarinnar í árslok 2022 reiknaðist neikvæð um 5,4% en þar af var áfallin staða neikvæð um 13,8%.

Í byrjun ársins 2023 var ávinnsla réttinda til framtíðar lækkuð en frá þeim tíma er í samþykktunum nýjar réttindatöflur sem taka mið af bæði aldri og fæðingarári. Nýjar töflur um lífaldur verða framvegis notaðar þannig að hver fæðingarárgangur karla og kvenna fær sérstaka lífslíkutöflu þannig að lífslíkur aukast með hækkandi fæðingarárgangi.  

Breytingar í A og V deild

Breytingar á áunnum réttindum til lækkunar færðust á yfirlit sjóðfélaga í desember 2023 og því ættu sjóðfélagar að hafa orðið varir við breytingar á réttindum sínum hjá sjóðnum í byrjun árs 2024. Breytingarnar voru eftirfarandi:

 

  • Breytingar á framtíðarávinnslu í A deild: Ávinnsla réttinda í jafnri ávinnslu í A deild lækkaði úr 1,9% niður í 1,8% og viðmiðunaraldur hækkaði úr 65 árum í 67 ár. Áfram er hægt að sækja um lífeyri í A deildinni frá 60 ára aldri.

  • Breytingar á framtíðarávinnslu í V deild: Í febrúar 2023 voru réttindatöflur aldurstengdrar ávinnslu í V deild uppfærðar í samræmi við tillögur tryggingastærðfræðings sjóðsins. Ávinnsla réttinda til framtíðar var þar með lækkuð og hafa samþykktirnar nú réttindatöflur sem taka mið af bæði aldri og fæðingarári.

  • Breytingar á áunnum réttindum í A deild: Áunnin réttindi, hvort sem um er að ræða aldurstengd réttindi eða jöfn réttindi, lækkuðu um 10% með flatri lækkun. Lækkun aldurstengdra réttinda er miðuð við 1. febrúar 2023 en lækkun jafnra réttinda er miðuð við 31. desember 2023. Ástæðan fyrir mismunandi viðmiðunardagsetningu lækkunar er að í febrúar 2023 voru réttindatöflur aldurstengdrar ávinnslu uppfærðar í samræmi við tillögur tryggingastærðfræðings og framtíðarávinnsla þar með lækkuð. Ekki þarf að leiðrétta þau réttindi sjóðfélaga sem áunnin eru eftir breytingar á réttindatöflum.

  • Breytingar á áunnum réttindum í V deild: Áunnin réttindi voru lækkuð um 10,0% með flatri lækkun. Lækkun réttinda er miðuð við 1. febrúar 2023 en í febrúar 2023 voru réttindatöflur uppfærðar í samræmi við tillögur tryggingastærðfræðings. Þar með lækkaði framtíðarávinnsla og því þarf ekki að leiðrétta þau réttindi sjóðfélaga sem áunnin eru eftir þær breytingar.

 

 

Áhrif á núverandi lífeyrisgreiðslur í A og V deild
Lífeyrisgreiðslur frá og með 1. janúar 2024 lækka um 10%. Lækkunin hefur áhrif á  útborgun lífeyris í lok janúar 2024 þar sem almenna reglan er að lífeyrir er greiddur eftir á. Lækkunin gildir um alla tegundir lífeyrisgreiðslna þ.e. elli-, örorku- og makalífeyri en gildir ekki þó um barnalífeyrisgreiðslur.

Lækkunin tekur ekki til tiltekins hóps sjóðfélaga í A deild

Ákveðinn hópur sjóðfélaga nýtur bakábyrgðar launagreiðenda sinna, þ.e sveitarfélaga og stofnana þeirra og lækka þeirra lífeyrisgreiðslur því ekki.

Þetta eru þeir sjóðfélagar sem eru í:

  • A deild
  • Jafnri ávinnslu,
  • Voru orðnir 60 ára og/eða höfðu hafið töku lífeyris þann 1. júní 2017 þegar breytingar voru gerðar á A deild sjóðsins.

Launagreiðendur þurfa að bera kostnaðinn sem nemur lækkuninni og verður innheimtur hjá þeim mánaðarlega við útgreiðslu lífeyris þessa hóps.

Bakábyrgð þessi tekur ekki til framtíðarréttinda. Ávinnsla þessa hóps varð því sambærileg annarra sjóðfélaga í jafnri ávinnslu í A deild sbr. hér ofar eða 1,8%.

Lífeyrisþegar í B deild eða Lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar (LsRb)

Breytingarnar höfðu engin áhrif á þá sem fá lífeyri úr LsRb eða B deild eða eiga réttindi í B deildinni og/eða LsRb.

Ábending til þeirra sem fá einnig lífeyri hjá Tryggingastofnun (TR)

Ástæða er fyrir þau sem fá einnig lífeyrisgreiðslur hjá TR að skoða tekjuáætlun sína þar og breyta henni því lækkun á lífeyrisgreiðslum frá sjóðnum geta haft þau áhrif að sjóðfélagi eigi rétt á hærri lifeyrisgreiðslum frá TR.

Lífeyrisaukaiðgjald

Lífeyrisaukaiðgjald þeirra launagreiðenda sem greitt hafa slíkt iðgjald lækkar við breytingu þessa niður í 6,2%. Sjá nánar um lífeyrisaukaiðgjald hér.

Verður ennþá hægt að sækja um lífeyri milli 60 og 80 ára?

Já, áfram verður hægt að sækja um lífeyri milli 60 til 80 ára en ellilífeyrisréttur miðast nú við 67 ára í staðinn fyrir 65 ára.

Ekki er nauðsynlegt að vera hætt/ur störfum þegar taka eftirlauna hefst.

 

 

 

Flöt eða aldursskipt lækkun?

Með tilkomu nýs reiknilíkans um lífslíkur hafa flestir lífeyrissjóðir landsins breytt réttindum sjóðfélaga sinna en tvær aðferðir hafa verið notaðar við lækkun réttinda. Annars vegar er um að ræða flöt lækkun óháð aldri og hins vegar aldursskipt lækkun sem er þá misjöfn eftir aldri. Brú lífeyrissjóður ákvað að lækka réttindi með flatri lækkun þannig að áunnin réttindi lækka jafnt yfir alla og er þar með óháð aldri sjóðfélaga.

Flöt lækkun

Flöt lækkun er þegar áunnin réttindi er lækkuð jafnt á alla óháð aldri sjóðfélaga. Til grundvallar flatri lækkun er vísað til þess að lífeyriskerfið á Íslandi er byggt á samtryggingu, þar sem sjóðfélagar sameinast um að tryggja hver öðrum lífeyri og bera sameiginlega áhættu. Flöt lækkun er venjubundin og samræmist betur eðli og lagalegri umgjörð samtryggingasjóða.

Í lögum um lífeyrissjóði er ekki kveðið sérstaklega á um að breytingar eigi að vera  framkvæmdar með ákveðnum hætti og hafa lífeyrissjóðir því nokkurt sjálfræði þar að lútandi. Geta breytingar, bæði hækkun og lækkun réttinda, því farið eftir atvikum hverju sinni þar á meðal tryggingafræðilegri stöðu viðkomandi sjóðs og hvernig best verði tryggt það grundvallarmarkmið að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

Stjórn Brúar lífeyrissjóðs ákvað að réttindi hjá sjóðnum yrðu lækkuð með flatri lækkun og er það í samræmi við tillögur tryggingastærðfræðings sjóðsins.

Aldursskipt lækkun 

Aldursskipt lækkun er framkvæmd þannig að áunnin réttindi eru lækkuð mismikið eftir fæðingarárgöngum, þ.e. lækkunin verður minnst hjá eldri árgöngum og mest hjá hinum yngri. Til grundvallar þessari aðferð hefur helst verið vísað til þess að með henni sé tekið tillit til aukinna lífslíkna yngri sjóðfélaga, þ.e. lækkun réttinda má  rekja til þess að lífslíkur þeirra yngri eru hærri en áður og séu að aukast. 

 

 

Með þeim breytingum á samþykktum sjóðsins sem varða réttindi í A- og V-deild eiga deildirnar að geta staðið við skuldbindingar sínar í samræmi við markmið og áskilnað laga nr. 129/1997 og samþykkta sjóðsins að því gefnu að raunávöxtun sjóðsins til lengri tíma verði 3,5% eða yfir því viðmiði.

Ef þú hefur spurningar um breytingarnar, réttindi þín eða lífeyrisgreiðslur er þér velkomið að hafa samband við sjóðinn. Hægt er að bóka samtal í síma eða á skrifstofu sjóðsins eða hafa samband með því að senda okkur tölvupóst á lifeyrir@lifbru.is