Fara í efni

Aðild að A deild Brúar lífeyrissjóðs hafnað.

Beiðni um aðild sjálfseignarstofnunar að A deild Brúar lífeyrissjóðs barst sjóðnum í lok árs 2020. Þar til í byrjun árs 2020 hafði eitt af rekstaraðilum sjálfseignarstofnunar, sveitarfélag, skilað iðgjöldum til A deildar sjóðsins í nafni og kennitölu sveitarfélagsins. Á árinu 2020 varð breyting á en þá tók sjálfseignarstofnunin sjálf við launavinnslu, þ.m.t. iðgjaldaskilum til sjóðsins.

Í ákvæði 2.1. í samþykktum lífeyrissjóðsins er tilgreint hverjir eru sjóðfélagar í A deild sjóðsins, en það eru starfsmenn sveitarfélaga, stofnana, fyrirtækja og samlaga þeirra sem ráðnir eru samkvæmt kjarasamningi milli aðildarfélaga BSRB, BHM og KÍ.

Við umsókn um aðild sjálfseignarstofnunarinnar var í fyrsta lagi skoðað hvaða rekstarform falla undir orðalag ákvæðis 2.1. í samþykktum sjóðsins, í öðru lagi hvaða aðstæður geta réttlætt undantekningu á grundvelli almennrar heimildar sjóðsstjórnar samkvæmt lokamálslið ákvæðis 2.1. í samþykktum sjóðsins, í þriðja lagi skilyrði sem sjóðsstjórn kann að setja fyrir undantekningu og beinast að viðkomandi launagreiðanda og/eða sveitarfélagi og í fjórða lagi greining á heimildum sveitarfélaga til að undirgangast ábyrgðir samkvæmt 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Rekstarform:

Á grundvelli lögfræðiálits er það mat stjórnar að sjálfseignarstofnanir uppfylla ekki skilyrði ákvæðis 2.1. í samþykktum sjóðsins um að vera í eigu sveitarfélags. Starfsmenn stofnana, sem rekin eru í þessu rekstarformi, eru því ekki taldir eiga rétt á aðild að A deild sjóðsins, nema þá á grundvelli ákvörðunar sjóðsstjórnar um að gera undantekningu.

Undantekningarákvæði:

Undantekningarákvæði er varðar aðild að A deild sjóðsins er að finna í lokamálslið ákvæðis 2.1. í samþykktum sjóðsins en þar segir að sjóðsstjórn sé heimilt að veita starfsmanni aðild að A deild sem ekki á rétt til aðildar samkvæmt ákvæðinu sjálfu.

Við beitingu undanþáguheimildar um aðild að A deild sjóðsins ber að líta til þess hvort samþykki fyrir aðild hafi í för með sér aukna fjárhagslega áhættu fyrir aðra sjóðfélaga, sem samþykktir sjóðsins gera ekki ráð fyrir. Þessi áhætta er fyrir hendi ef starfsmaður (sjóðfélagi) annaðhvort hafði náð 60 ára aldri hinn 1. júní 2017 eða á rétt til jafnrar ávinnslu (lífeyrisauka) samkvæmt reglum í samþykktum þar um.

Heimild sveitarfélaga til að undirgangast ábyrgðir:

Ef undanþáguheimild til aðildar að A deild yrði beitt gagnvart starfsmönnum (sjóðfélögum) sem rétt eiga til jafnrar ávinnslu (lífeyrisauka) þyrfti að gera samhliða ráðstafanir til að tryggja sjóðinn (A deildina) fyrir áhættunni. Það var mat stjórnar að einhvers konar fjárhagsleg trygging úr hendi launagreiðanda, þ.e. sjálfseignarstofnunarinnar, í formi yfirlýsingar væri áhættusöm m.a. m.t.t. mögulegrar greiðslugetu og rekstarforms slíks launagreiðanda. Þá er sveitarfélagi óheimilt að ganga í ábyrgð fyrir skuldbindingum sjálfseignarstofnunar sbr. ákvæði 69. gr. sveitarstjórnarlaga, þar með að veita slíka fjárhagslega tryggingu.

Við vinnslu málsins var auk álits lögmanna kallað eftir áliti tryggingastærðfræðings sjóðsins. Óskað var eftir áliti hans á því hvort tryggt yrði án nokkurs vafa að aðild með greiðslu svokallaðs lífeyrisaukaiðgjalds, sbr. 10. gr. samþykkta sjóðsins, myndi ekki skapa fjárhagslega áhættu fyrir aðra sjóðfélaga A deildar. Það er álit tryggingastærðfræðings sjóðsins að ekki sé hægt að útiloka að aðild annarra sjóðfélaga en starfsmanna sveitarfélaga og stofnana þeirra kynnu að hafa áhrif á réttindi annarra sjóðfélaga þó svo að greitt yrði svokallað lífeyrisaukaiðgjald.

 

Beiðni um aðild sjálfseignarstofnunar að A deild Brúar lífeyrissjóðs var því hafnað af stjórn sjóðsins.