Fara í efni

Seðlabankinn breytir reglum um greiðslubyrði og veðsetningarhlutfall

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að gera breytingar á reglum nr. 216/2024 um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda og reglum nr. 217/2024 um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda.

Í frétt á vef Seðlabanka Íslands segir "Nokkur óvissa hefur skapast á íbúðalánamarkaði í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 55/2024 frá 14. október sl. og viðbragða lánveitenda við honum. Í því ljósi og til að styðja við virkni íbúðalánamarkaðar ákvað fjármálastöðugleikanefnd að gera breytingar á lánþegaskilyrðum."

Breytingar Seðlabankans á reglum sínum eru eftirfarandi: Undanþáguheimild lánveitenda til að veita lán umfram hámark greiðslubyrðar fasteignalána verður hækkuð úr 5% í 10% af heildarfjárhæð veittra fasteignalána undangengins ársfjórðungs. Heimild lánveitenda til hámarks veðsetningarhlutfalls vegna lánveitinga á fyrstu fasteign var hækkuð úr 85% í 90%.

Ath. Reglur seðlabankans breyta ekki lánareglum lánveitenda. Brú lánar samkvæmt lánareglum sjóðsins sem gilda hverju sinni. 

 

Sjá reglur Seðlabankans á vef stjórnartíðinda:

Reglur 1130/2025 um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda. Vefur stjórnartíðinda.

Reglur 1131/2025 um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda. Vefur stjórnartíðinda.

 

Breytingar á reglum | Seðlabanki.is