Fara í efni

Breytingar á lögum um lífeyrissjóði

Þann 15. júní sl. samþykkti Alþingi breytingar á  lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 sem taka gildi 1. janúar 2023. Frá þeim tíma verður lágmarksiðgjald í V deild 15,5% í stað 12% þannig að launagreiðendur þurfa að greiða 11,5% mótframlag til sjóðsins.  Samhliða þessari breytingu á lágmarksiðgjaldi hækkar lágmarkstryggingavernd samkvæmt lögum úr 1,4% í 1,8%.

Frá stofnun sjóðsins hafa sjóðfélagar í V deild haft þann valkost að geta ráðstafað allt að 3,5% af mótframlagi launagreiðenda í séreignasparnað. Þeir sjóðfélagar sem hafa nýtt sér þann valkost geta átt von á breytingum hvað það varðar um áramótin. Starfsfólks sjóðsins mun hafa samband við sjóðfélaga í haust þegar áhrif framan-greindar lagabreytingar liggja fyrir. Rétt er að geta þess að með umræddum lagabreytingum er sjóðnum heimilt að bjóða sjóðfélögum að ráðstafa allt að 3,5% af mótframlagi launagreiðanda í tilgreinda séreign, sem hluta af lágmarks-tryggingavernd. Um tilgreinda séreign gilda þrengri útgreiðslureglur en gilda um hefðbundinn séreignasparnað. 

Lagabreytingarnar hafa engin áhrif á réttindi sjóðfélaga í B deild sjóðsins en enn er óljóst um áhrif þeirra á A deildina.