Fara í efni

Ársreikningur Brúar lífeyrissjóðs fyrir árið 2023

Stjórn sjóðsins hefur samþykkt ársreikning sjóðsins fyrir árið 2023

Hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris í árslok nam 393,2 ma.kr. en var 338,5 ma.kr. í lok árs 2022 og hækkaði um 54,6 ma.kr. milli ára. Hrein nafnávöxtun var 10,6% og hrein raunávöxtun 2,4%.

Sjóðfélagar og iðgjöld


Iðgjöld námu 30,0 ma.kr. á árinu 2023 (2022: 23,3 ma.kr.), þar af voru 3,7 ma.kr. vegna aukaframlaga og 3,9 ma.kr. vegna framlags úr varúðarsjóði A deildar. Alls greiddu að meðaltali 21.760 einstaklingar iðgjöld til sjóðsins (2022: 21.313) og skiptust þeir milli sjóðsdeilda sem hér segir:

 

 

Lífeyrisþegar og lífeyrisgreiðslur


Sjóðurinn greiddi 12,1 ma.kr. í lífeyri á árinu 2023 (2022: 10,2 ma.kr.), þar af 8,8 ma.kr. í eftirlaun og 2,4 ma.kr. í örorkulífeyri. Að meðaltali fengu 11.420 einstaklingar greiddan lífeyri frá Brú á árinu 2023 (2022: 10.415) og skiptust þeir milli sjóðsdeilda sem hér segir:

 

 

Tryggingafræðileg staða


Tryggingafræðileg úttekt er gerð sérstaklega fyrir hverja deild sjóðsins og undirliggjandi réttindasöfn. Við úttektina er miðað við að raunávöxtun eigna verði 3,5% á komandi árum.

Heildarskuldbinding og hlutfall heildareigna umfram heildarskuldbindingu skiptist á milli sjóðsdeilda sem hér segir:

Niðurstaða tryggingafræðilegrar athugunar fyrir A deild og V deildar eru innan þeirra marka sem áskilin eru í 39. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Á árinu 2023 voru gerðar breytingar á samþykktum sjóðsins þar sem réttindum í A og V deild var breytt í samræmi við tillögur tryggingastærðfræðings sjóðsins. Breytingar voru gerðar í ákveðnum skrefum annars vegar í byrjun árs og hins vegar á seinni hluta ársins.

Fyrst voru gerðar breytingar til lækkunar á framtíðarávinnslu réttinda í aldurstengdri ávinnslu þegar að teknar voru upp nýjar réttindatöflur sem taka mið af bæði aldri og fæðingarári sjóðfélaga. Næst var samþykktum sjóðsins breytt þar sem framtíðarréttindi í jafnri ávinnslu í A deild voru lækkuð ásamt því að áunnin réttindi í A og V deild voru lækkuð um 10%.

Ástæða breytinganna er fyrst og fremst vegna innleiðingar á nýju reiknilíkani Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga á lífslíkum sem tók gildi í árslok 2021. Þar er gert ráð fyrir að lífaldur muni halda áfram að hækka sem leiddi til að skuldbindingar sjóðsins hækkuðu verulega og umfram lagaleg viðmið. Einnig hafði slök ávöxtun sjóðsins á árinu 2022 neikvæð áhrif á stöðu sjóðsins.

 

Ávöxtun ársins


Raunávöxtun sjóðsins var 2,4% á árinu 2023 og nafnávöxtun 10,6% samanborið við neikvæða raunávöxtun um 12,9% 2022 og neikvæða nafnávöxtun um 4,7%. Lífeyrissjóðurinn er langtímafjárfestir og hefur skilað góðri ávöxtun síðustu ár að undanskildu árinu 2022. Meðalávöxtun síðustu 5 ára er 2,3% og síðustu 10 ára 3,4%, sem er rétt undir því viðmiði sem lífeyrissjóðir setja sér, en gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðir nái 3,5% raunávöxtun á ári að meðaltali.

Talsverðar markaðssveiflur voru á árinu 2023 bæði á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum ásamt hárri innlendri verðbólgu. Þegar leið á árið varð hækkun á mörkuðum sem skýrir góða ávöxtun. Stýrivextir voru hækkaðir fjórum sinnum á árinu, síðast í ágúst en voru svo óbreyttir í 9,25% út árið. Stríðsátök erlendis og náttúruhamfarir á Reykjanesi höfðu einnig áhrif á markaðinn en þokkalegur stöðugleiki var á gjaldeyrismarkaði. Vísitala innlendra hlutabréfa lækkaði um 0,52% á árinu samanborið við lækkun um 14,2% á árinu 2022, en hækkun varð á innlendum skuldabréfamarkaði.

 

Grænar eignir


Í fyrsta sinn er sjóðurinn að veita upplýsingar um hversu stórt hlutfall af eignum sjóðsins teljast vera grænar eignir í samræmi við flokkunarreglugerð ESB (2020/852). Sú reglugerð skilgreinir hversu sjálfbær eða græn atvinnustarfsemi fyrirtækja telst en fyrirtækjum á fjármálamarkaði ber að nota upplýsingarnar til að upplýsa hvernig þær endurspeglast í starfsemi þeirra.

Grænt eignarhlutfall sjóðsins var á bilinu 1,0% til 1,4% í lok árs í deildum sjóðsins. Það er reiknað út frá veltu eða fjárfestingargjöldum undirliggjandi fyrirtækja og tekur til allra fjárfestingaeigna sjóðsins að frátöldum eignum með ríkisábyrgð.

 

 

Eitt af markmiðum flokkunarreglugerðar ESB er að stuðla að fjárfestingu í sjálfbærum rekstri og sporna við grænþvotti. Reglugerðin tók gildi 1. júní 2023 og er innleiðing skammt á veg komin og upplýsingar fyrirtækja því af skornum skammti. Upplýsingarnar sem hér eru settar fram ber að taka með þeim fyrirvara að vegferðin er rétt að hefjast og væntanlega verða upplýsingarnar skilmerkilegri í framtíðinni.

 

Helstu stærðir ársins koma fram í töflunni hér fyrir neðan:

 

Ársreikningur 2023