Fara í efni

Reglur um hámark veðsetningarhlutfalls og greiðslubyrðar fasteignalána

Í dag þann 16. júní taka gildi nýjar reglur Seðlabanka Íslands nr. 701/2022 um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda og nr. 702/2022  um hámarks veðsetningarhlutfall fasteignalána til neytenda. Samhliða falla úr gildi fyrri reglur nr. 778/2021 um hámark veðsetningarhlutfalls til neytenda og nr. 1268/2021 um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda. Reglurnar voru samþykktar á fundi fjármálastöðugleikanefndar þann 14. júní.

Samkvæmt reglunum er annars vegar hámark veðsetningarhlutfalls fyrstu kaupenda lækkað úr 90% í 85% af markaðsverði fasteignar og hins vegar sett viðmið um lágmarksvexti við útreikning hámarks greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda.

Við útreikning hámarks greiðslubyrðar samkvæmt reglum Seðlabankans á nú að notast við þá vexti sem hærri eru hverju sinni, samningsvexti eða lágmarksvexti samkvæmt reglunum sem eru 5,5% fyrir óverðtryggð lán og 3% fyrir verðtryggð lán. Einnig er gerð breyting á hámarki lánstíma við útreikning á greiðslubyrðarhlutfalli fyrir verðtryggð lán sem er nú 25 ár í stað 30 ára áður. Hámark lánstíma við útreikning á greiðslubyrðarhlutfalli fyrir óverðtryggð lán er áfram 40 ár.