Fara í efni

Viljayfirlýsing um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar undirrituð í dag

Í dag undirrituðu Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og aðilar sem fara fyrir hátt í 80% af eignum á íslenskum fjármálamarkaði „Viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar“. Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, Samtök
fjármálafyrirtækja (SFF), Landssamtök lífeyrissjóða (LL) og Forsætisráðuneytið unnu að mótun  hennar í víðtæku samráði við fulltrúa helstu aðila á fjármálamarkaði.

Viljayfirlýsingin er einstakt framtak einkaaðila og stjórnvalda á fordæmalausum tímum. Víðtæk áhrif  COVID-19 undirstrika enn betur mikilvægi þess að hafa sjálfbærni til hliðsjónar í því uppbyggingarstarfi sem framundan er. Í viljayfirlýsingunni  kemur fram að fjármagn er mikilvægt hreyfiafl í mótun atvinnulífs og atvinnusköpunar í þeirri uppbyggingu sem framundan er. Ákvarðanir sem  teknar eru í dag hafa mikil áhrif á framþróun næstu ára og því mikilvægt að hafa sjálfbærni sem leiðarljós.  Tekið verður til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og þeirra viðmiða sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér. Þar má nefna markmiðið um kolefnis-hlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040, markmið Parísarsamkomulagsins um að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5 gráður og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun 2030. Eftir atvikum er einnig litið til ESG/UFS, meginreglna  Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi (UN PRB), meginreglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI) og UN Global Compact.