Breyting á réttindaöflun
Breyting varð á réttindaöflun sjóðfélaga í A deild frá og með 1. júní 2017. Breytingarnar hafa mismunandi áhrif á sjóðfélaga og eru þær gerðar vegna breytinga á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Markmið með lagabreytingunni var að samræma lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins og hafði sú lagabreyting áhrif á A deild Brúar lífeyrissjóðs.
Eftirfarandi breytingar komu til framkvæmda 1. júní 2017:
- Réttindaávinnsla A deildar var breytt úr jafnri réttindaávinnslu yfir í aldurstengda réttindaávinnslu.
- Lífeyrisaldur samræmdur við almennan vinnumarkað og varð 67 ár.
- A deild er viðhaldið en þeir sem greiða áfram iðgjald til sjóðsins fara yfir í aldurstengda réttindaávinnslu en mismunur á réttindum í jafnri og aldurstengdri ávinnslu er mætt með sérstöku framlagi, lífeyrisauka, sem launagreiðendur greiða inn til sjóðsins.
- Auk framlags í lífeyrisaukasjóð greiða launagreiðendur framlag í jafnvægissjóð sem er nýttur til að koma áfallinni stöðu A deildar í jafnvægi þann 31.maí 2017
- Nýir sjóðfélagar frá 1. júní 2017 fara í aldurstengda réttindaávinnslu.
- Launagreiðendur greiða einnig til sjóðsins framlag í varúðarsjóð.
- Mótframlag launagreiðanda lækkaði úr 12% í 11,5% þann 1. júní 2017.
- Réttindi þeirra sem byrjaðir eru á lífeyri þann 31. maí 2017 og þeirra sem verða 60 ára á sama tíma verða ekki skert eða aukin þó svo til skerðingar eða réttindaaukningar komi hjá öðrum sjóðfélögum. Launagreiðendur gera sérstaklega upp fjárhagsleg áhrif vegna þessara sjóðfélaga við sjóðinn.
Áhrif á sjóðfélaga sem áttu aðild fyrir 1. júní 2017
Réttindi þeirra sjóðfélaga sem áttu aðild að A deild fyrir breytingarnar verða ekki skert við gildistöku laganna vegna framlags launagreiðenda til sjóðsins.
Sjóðfélagar sem greiða áfram iðgjald í A deild fara yfir í aldurstengda réttindaávinnslu en mismunur á jafnri ávinnslu og aldurstengdri ávinnslu framtíðarréttinda er mætt með lífeyrisauka sem launagreiðendur greiða inn til sjóðsins.
Réttindi sjóðfélaga verða aftur á móti framvegis bundin tryggingafræðilegri stöðu og geta lækkað eða hækkað eftir afkomu sjóðsins. Þetta á bæði við um áunnin réttindi fyrir 1. júní 2017 og framtíðarréttindi sjóðfélaga.
Nýir sjóðfélagar eftir 1. júní 2017
Sjóðfélagar sem byrja að greiða til sjóðsins eftir 1. júní 2017 ávinna sér réttindi sem eru aldurstengd. Því yngri sem sjóðfélagi byrjar að greiða til sjóðsins því verðmætari verða réttindin hans vegna lengri ávöxtunartíma.
Réttindin eru bundin tryggingafræðilegri afkomu sjóðsins og geta hækkað eða lækkað eftir afkomu hans.
Viðmiðunaraldur lífeyristöku verður 67 ár en lífeyristaka getur hafist milli 60-70 ára.
Sjóðfélagar sem voru 60 ára og eldri fyrir 1. júní 2017
Breytingin á A deild sjóðsins hefur engin áhrif á sjóðfélaga sem voru orðnir 60 ára fyrir 1. júní 2017.
Úr hverju er verið að breyta?
Lífeyrisréttindin í A deild voru með jafnri ávinnslu óháð aldri. Sjóðfélagi ávann sér því lífeyrisrétt sem nam 1,9% af launum. Viðmiðunaraldur lífeyristöku var 65 ár en gat hafist á milli 60-70 ára.
Spurt & svarað um breytingar á A deild 1. júní
Hvaða breytingar eru gerðar á A deild Brúar lífeyrissjóðs?
Markmið með lagabreytingunni er að samræma lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Í stað jafnrar ávinnslu réttinda mun réttindaávinnsla framvegis verða aldurstengd og viðmiðunaraldur lífeyristöku verður 67 ár í stað 65 ára. Þessar breytingar taka gildi frá og með 1. júní 2017. Réttindin verða bundin tryggingafræðilegri afkomu sjóðsins og geta hækkað eða lækkað eftir afkomu hans.
Ég er á lífeyri, hefur breytingin áhrif á lífeyrisgreiðslurnar mínar?
Nei. Breytingin hafði ekki áhrif á þá lífeyrisþega sem þegar höfðu hafið töku lífeyris fyrir 1. júní 2017.
Hefur breytingin áhrif á alla sjóðfélaga Brúar lífeyrissjóðs?
Hvað varðar Brú lífeyrissjóð eiga fyrirhugaðar breytingar aðallega við um A deild sjóðsins en hafa einnig áhrif á V deild þar sem lífeyristökualdur hækkar einnig í þeirri deild í 67 ár. B deild sjóðsins er með öllu óbreytt.
Ég er sjóðfélagi í B deild / Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkur / Lífeyrissjóði starfsmanna Kópavogsbæjar– hefur breytingin áhrif á réttindi mín þar?
Breytingin hefur engin áhrif á réttindi þín í B deildinni eða hjá Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar eða Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar.
Ég er sjóðfélagi í A deild Brúar lífeyrissjóðs og hafði hugsað mér að fara á lífeyri 65 ára. Er sá möguleiki ekki lengur til staðar?
Jú, sá valmöguleiki verður áfram til staðar fyrir núverandi sjóðfélaga í A deild. Sem fyrr geta sjóðfélagar í A deild hafið töku lífeyris hvenær sem er á aldrinum 60 til 70 ára. Það er óbreytt í nýju kerfi en viðmiðunaraldur hækkar úr 65 árum í 67.
Hvað þýðir jöfn ávinnsla réttinda og aldurstengd ávinnsla réttinda?
Með jafnri ávinnslu er átt við að ávinnsla réttinda sé jöfn yfir starfsævina og óháð aldri.
Aldurstengd ávinnsla réttinda tekur mið af aldri sjóðfélaga, iðgjöld yngri sjóðfélaga eru verðmætari því þau ávaxtast yfir lengri tíma. Þannig njóta yngri sjóðfélagar ávinnings af því hve lengi iðgjöld þeirra eiga eftir að ávaxtast. Réttindi sjóðfélaga verða því í samræmi við verðmæti iðgjaldanna sem þeir greiða.
Hverjir eiga rétt á jafnri ávinnslu réttinda?
Þeir sjóðfélagar sem höfðu greitt til A deildar einhvern tímann á síðustu 12 mánuðum fyrir 1. júní 2017 eiga rétt á jafnri ávinnslu réttinda. Sjóðfélagar sem starfa hjá öðrum launagreiðendum en ríkisaðilum og sveitarfélögum eiga aðeins þennan rétt ef launagreiðandi þeirra samþykkir greiðslu sérstaks iðgjalds.
Falli iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga niður til lengri tíma en 12 mánaða fellur réttur hans til jafnrar ávinnslu niður til framtíðar. Heimilt er að framlengja þetta tímabil um 12 mánuði vegna náms, veikinda eða fæðingarorlofs sjóðfélaga. Sjóðfélagi heldur þó alltaf réttinum til jafnrar ávinnslu ef ráðningarsamband er fyrir hendi, t.d. ef hann er í launalausu leyfi.
Sjóðfélagar sem eiga rétt á jafnri ávinnslu réttinda halda þeim rétti þó þeir skipti um starf, að því gefnu að starfið veiti rétt til aðildar að A deild. Loks geta sjóðfélagar sem hafa einhvern tíma greitt í sjóðinn öðlast rétt til jafnrar ávinnslu réttinda ef þeir hefja greiðslur á ný fyrir 1. júní 2018.
Verður hin óbeina ábyrgð launagreiðenda áfram til staðar?
Nei. Með framlögum launagreiðenda í jafnvægissjóð, lífeyrisaukasjóð og varúðarsjóð verður ábyrgð launagreiðenda á réttindum í A-deild afnumin.
Sérstakar reglur gilda um þá sem náð hafa 60 ára aldri eða hafa hafið töku lífeyris fyrir 1. júní 2017. Þessir sjóðfélagar munu áfram hafa rétt til sambærilegrar tryggingar og óbeina ábyrgðin felur í sér.
Hvað kemur í stað hinnar óbeinu ábyrgðar launagreiðanda?
Launagreiðendur greiða framlög sem nema um 37 milljarða króna til sjóðsins í formi jafnvægissjóðs og lífeyrisaukasjóðs. Að auki verða um 2,9 milljarðar króna settar í sérstakan varúðarsjóð sem ætlað er að styðja við lífeyrisaukasjóð svo hann geti staðið undir skuldbindingum sínum. Komi í ljós síðar að þessi fjárhæð dugi ekki til eru launagreiðendur skuldbundnir að taka upp viðræður við heildarsamtök opinberra starfsmanna um hvernig við því skuli brugðist.
Af hverju er verið að breyta lífeyriskerfinu?
Markmið Alþingis er að samræma lífeyrisréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði. Lífeyriskerfi opinberra starfsmanna í núverandi mynd stendur ekki undir sér óbreytt.
Geta ungir sjóðfélagar notið betri réttinda í nýju kerfi?
Það er einstaklingsbundið hvort yngri sjóðfélagar komi betur út í nýju kerfi.
Hvað gerist ef ég tek mér leyfi frá störfum? Held ég þá óskertum réttindum?
Falli iðgjaldagreiðslur þínar niður til lengri tíma en 12 mánaða fellur réttur til jafnrar ávinnslu niður til framtíðar en þó er heimilt að framlengja það tímabil um 12 mánuði vegna náms, veikinda eða fæðingarorlofs. Þú heldur hins vegar alltaf réttinum ef ráðningarsamband er fyrir hendi, t.d. ef þú ferð í launalaust leyfi.
Ef ég fer að vinna á almennum vinnumarkaði og hætti þar með að greiða í A deild Brúar lífeyrissjóðs en sný til baka til hins opinbera eftir tólf mánuði eða meira. Held ég þá óskertum réttindum?
Nei, réttur til jafnrar ávinnslu fellur niður eftir 12 mánuði í slíkum tilvikum.
Mun iðgjald sjóðfélaga í A deild Brúar lífeyrissjóðs verða hækkað vegna breytinganna?
Nei, iðgjald þitt verður eftir sem áður 4%.
Mun mótframlag atvinnurekanda vegna iðgjalda breytast?
Mótframlag launagreiðenda lækkar úr 12% í 11,5%. Með samþykki stjórnar sjóðsins geta aðrir launagreiðendur en sveitarfélög og stofnanir þeirra greitt sérstakt viðbótar iðgjald sem nú er 4,5% vegna áframhaldandi aðildar starfsmanna að A deild Brúar lífeyrissjóðs.
Munu réttindi vegna örorkulífeyris breytast?
Nei, réttindi núverandi sjóðfélaga verða óbreytt. Hjá nýjum sjóðfélögum er meginbreytingin að ávinnsla réttinda verður aldurstengd en skilyrði til að öðlast réttindi þau sömu.
Breytast réttindi vegna makalífeyris?
Nei, réttindi núverandi sjóðfélaga verða óbreytt. Hjá nýjum sjóðfélögum er meginbreytingin sú að ávinnsla réttinda verður aldurstengd en skilyrði til að öðlast réttindi eru þau sömu.
Breytast réttindi vegna barnalífeyris?
Nei, rétturinn til barnalífeyris verður óbreyttur.
Ég á geymd réttindi í A deild frá fyrri tíð. Munu þau skerðast?
Breyting verður ekki á geymdum réttindum þann 1. júní 2017. Þau geta þó breyst eftir tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins.
Ég hef greitt í A-deild Brúar lífeyrissjóð. Ég mun fljótlega skipta um starf og á þá að greiða til A deildar LSR. Munu réttindin mín þá breytast?
Sjóðfélagar A deildar Brúar lífeyrissjóðs sem rétt eiga á jafnri ávinnslu réttinda munu einnig eiga rétt á jafnri ávinnslu hjá A deild LSR skipti þeir um starf og verða sjóðfélagar þar. Þó má ekki hafa liðið lengri tími en tólf mánuðir á milli starfa. Sambærilegt ákvæði er í samþykktum LSR.
Úr hverju er verið að breyta?
Lífeyrisréttindin í A deild voru fyrir 1. júní 2017 með jafnri ávinnslu óháð aldri. Sjóðfélagi ávann sér því lífeyrisrétt sem nam 1,9% af launum. Viðmiðunaraldur lífeyristöku var 65 ár en gat hafist á milli 60-70 ára.