Fara í efni

A deild


Aðild að A deild

Starfsmenn sem eru í BSRB, BHM og KÍ sem byrjuðu að vinna hjá sveitarfélagi eftir 1. júlí 1998, eiga kjarasamningsbundna aðild að A deild. Einnig eiga þeir starfsmenn aðild að sjóðnum sem áttu réttindi í eldri sveitarfélagssjóðum en völdu að skipta yfir í A deild þegar sjóðurinn var stofnaður. 

Réttindaöflun

Þann 1. júní 2017 var réttindaöflun A deildar breytt úr 1,9% jafnri ávinnslu, þar sem ávinnsla réttinda er jöfn yfir starfsævina og óháð aldri, í aldurstengda ávinnslu réttinda, sem þýðir að sjóðfélagar njóta ávinnings eftir því hversu lengi iðgjöld þeirra ávaxtast.

Breytingarnar höfðu mismunandi áhrif á sjóðfélaga, eftir því hvort þeir voru í sjóðnum fyrir breytingarnar, byrjuðu í sjóðnum eftir breytingar eða voru orðnir sextíu ára fyrir breytingarnar. Fjórði hópurinn er svo sjóðfélagar sem eiga geymd réttindi hjá sjóðnum, þ.e. skiptu um starf og fóru að borga í annan lífeyrissjóð en eiga geymd réttindi frá fyrra starfi í A deild Brúar lífeyrissjóðs. Hægt er að finna nánari umfjöllun um breytingarnar á A deild hér.

Réttindi A deildar Brúar lífeyrissjóðs eru því mismunandi eftir því hvenær sjóðfélagi byrjaði í deildinni.

Sjóðfélagar sem voru á lífeyri eða orðnir 60 ára fyrir breytingar

Réttindi sjóðfélaga í A deild sem voru orðnir 60 ára eða komnir á lífeyri fyrir breytingarnar verða áfram fyrirfram ákveðin og tryggð. Réttindin verða því ekki skert eða aukin þó svo til skerðingar eða réttindaaukningar komi hjá öðrum sjóðfélögum.

Réttindi safnast upp með tímanum sem eru 1,9% af árslaunum sjóðfélaga (verðtryggð m.v. vísitölu neysluverðs.)

Viðmiðunaraldur lífeyristöku er 65 ára, en sjóðfélagar geta valið um að fara á lífeyri frá 60 ára til 80 ára aldurs.

Sjóðfélagar sem greiddu iðgjöld í sjóðinn fyrir breytingar

Sjóðfélagar sem greiddu iðgjöld í sjóðinn fyrir breytingar og halda því áfram, fara yfir í aldurstengda réttindaávinnslu en mismunur á réttindum í jafnri og aldurstengdri ávinnslu er mætt með sérstöku framlagi frá launagreiðendum.

Við iðgjaldaskil er jöfn ávinnsla* og aldurstengd ávinnsla reiknuð út og fær sjóðfélagi þau réttindi sem hærri eru.

Réttindi sjóðfélaga verða framvegis bundin tryggingafræðilegri stöðu og geta lækkað eða hækkað eftir afkomu sjóðsins. Þetta á bæði við um áunnin réttindi fyrir 1. júní 2017 og framtíðarréttindi sjóðfélaga.

Viðmiðunaraldur lífeyristöku er 65 ára hjá þeim sjóðfélögum sem halda jafnri réttindaávinnslu, en sjóðfélagar geta valið um að fara á lífeyri frá 60 ára til 80 ára aldurs.

* Jöfn réttindaávinnsla er 1,9% af árslaunum óháð ávöxtun sjóðsins og tímalengd.

Sjóðfélagar sem byrjuðu að greiða iðgjöld eftir breytingar

Sjóðfélagar sem byrja að greiða til sjóðsins eftir 1. júní 2017 ávinna sér réttindi sem eru aldurstengd og fara eftir ávöxtunartíma iðgjalds. Því yngri sem sjóðfélagi byrjar að greiða til sjóðsins því verðmætari verða réttindi hans vegna lengri ávöxtunartíma.

Réttindin eru bundin tryggingafræðilegri afkomu sjóðsins og geta hækkað eða lækkað eftir afkomu hans.

Viðmiðunaraldur lífeyristöku er 67 ár, en sjóðfélagar geta valið um að fara á lífeyri frá 60 ára til 80 ára aldurs.

Geymd réttindi

Sjóðfélagar sem hættu að greiða iðgjöld í A deild og fóru í annan lífeyrissjóð, eiga svokölluð geymd réttindi. Þann 1.júní 2017 var engin breyting gerð á geymdum réttindum, en þau geta eftirleiðis breyst eftir tryggingafræðilegri afkomu sjóðsins.

Viðmiðunaraldur lífeyristöku er 65 ára, en sjóðfélagar geta valið um að fara á lífeyri frá 60 ára til 80 ára aldurs.

Iðgjald

Iðgjald er breytilegt, en það er nú alls 15,5%.

Vinnuveitandi greiðir 11,5% og sjóðfélagi greiðir 4%.

Réttindi

Með greiðslu iðgjalda afla sjóðfélagar sér réttinda til eftirlauna, makalífeyris, barnalífeyris og örorkulífeyris.

Athugaðu að eftirlaunarétturinn er mismunandi eftir því hvort þú greiddir iðgjöld til sjóðsins fyrir 1. júní 2017 eða eftir þann tíma eins og sagt er frá hér að ofan.

Einnig hægt að skoða uppsöfnuð réttindi í Lífeyrisgátt.

 

Eftirlaun sjóðfélaga sem greiddu iðgjöld fyrir breytingar 1. júní 2017

Sjóðsfélagi hefur val um að hefja töku ellilífeyris milli 60 - 80 ára.

Viðmiðunaraldur lífeyristöku er 65 ár hjá þeim sjóðfélögum sem halda jafnri réttindaávinnslu.

Hefji sjóðfélagi  töku lífeyris fyrr, lækkar áætlaður lífeyrir miðað við 65 ára aldur um 0,45 - 0,65%  fyrir hvern mánuð sem taka lífeyris er flýtt.

Hefji sjóðfélagi töku lífeyris síðar, hækkar áætlaður lífeyrir miðað við 65 ára aldur, um 0,56 - 3,55% fyrir hvern mánuð sem taka lífeyris frestast. 

Í stuttu máli:

 • Hægt að hefja töku lífeyris frá 60-80 ára
 • Viðmiðunaraldur lífeyristöku er 65 ár
 • Lækkar ef lífeyristaka hefst fyrir 65 ára
 • Hækkar ef lífeyristaka hefst eftir 65 ára

Eftirlaun sjóðfélaga sem byrjuðu eftir 1. júní 2017

Sjóðfélagi hefur val um að hefja töku ellilífeyris milli 60-80 ára.

Viðmiðunaraldur lífeyristöku er 67 ár.

Hefji sjóðfélagi  töku lífeyris fyrr, lækkar áætlaður lífeyrir miðað við 67 ára aldur um 0,35 - 0,60%  fyrir hvern mánuð sem lífeyristöku er flýtt.

Hefji sjóðfélagi töku lífeyris síðar, hækkar áætlaður lífeyrir miðað við 67 ára aldur, um 0,60 - 3,10% fyrir hvern mánuð sem lífeyristöku er frestað. 

 

Í stuttu máli:

 • Hægt að hefja töku lífeyris frá 60-80 ára
 • Viðmiðunaraldur lífeyristöku miðast við 67 ár
 • Lækkar ef lífeyristaka hefst fyrir 67 ára
 • Hækkar ef lífeyristaka hefst eftir 67 ára

Makalífeyrir

Falli sjóðfélagi frá fær maki hans borgaðan lífeyri í fimm ár, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Skilyrði að sjóðfélagi sé virkur sjóðfélagi fyrir andlát eða hafi notið lífeyrisgreiðslna úr sjóðnum.

Fullur réttur maka er 50% af lífeyrisréttindum sjóðfélaga – framreiknað (miðað er við þau réttindi sem sjóðfélagi hefði átt hefði hann greitt iðgjöld á sömu forsendum til 65 ára eftirlaunaaldurs).

Maki fær þannig helming af lífeyrisréttindum sjóðfélaga fyrstu 36 mánuðina. Að þeim tíma liðnum helmingast upphæðin næstu 24 mánuði.

Hafi maki barn yngra en 22 ára á framfæri sínu, helst fullur makaréttur fram að 22 ára aldri yngsta barns. Sé maki meira en 50% öryrki og yngri en 67 ára við fráfall sjóðfélaga, helst fullu makaréttur meðan sú örorka varir.

 

Í stuttu máli:

 • Fullur réttur er 50% af lífeyrisréttindum sjóðfélaga – framreiknað.
 • Fullur réttur í 36 mánuði
 • Hálfur réttur í 24 mánuði
 • Fullur réttur ef barn er yngra en 22 ára
 • Fullur réttur ef maki er meira en 50% öryrki og yngri en 67 ára við fráfall sjóðfélaga

Barnalífeyrir

Börn sjóðfélaga fá greiddan barnalífeyri til 22 ára aldurs við fráfall eða örorku sjóðfélaga.

Um er að ræða ákveðna krónutölu sem breytist eftir vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Barnalífeyrir vegna andláts sjóðfélaga er 25.746 kr. m.v. vísitölu júní 2016.

Barnalífeyrir vegna örorku er 19.310 kr. m.v. vísitölu desember 2017.

 

Í stuttu máli:

 • Barnalífeyrir greiddur vegna andláts eða örorku
 • Greitt þar til barn verður 22ja ára
 • 25.746 kr. vegna andláts mv. VNV
 • 19.310 kr. mv. VNV vegna örorku

Örorkulífeyrir

Þeir sem hafa greitt til sjóðsins í a.m.k. tvö ár og hafa verið metnir af lækni til meira en 40% örorku og verða fyrir raunverulegri tekjuskerðingu geta átt rétt á örorkulífeyri.

Örorkulífeyrir er framreiknaður til 65 ára aldurs að uppfylltum ákveðnum skilyrðum (miðað er við þau réttindi sem sjóðfélagi hefði átt hefði hann greitt iðgjöld á sömu forsendum til ellilífeyrisaldurs).

Örorkulífeyrir fer eftir mati á örorkuprósentu (dæmi: 45% örorka veitir 45% réttindi).

Örorka miðast við vanhæfni til að gegna starfi sem sjóðfélagi vann þegar hann var metinn til örorku í 5 ár. Eftir þann tíma er örorka hans endurmetin miðað við hæfni til að gegna almennum störfum.

Sótt er um örörkulífeyri rafræn hér. Ítarlegt læknisvottorð (Læknisvottorð v/umsóknar um örorkubætur) þarf að fylgja umsókninni, má ekki vera eldra en þriggja mánaða.

 

 

Í stuttu máli:

 • Miðað við a.m.k. 40% örorkumat
 • Raunveruleg tekjuskerðing
 • Framreiknað til 65 ára aldurs að ákveðnum skilyrðum uppfylltum
 • Vanhæfni til að gegna starfi sínu í 5 ár
 • Endurmetið eftir 5 ár og miðað við hæfni til að gegna almennum störfum