Fara í efni

B deild

Sjö sjóðir sameinaðir í B deild

Sjö lokaðir sveitarfélagasjóðir sameinaðir í B deild hjá Brú lífeyrissjóði.

B deild Brúar lífeyrissjóðs var stofnuð sumarið 2013 með sameiningu fimm lokaðra sveitarfélagssjóða, en það voru Eftirlaunasjóður starfsmanna Hafnarfjarðarkaupstaðar, Lífeyrissjóður Akraneskaupstaðar, Lífeyrissjóður starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar, Lífeyrissjóður Neskaupstaðar og Lífeyrissjóður starfsmanna Vestmannaeyjakaupstaðar. Eftirlaunasjóður Reykjanesbæjar var sameinaður inn í B deild 1. janúar 2017 og Lífeyrissjóður starfsmanna Kópavogsbæjar var sameinaður miðað við 1. janúar 2018.

Við sameiningu sjóða inn í B deild var lögð áhersla á að réttindi sjóðfélaga héldust óbreytt sem og réttindaávinnsla til framtíðar. Bakábyrgð sveitarfélaga helst einnig óbreytt og er hún sérgreind fyrir hvern sjóð.

> Samþykktir Brúar lífeyrissjóðs er að finna hér.

*Með lífeyrissjóðslögum voru lífeyrissjóðunum lokað fyrir nýjum sjóðsfélögum þann 1. júlí 1998 í samræmi við lög nr. 129 frá 1997.Aðild að B deild

Þeir einir hafa rétt til að greiða áfram til B deildar sem voru sjóðfélagar í ofantöldum lífeyrissjóðum í júní 1998 og hafa átt aðild að þeim óslitið, eru í eigi minna en hálfu starfi og taka kjör samkvæmt kjarasamningum byggðum á lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Hafi iðgjaldagreiðsla sjóðfélaga fallið niður vegna launalauss leyfis eða veikinda á viðkomandi rétt til að hefja aftur greiðslu iðgjalda innan 12 mánaða frá því að greiðsla iðgjalda féll niður.

Í stuttu máli:

 • Óslitin aðild frá 1998
 • Meira en 50% starfshlutfall
 • Hlé á greiðslu iðgjalda varið skemur en 12 mánuði

 

Lífeyrisréttindi B deildar

Réttindi B deildar

Réttindi eru tryggð með bakábyrgð launagreiðanda og þau myndast með tíma og hlutfalli starfs. Almennt er réttindaávinnsla B-deildarinnar 2% á ári af dagvinnulaunum fyrir fullt starf. Hlutastarf skilar hlutfallslegum réttindum. Þeir sem vinna minna en 50% starf eiga ekki aðild að B deild.

Iðgjald í B-deild er 12% af dagvinnulaunum og eftir atvikum af vaktaálagi og orlofs- og persónuuppbót. Ekki er greitt iðgjald af yfirvinnu. Hlutur launþega er 4% og mótframlag launagreiðanda er 8%.

 

Í stuttu máli:

 • Réttindi tryggð með bakábyrgð launagreiðanda
 • Miðast við tíma og hlutfall starfs
 • 2% á ári af dagvinnulaunum
 • Hlutastarf = hlutfallsleg réttindi
 • Skilyrði um meira en 50% starf til að vera sjóðfélagi
 • 12% iðgjald - ekki greitt iðgjald af yfirvinnu

Eftirlaun

Þeir sem eru orðnir 65 ára og hafa látið af störfum hjá sínu sveitarfélagi geta hafið töku lífeyris. Mögulegt er að hefja lífeyristöku fyrr ef sjóðfélagi hefur náð 95 ára reglunni sem er samanlagður sjóðfélagaaldur og lífaldur. Þeir sem ná 95 ára reglunni ættu að hafa samband við lífeyrisfulltrúa sjóðsins.

 

Í stuttu máli:

 • Eftirlaunaaldur eftir 65 ára

 • Hægt að komast fyrr á lífeyri eftir 95 ára reglu er náð

 • 95 ára regla = sjóðfélagaaldur + lífaldur

 • Þeir sem ná 95 ára reglu ættu hafa samband við lífeyrisfulltrúa

Makalífeyrir

Við fráfall sjóðfélaga hefur maki rétt á 50% af áunnum réttindum hans ævilangt. Hafi sjóðfélagi látist í starfi eða í beinu framhaldi af töku eftirlauna af starfi greiðist 20% viðbótarálag á makalífeyri miðað við fullt starf sjóðfélaga. Makalífeyrir fellur niður ef maki hefur sambúð að nýju.

 

Í stuttu máli:

 • Makalífeyrir er a.m.k. 50% af áunnum réttindum sjóðfélaga
 • Maki fær 20% viðbót ef sjóðfélagi hefur látist í starfi eða á eftirlaunum í beinu framhaldi af starfi.
 • Fellur niður við nýja sambúð.

Barnalífeyrir

Hafi sjóðfélagi látist hafa börn hans, yngri en 18 ára, rétt á að sækja um barnalífeyri.

Réttur þessi gildir jafnt fyrir börn, kjörbörn og fósturbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti.

 

Í stuttu máli:

 • Barnalífeyrir greiddur til barna látins sjóðfélaga til 18 ára aldurs

Örorkulífeyrir

Þeir sem greitt hafa iðgjöld til sjóðsins og hafa verið metnir af lækni til meira en 10% örorku geta á rétt á örorkulífeyri. Miðast örorkulífeyrir við áunnin réttindi, þ.e. 2% af launatekjum á ári, m.v. fullt starf.

Örorkulífeyrir er framreiknaður til 65 ára aldurs að ákveðnum forsendum uppfylltum (miðað er við þau réttindi sem sjóðfélagi hefði átt hefði hann greitt iðgjöld á sömu forsendum til ellilífeyrisaldurs).

Örorkulífeyrir fer eftir mati á örorkuprósentu (dæmi: 45% örorka veitir 45% réttindi).

Ítarlegt læknisvottorð (Læknisvottorð v/umsóknar um örorkubætur) þarf að fylgja umsókninni, má ekki vera eldra en þriggja mánaða.

 

Í stuttu máli:

 • Miðað við a.m.k. 10% örorkumat
 • Örorkulífeyrir miðast við áunninn lífeyrisrétt
 • Framreiknað til 65 ára aldurs að ákveðnum skilyrðum uppfylltum

Meðaltalsregla – Eftirmannsregla

Viðmið lífeyris getur verið annað hvort skv. meðaltalsreglu eða eftirmannsreglu.

Meðaltalsregla

Almenna reglan er sú að lífeyrir breytist mánaðarlega skv. vísitölu launa opinberra starfsmanna.  Lífeyrir miðast við lokastarfslaun sjóðfélaga og síðan er vísitölu launa opinberra starfsmanna fylgt. Allir sem eiga geymd réttindi fara á meðaltalsreglu.

Eftirmannsregla

Þeir sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi geta óskað eftir að lífeyrir fylgi launum eftirmanns. Lífeyrir miðast þá við laun eftirmanns sjóðfélaga í starfi og fylgir kjarasamningum.

Hægt er að færa sig af eftirmannsreglu yfir á meðaltalsreglu, en ekki öfugt. 

 

Í stuttu máli:

 • Meðaltalsregla er meginregla
 • Val aðeins fyrir þá sem fara á lífeyri í beinu framhaldi af starfi
 • Hægt að fá þriggja mánaða frest til að velja um reglu í upphafi
 • Hægt að  fara af eftirmannsreglu yfir á meðtaltalsreglu
 • Ekki hægt að fara aftur á eftirmannsreglu