Fara í efni

E deild

Velkomin í E deild, réttindasafn Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar sem hefur sameinast Brú lífeyrissjóði í nýrri deild.
Akureyri

Sameining LSA við Brú

Lífeyrissjóður starfsmanna Akureyrarbæjar tók til starfa 1. janúar 1942 og var þá stofnaður með samþykkt Akureyrarbæjar. Í lok ársins 1999 var undirritaður samningur um að Lífeyrissjóður Norðurlands tæki að sér rekstur LSA. Árið 2007 sameinuðust Lífeyrissjóður Norðurlands og Lífeyrissjóður Austurlands í Stapa lífeyrissjóð sem tók í kjölfarið yfir þennan rekstrarsamning. Lífeyrissjóðnum var lokað fyrir nýjum sjóðsfélögum 1. janúar 1999.

Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar hóf viðræður um samruna við Brú lífeyrissjóð frá og með 1. janúar 2025, þannig að sjóðurinn yrði sérstök deild í Brú. Slíkur samruni felur í sér að réttindi og réttindaávinnsla sjóðfélaga verður óbreytt og að eignir og skuldbindingar sjóðsins verða aðskildar frá öðrum eignum og skuldbindingum Brúar lífeyrissjóðs.

 

 

Aðild að E deild

Sjóðfélagar sem hafa rétt til að greiða áfram til E deildar eru þeir sem voru sjóðfélagar í Lífeyrissjóði starfsmanna Akureyrarbæjar fyrir 1. janúar 1999, hafa átt aðild að sjóðnum óslitið frá þeim tíma, eru í eigi minna en hálfu starfi og fá greidd laun á grundvelli kjarasamninga.

Ef virkur sjóðfélagi hættir störfum tímabundið án þess að formlegum ráðningarsamningi hafi verið slitið, s.s. vegna launalauss leyfis, námsleyfis eða vegna annarra starfa sem veita honum rétt til leyfis frá starfi sínu, þá hefur hann rétt til aðildar að E deild þegar hann kemur til starfa að leyfi loknu. Ef hann lætur af starfi sínu og iðgjaldagreiðslur til sjóðsins falla niður í tólf mánuði eða lengur, á viðkomandi einstaklingur ekki framar rétt á aðild að E deild heldur færast yfir í A deild Brúar.