1.gr. Markmið
Markmið með starfskjarastefnunni er að styðja við góða stjórnarhætti sjóðsins en hann vill vera eftirsóknarverður vinnustaður og hafi á að skipa hæfu, áhugasömu og metnaðarfullu starfsfólki sem sýnir frumkvæði og vilja til að taka virkan þátt í að skapa jákvætt, faglegt og drífandi starfsumhverfi. Með stefnu þessari eru reglur um starfskjör stjórnarmanna, nefndarmanna, framkvæmdastjóra og starfsfólks sjóðsins formfest.
2.gr. Starfskjör
Sjóðurinn leggur áherslu á að ráða til sín og hafa í sínum röðum framúrskarandi einstaklinga og að starfskjör séu samkeppnishæf en hófleg og ekki leiðandi. Við ákvörðun um starfskjör er horft til ábyrgðar, reynslu, menntunar, umsvifa og frammistöðu en jafnframt gætt að viðurkenndum jafnlauna- og jafnréttissjónarmiðum. Við ákvörðun starfskjara er meðal annars tekið tillit til fyrirliggjandi upplýsinga um starfskjör hjá öðrum lífeyrissjóðum og öðrum eftirlitsskyldum aðilum.
3.gr. Starfskjör stjórnarmanna
Stjórnarmenn fá greidda mánaðarlega þóknun í samræmi við ákvörðun stjórnar. Við ákvörðun um fjárhæð þóknunar skal taka mið af vinnuframlagi sem þörf er á starfsins vegna og þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir. Formaður stjórnar fær tvöföld stjórnarlaun og varaformaður 75% af launum formanns. Sjóðurinn greiðir dvalar og ferðakostnað vegna starfa stjórnarmanna sem eiga lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins.
4.gr. Starfskjör nefndarmanna
Nefndarmenn fá greiðslu fyrir hvern fund og er þóknunin í samræmi við ákvörðun stjórnar. Formaður nefnda fær tvöfalda þóknun miðað við nefndarmann. Við ákvörðun um fjárhæð þóknunar skal taka mið af vinnuframlagi sem þörf er á starfsins vegna og þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir. Sjóðurinn greiðir dvalar og ferðakostnað vegna starfa nefndarmanna sem eiga lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins
5.gr. Starfskjör framkvæmdastjóra
Stjórn sjóðsins sér um ráðningu framkvæmdastjóra og ákveður laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samþykktum sjóðsins og í samræmi við stefnu þessa. Stjórn getur falið formanni og varaformanni að annast samninga við framkvæmdastjóra um laun og starfskjör samanber starfsreglur stjórnar. Föst laun og aðrar greiðslur skulu vera sambærileg við það sem gerist í starfsumhverfi framkvæmdastjóra sjóðsins og í samræmi við umsvif, ábyrgð og árangur í starfi. Í ráðningarsamningi skulu koma fram greiðslur í lífeyrissjóð, orlof, hlunnindi og ákvæði um uppsagnarfrest. Við starfslok skal almennt ekki samið um lífeyris- eða starfslokagreiðslur umfram það sem fram kemur í ráðningarsamningi.
6.gr. Starfskjör starfsmanna
Framkvæmdastjóri sér um daglegan rekstur og ráðningu starfsmanna og ákveður laun þeirra og önnur starfskjör í samræmi við stefnur sjóðsins. Í ráðningarsamningi skal koma fram hvort um sé að ræða heildarlaun og/eða hvort greitt sé sérstaklega fyrir yfirvinnu, lífeyrisréttindi, orlof og uppsagnarfrestur. Starfskjör sjóðsins eru ekki tengd árangri í starfsemi hans.
7.gr. Skaðleysi stjórnar og starfsmanna
Sjóðurinn tryggir að á hverjum tíma sé í gildi starfsábyrgðartrygging fyrir stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og aðra lykilstarfsmenn sjóðsins vegna starfa þeirra í þágu sjóðsins. Sjóðurinn tryggir að þeim sé haldið skaðlausum af kröfum sem á þá kunna að verða gerðar eða á þá kunna að falla vegna starfa þeirra fyrir sjóðinn að svo miklu leyti sem slík krafa er ekki til komin fyrir saknæma háttsemi hlutaðeigandi sem metin er vegna ásetnings eða stórfelldu gáleysis.
Sjóðurinn greiðir iðgjald starfsábyrgðartryggingar og eðlilegan kostnað af málsvörn gagnvart kröfum eða rannsóknum af ofangreindum toga með fyrirvara um rétt til endurkröfu, komi síðar í ljós að viðkomandi hafi í umræddu tilviki af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, brotið gegn trúnaðarskyldum sínum við sjóðinn eða ákvæðum laga í starfi sínu fyrir hann.
8.gr. Upplýsingagjöf
Sjóðurinn gerir grein fyrir kjörum stjórnarmanna, nefndarmanna í endurskoðunar- og áhættunefnd, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna í ársreikningi sínum.
9.gr. Gildistaka, birting og endurskoðun
Stjórn sjóðsins samþykkir stefnuna og staðfestir með undirritun sinni. Stefnan er endurskoðuð eins oft og þurfa þykir en
eigir sjaldnar en á tveggja ára fresti.
Þannig samþykkt á stjórnarfundi 17. maí 2021