Fara í efni

Starfsreglur áhættunefndar

Starfsreglur áhættunefndar á pdf formi

1. Samsetning og skipan

Áhættunefnd er undirnefnd stjórnar sjóðsins og er skipuð af henni. Hlutverk hennar er að aðstoða stjórn við að sinna verkefnum sem henni er falin. Nefndin tekur ekki sjálfstæðar ákvarðanir fyrir hönd stjórnar.

Áhættunefnd skal skipuð tveimur nefndarmönnum hið minnsta og skal einn nefndarmannanna vera stjórnarmaður í sjóðnum. Nefndarmenn skulu búa yfir nægilegri þekkingu og reynslu til að geta sinnt störfum sínum í nefndinni.

Nefndarmenn eru bundnir trúnaði um málefni sjóðsins og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu sem nefndarmenn.

2. Heimildir og aðgengi að gögnum

Áhættunefnd hefur víðtæka heimild til nauðsynlegrar upplýsingaröflunar innan sjóðsins til þess að geta uppfyllt skyldur sínar. Nefndin hefur óheftan aðgang af gögnum sjóðsins. Áhættunefnd hefur heimildir og fjárhagslegt svigrúm til að leita sér ráðgjafar eins og hún telur nauðsynlegt til að geta uppfyllt skyldur sínar.

3. Hlutverk áhættunefndar

Hlutverk áhættunefndar er eftirfarandi:

  • Vera ráðgefandi fyrir stjórn við mótun áhættustefnu og áhættuvilja.
  • Skal vera ráðgefandi um framkvæmd innleiðingar á áhættustefnu og áhættustýringu sjóðsins.
  • Taka þátt í að auðkenna lykiláhættuþætti sjóðsins.
  • Leggja mat ársfjórðungslega á hvort sjóðurinn starfi innan áhættustefnu og áhættuvilja stjórnar.
  • Leggja mat á fyrirkomulag og virkni áhættustýringar.
  • Yfirfara og meta álagspróf og sviðsmyndir.
  • Yfirfara skýrslu og niðurstöður um eigið áhættumat.
  • Skila skýrslu til stjórnar a.m.k. árlega um störf sín og niðurstöður.
  • Hafa samráð við endurskoðunarnefnd eftir því sem við á þannig að verkefni nefndanna skarist ekki.

4. Fundir

Áhættunefnd skal koma eigi sjaldnar en ársfjórðungslega og oftar eftir þörfum. Formaður skal boða til funda að eigin frumkvæði eða að ósk annarra nefndarmanna eða stjórnenda sjóðsins.

Sviðsstjóri áhættustýringar skal, í samvinnu við formann áhættunefndar, undirbúa dagskrá funda og sjá til þess að fundargögn verði aðgengileg nefndarmönnum á gátt sjóðsins fyrir fundi. Sviðsstjóri áhættustýringar og framkvæmdastjóri situr fundi áhættunefndar.

Í upphafi hvers starfsárs gerir áhættunefnd áætlun um verkefni ársins, nefndarfundi, fundi með stjórn og fundi með starfsmönnum sjóðsins.

Nefndin skal skipa ritara til ritunar fundargerða. Samþykkt fundargerð skal vera undirrituð af nefndarmönnum sem sátu fund ásamt ritara. Fundargerðir nefndarinnar skulu fara fyrir stjórnarfundi sjóðsins.

5. Annað

Áhættunefnd skal yfirfara starfsreglur þessar eftir því sem þörf krefur en að lágmarki árlega. Í framhaldi af þeirri yfirferð getur nefndin gert tillögu til stjórnar um viðeigandi breytingar á reglunum.

Samþykkt á stjórnarfundi þann 21. janúar 2019.