Fara í efni

Stefna um siðferðisleg viðmið í fjárfestingum

Stefna um siðferðisleg viðmið í fjárfestingum á pdf formi

Markmið

Markmið þessarar stefnu er að setja fram siðferðisleg viðmið fyrir fjárfestingar sjóðsins. Sjóðurinn leggur áherslu á að fjáfestingar hans uppfylli kröfur um samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni. Sjóðurinn vill sýna ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu sem getur stutt við gagnkvæman ávinning fjárfesta og samfélagsins.

Stjórnarhættir

Hluthafastefna sjóðsins endurspeglar áherslur sjóðsins hvað varðar góða og ábyrga stjórnarhætti. Sjóðurinn hefur sett sér viðmið um nýtingu atkvæðisréttar og birtir á heimasíðu sinni upplýsingar um ráðstöfun atkvæða í félögum sem skráð eru í Kauphöll Íslands.

Samfélags- og umhverfismál

Sjóðurinn ávaxtar fjármuni sjóðfélaga með heildarhagsmuni þeirra að leiðarljósi og leggur áherslu á faglega nálgun við fjárfestingaákvarðanir sínar. Sjóðurinn lítur til viðmiða Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI, Principal on Responsible Investment) en þau taka mið af samfélagslegum þáttum, umhverfissjónarmiðum og stjórnarháttum við ákvarðanatöku um fjárfestingar.

Framkvæmd og eftirfylgni

Sjóðurinn hefur það hlutverk að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga með faglegum hætti til að standa undir lífeyrisskuldbindingum og hámarka réttindi sjóðfélaga. Við stýringu eigna sjóðsins er horft til langtímasjónarmiða og fjárfestingar eru valdar út frá arðsemi og væntingum um ávöxtun.

Mat á stjórnarháttum, umhverfismálum og samfélagslegum áhrifum er mikilvægur hluti af greiningarvinnu sjóðsins á fjárfestingarkostum sem og eftirfylgni með fjárfestingum hans. Mest vægi hefur slíkt mat á fjárfestingum í stökum verðbréfum en stefnan á ekki við um fjárfestingar í vísitölusjóðum.

Þekking og fræðsla

Sjóðurinn er stofnaðili að IcelandSIF en tilgangur samtakanna er að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Sjóðurinn er virkur þátttakandi í starfi samtakanna en starf samtakanna hefur jákvæð áhrif á fjármagnsmarkaðinn í heild. Með ríkari kröfum fjárfesta sem horfa til framangreindra sjónarmiða við mat á fjárfestingarkostum munu útgefendur verðbréfa og rekstraraðilar sjóða leggja sig í auknum mæli fram um að viðhafa vönduð vinnubrögð.

Birting og endurskoðun

Stefna þessi er birt á heimasíðu sjóðsins og skal endurskoðuð af stjórn árlega.

Samþykkt á stjórnarfundi Brúar lífeyrissjóðs þann 15. október 2018.