Fara í efni

Verklagsreglur um verðbréfaviðskipti

Verklagsreglur um verðbréfaviðskipti á pdf formi


1.gr. Gildissvið og markmið

Reglur þessar eru settar samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 29. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Þær taka til stjórnarmanna og starfsmanna og fjölskyldna þeirra. Starfsmenn sem ekki koma að starfsemi sem valdið getur hagsmunaárekstrum, hafa engan aðgang að innherjaupplýsingum eða öðrum trúnaðarupplýsingum sem geta tengst verðbréfaviðskiptum sjóðsins eru undanþegnir ákvæðum 7. og 9. gr. reglnanna um tilkynningaskyldu og undirritun yfirlýsingar.

Reglunum er ætlað að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í starfsemi sjóðsins og draga úr hættu á að þeir sem þær taka til tengist einstökum úrlausnarefnum með þeim hætti að fyrirfram megi draga í efa óhlutdrægni þeirra við meðferð og afgreiðslu einstakra mála. Reglunum er ætlað að tryggja vandaða starfshætti sem stuðla að trúverðugleika sjóðsins, stjórnar hans og starfsmanna.

2.gr. Skilgreiningar

Í reglum þessum merkir:

Fjölskylda:
Maki, sambúðaraðili eða samvistarmaki og ófjárráða börn.

Trúnaðarupplýsingar:
Með trúnaðarupplýsingum er átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og eru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru, eins og nánar er kveðið á um í reglugerð sem sett er skv. 131. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Tilkynningar til skipulegra verðbréfamarkaða eða markaðstorga fjármálagerninga (MTF) teljast opinberar upplýsingar þegar þeim hefur verið miðlað þaðan. Aðrar upplýsingar teljast opinberar þegar þeim hefur verið miðlað á verðbréfamarkaðnum með opinberum og viðurkenndum hætti.

Fjármálagerningar:
a. 
Verðbréf, þ.e. þau framseljanlegu verðbréf, að undanskildum greiðsluskjölum, sem hægt er að eiga viðskipti með á fjármagnsmarkaði, svo sem:

i. hlutabréf í fyrirtækjum og önnur verðbréf sem eru ígildi hlutabréfa í fyrirtækjum, sameignarfélögum eða öðrum lögaðilum og heimildarskírteini fyrir hlut,

ii. skuldabréf eða skuld á verðbréfaformi, þ.m.t. heimildarskírteini vegna slíkra verðbréfa,

iii. önnur verðbréf sem veita rétt til að kaupa eða selja verðbréf eða leiða til uppgjörs í reiðufé sem ræðst af verðbréfum, gjaldmiðlum, vöxtum eða ávöxtunarkröfum, hrávörum eða öðrum vísitölum eða mælikvörðum.

b. Peningamarkaðsskjöl, þ.e. þeir flokkar gerninga sem viðskipti fara venjulega fram með á peningamarkaði, svo sem ríkisvíxlar, innlánsskírteini og viðskiptabréf að undanskildum greiðsluskjölum.

c. Hlutdeildarskírteini.

d. Valréttarsamningar, framtíðarsamningar, skiptasamningar, framvirkir vaxtasamningar og aðrar afleiður sem byggjast á verðbréfum, gjaldmiðlum, vöxtum, ávöxtunarkröfu, öðrum afleiðum, fjárhagslegum vísitölum eða fjárhagslegum viðmiðum sem gera má upp efnislega eða með reiðufé.

e. Hrávöruafleiður.

f. Afleiður til yfirfærslu lánaáhættu.

g. Samningar um fjárhagslegan mismun.

h. Aðrar afleiður sem ekki falla undir d–g-lið en hafa sömu eiginleika og þær afleiður

Ákvæðin eru að hluta byggð á 2. gr. og 120. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti

3.gr. Meðferð trúnaðarupplýsinga

Þeim sem þessar reglur taka til og búa yfir eða hafa aðgang að trúnaðarupplýsingum er óheimilt að:

a. afla eða ráðstafa fjármálagerningum með beinum eða óbeinum hætti, fyrir eigin reikning eða annarra, búi þeir yfir trúnaðarupplýsingum,

b. láta þriðja aðila trúnaðarupplýsingar í té, nema það sé gert í eðlilegu sambandi við starf, stöðu eða skyldur þess sem upplýsingarnar veitir,

c. ráðleggja þriðja aðila á grundvelli trúnaðarupplýsinga að afla fjármálagerninga eða ráðstafa þeim eða hvetja að öðru leyti til viðskipta með fjármálagerningana.

Ákvæðin taka mið af 123.gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

4.gr. Markaðshegðun

Þeim sem þessar reglur taka til er óheimilt að taka þátt í, stuðla að eða hvetja til viðskipta með fjármálagerninga eða annarra aðgerða í því skyni að gefa ranga mynd af umfangi viðskipta með tiltekna fjármálagerninga eða hafa óeðlileg eða óhæfileg áhrif á verðmyndun í viðskiptum með fjármálagerninga.

Jafnframt er þeim óheimilt að eiga viðskipti fyrir eigin reikning með því að nýta sér í eigin þágu viðskiptakjör sem sjóðurinn kann að njóta hjá þriðja aðila.

Ennfremur skulu þeir ekki eiga viðskipti með einstaka fjármálagerninga á sama tíma og sjóðurinn eða sem sjóðurinn hyggst eiga viðskipti með fyrir eigin reikning í nánustu framtíð þegar þeir hafa vitneskju um slík viðskipti vegna starfsins.

Fyrsti málsliður greinarinnar tekur mið af 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

5.gr. Þagnarskylda

Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls.

Þess ber ætíð að gæta að trúnaðarupplýsingum og upplýsingum sem þagnarskylda hvílir á sé ekki miðlað til fleiri aðila en brýna nauðsyn ber til í hverju tilviki.

Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn skulu hafa reglu á því hverjir hafi aðgang að trúnaðarupplýsingum og hvernig þeir miðla slíkum upplýsingum sín á milli.

Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

Ákvæði þessi eru að hluta byggð á 32. gr.laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

6.gr. Hæfi

Stjórnarmaður eða starfsmaður sjóðsins er vanhæfur til að eiga aðild að ákvörðun um viðskipti sjóðsins með fjármálagerninga ef hann hefur hagsmuna að gæta, sem kynnu að fara í bága við hagsmuni sjóðsins eða gagnaðilans í viðskiptunum. Sama gildir ef um er að ræða ákvarðanir sem tengjast fjölskyldu hans, venslamönnum eða fyrirtæki, þar sem hann kann að eiga umtalsverðra hagsmuna að gæta sem eigandi, stjórnarmaður eða starfsmaður.

Stjórnarmaður eða starfsmaður sem veit um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans skal án tafar vekja athygli á þeim.

Ákvæðin um vanhæfi eru byggð á stjórnsýslulögum. Í 31. gr.laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða segir að um hæfi stjórnarmanns lífeyrissjóðs fari eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga.

7.gr. Tilkynningaskylda

Stjórnarmenn og þeir starfsmenn sem koma að starfsemi sem valdið getur hagsmunaárekstrum, hafa aðgang að innherjaupplýsingum eða öðrum trúnaðarupplýsingum sem geta tengst verðbréfaviðskiptum sjóðsins skulu að eigin frumkvæði tilkynna framkvæmdastjóra um öll sín viðskipti með fjármálagerninga samdægurs, þegar það á við, og eigi síðar en við upphaf næsta vinnudags eftir að þau voru gerð. Tilkynna skal um viðskipti með afleiðusamninga bæði þegar þeir eru gerðir og við uppgjör. Viðskipti með fjármálagerninga skal tilkynna hvort sem þau eru gerð í nafni viðkomandi stjórnarmanns, starfsmanns, fjölskyldu hans eða félags sem stjórnarmaður, starfsmaður eða fjölskylda hans á ráðandi hlut í.

Eftirfarandi viðskipti eru undanþegin tilkynningarskyldu:

a. eigin viðskipti sem framkvæmd eru í eignastýringu þar sem engin samskipti hafa farið fram í tengslum við viðskiptin milli sjóðstjórans og hlutaðeigandi einstaklings.

b. eigin viðskipti með hlutdeildarskírteini í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum sem uppfylla skilyrði laga nr. 128/2011 að því tilskildu að hlutaðeigandi einstaklingur taki ekki þátt í stjórnun viðkomandi sjóðs.

Stjórnarmenn og þeir starfsmenn sem þessar reglur taka til skulu upplýsa um eign sína í fjármálagerningum er þeir taka við starfinu. Jafnfram skulu þeir tilkynna um tengsl sín við einstaklinga sem þeir eru í fjárfélagi við, annast fjármál fyrir eða gæta hagsmuna, m.a. með stjórnarsetu. Í þessu sambandi skal til að mynda sérstök grein gerð fyrir fjárfestingafélögum. Einnig skal tilkynna framkvæmdastjóra þegar breytingar verða.

Sjóðurinn skal halda skrá um tilkynningarskyld viðskipti samkvæmt framangreindu þar sem skráða eru upplýsingar um fjármálagerningana, fjárhæð nafnverðs, kaupverð og tímasetningu kaupa.

8.gr. Rannsóknarskylda

Leiki vafi á því hvort fyrirhuguð viðskipti geti samrýmst ákvæðum þessara reglna eða önnur atvik séu með þeim hætti að ákvæði þessara reglna eigi við skulu þeir aðilar sem reglur þessar taka til leita álits framkvæmdastjóra eða formanns stjórnar sjóðsins, eftir því sem við á, sem sker úr um slík atriði áður en viðskipti eru framkvæmd eða önnur skref stigin sem gætu brotið gegn reglunum.

9.gr. Undirritun yfirlýsingar

Stjórnarmenn og starfsmenn sjóðsins skulu undirrita yfirlýsingu um að þeir hafi kynnt sér og maka sínum þessar reglur og skuldbindi sig til að hlíta þeim, sbr. fylgiskjal með þessum reglum.

10.gr. Eftirlit

Formaður stjórnar og framkvæmdastjóri skulu

a. sjá um að bera ábyrgð á kynningu þessara reglna meðal stjórnarmanna og starfsmanna og sjá til þess að þeir staðfesti skriflega að þeir hafi kynnt sér þær.

b. sjá til þess að reglurnar séu almennt á vitorði stjórnarmanna og starfsmanna og að þær séu jafnan aðgengilegar fyrir þá sem undir þær heyra.

c. Hafa eftirlit með reglunum sé fylgt , s.s. að tryggja að yfirlýsingar séu undirritaðar sbr. 9 gr.

Stjórn sjóðsins er þó heimilt að fela til þess bærum starfsmanni að fara með daglegt eftirlit með framkvæmd þessara reglna.

Tilkynningar samkvæmi þessum reglum skulu sendar framkvæmdastjóra eða starfsmanni sem stjórn sjóðsins hefur falið daglegt eftirlit með framkvæmd reglnanna.

11.gr. Brot á reglum.

Brot á reglum þessum skal tafarlaust tilkynna stjórn sjóðsins, eftir eðli brots, skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu.

12.gr. Viðurlög

Brot á reglunum geta varðað áminningu eða uppsögn aðila. Brot á ýmsum ákvæðum reglnanna geta falið í sér brot á lögum um verðbréfaviðskipti og getur starfsmaður því sætt viðurlögum skv. þeim, sbr. XV. kafla laganna

13.gr. Gildistaka

Reglur þessar taka gildi við undirritun stjórnar Brúar lífeyrissjóðs og að fenginni staðfestingu Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum.

Samþykkt á fundi stjórnar Brúar lífeyrissjóðs 2. september 2019.