V deild er öllum opin og veitir sambærileg réttindi og lífeyrissjóðir í almenna lífeyrissjóðskerfinu.
Þeir sem eru í A deild geta valið að fara í V deildina. Það er þó ekki í boði að fara úr V deild í A deild.
Hluti iðgjalds inn á séreignarsparnað?
Möguleiki er að ráðstafa 3,5% af 11,5% mótframlagi launagreiðanda inná séreignasparnað.
Tilkynning um val á aðild að deildum Brúar lífeyrissjóðs
Umsókn um skiptingu iðgjalds í V-deild Brúar lífeyrissjóðser inn á mínum síðum.
Réttindi háð iðgjaldi, aldri og ávöxtun
V deildin er aldurstengd og tryggingafræðilega rétt þannig að hún tekur mið af ávöxtunartíma iðgjalds svo að sjóðfélagi nýtur tímans sem iðgjaldið er ávaxtað. Því yngri sem sjóðfélagi byrjar í deildinni því hærri verða réttindi hans.
Góð ávöxtun eigna skila sér í auknum rétti
Samþykktum V deildar má breyta í samræmi við tillögu tryggingastærðfræðings Brúar lífeyrissjóðs vegna vaxandi áhrifa hækkunar lífaldurs og aukinnar örorku á afkomu sjóðsins. Markmið V deildar Brúar lífeyrissjóðs er að iðgjöld til framtíðar standi undir áunnum lífeyrisréttindum. Sjóðnum ber að skerða réttindi ef eignir duga ekki fyrir skuldbindingum, eins njóta sjóðfélagar góðs af ef ávöxtun eigna er góð.
Lífeyrisiðgjöld
Iðgjald sjóðfélaga er 4%.
Meginreglan er að lágmarksiðgjald er 12% af greiddum launum sem tryggir grunnréttindi (sjóðfélagi 4% + vinnuveitandi 8%). Iðgjald fastráðinna starfsmanna hjá sveitarfélögunum er 15,5% (sjóðfélagi 4% + vinnuveitandi 11,5%).
Réttindi
Með greiðslu iðgjalda afla sjóðfélagar sér réttinda til eftirlauna, makalífeyris, barnalífeyris og örorkulífeyris.
Hægt að skoða uppsöfnuð réttindi í Lífeyrisgátt.
Eftirlaun
Réttindi eru háð iðgjaldi, aldri og ávöxtun. Fullur ellilífeyrisréttur miðast við 67 ára aldur.
Sjóðfélagi hefur val um að hefja töku ellilífeyris milli 60-80 ára.
Hefji sjóðfélagi töku lífeyris fyrr, lækkar mánaðarleg upphæð áætlaðs lífeyris miðað við 67 ára aldur um 0,35 - 0,60% á mánuði.
Hefji sjóðfélagi töku lífeyris síðar, hækkar mánaðarleg upphæð áætlaðs lífeyris miðað við 67 ára aldur, um 0,60 - 3,10%.
Sjóðfélagar sem greiddu iðgjöld í V deild fyrir breytingar 1. júní 2017:
Réttindi sem aflað var fyrir breytingar eru miðuð við 65 ára lífeyristökualdur. Lífeyrisréttindi sem áunnin voru fyrir breytingarnar hækka um 0,56 - 3,55% fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er frestað fram yfir 65 ára aldurinn en þó ekki lengur en til 80 ára aldurs. Á sama hátt lækkar lífeyrisrétturinn miðað við 65 ára markið um 0,45 - 0,65% fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er flýtt.
Réttindi sem aflað er eftir breytingarnar eru miðuð við 67 ára almennan lífeyristökualdur. Lífeyrisréttindi sem áunnin eru eftir breytingarnar hækka um 0,60 - 3,10% fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er frestað fram yfir 67 ára aldurinn en þó ekki lengur en til 70 ára aldurs. Á sama hátt lækkar lífeyrisrétturinn miðað við 67 ára markið um 0,35-0,60% fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er flýtt. Sjá samþykktir.
Í stuttu máli:
- Full eftirlaun miðast við 67 ára aldur
- Hægt að hefja töku lífeyris frá 60-80 ára
- Lækkar ef lífeyristaka hefst fyrir 67 ára
- Hækkar ef lífeyristaka hefst eftir 67 ára
Makalífeyrir
Falli sjóðfélagi frá fær maki hans borgaðan lífeyri sem nemur helming af framreiknuðum lífeyri í tvö ár, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Skilyrði að sjóðfélagi sé virkur sjóðfélagi fyrir andlát eða hafi áunnið sér ákveðin réttindi.
Fullur réttur maka er þannig 50% af lífeyrisréttindum sjóðfélaga – framreiknað (miðað er við þau réttindi sem sjóðfélagi hefði átt hefði hann greitt iðgjöld á sömu forsendum til 65 ára aldurs).
Hafi maki barn yngra en 18 ára á framfæri sínu, helst fullur makaréttur fram að 18 ára aldri yngsta barns. Sé maki meira en 50% öryrki og yngri en 67 ára við fráfall sjóðfélaga, helst fullur makaréttur meðan sú örorka varir.
Í stuttu máli:
- Fullur réttur er 50% af lífeyrisréttindum sjóðfélaga – framreiknað.
- Fullur réttur í 24 mánuði
- Fullur réttur ef barn er yngra en 18 ára
- Fullur réttur ef maki er meira en 50% öryrki og yngri en 67 ára við fráfall sjóðfélaga
Barnalífeyrir
Börn sjóðfélaga fá greiddan barnalífeyri til 18 ára aldurs við fráfall eða örorku sjóðfélaga. Um er að ræða ákveðna krónutölu sem breytist eftir vísitölu neysluverðs. Barnalífeyrir vegna andláts sjóðfélaga er 19.310 kr. uppreiknað m.v. vísitölu desember 2017.
Í stuttu máli:
- Greitt þar til barn verður 18 ára
- 19.310 kr vegna andláts mv. VNV
Örorkulífeyrir
Þeir sem hafa greitt til sjóðsins að lágmarki 24 mánuði fyrir orkutap og hafa verið metnir af lækni til meira en 50% örorku og upplifa raunverulega tekjuskerðingu geta átt rétt á örorkulífeyri.
Örorkulífeyrir er framreiknaður til 65 ára aldurs að uppfylltum ákveðnum skilyrðum (miðað er við þau réttindi sem sjóðfélagi hefði átt hefði hann greitt iðgjöld á sömu forsendum til þess tíma).
Örorkulífeyrir fer eftir mati á örorkuprósentu (dæmi: 50% örorka veitir 50% réttindi).
Örorka miðast við vanhæfni til að gegna starfi sem sjóðfélagi vann þegar hann var metinn til örorku í 3 ár. Eftir þann tíma er örorka hans endurmetin miðað við hæfni til að gegna almennum störfum.
Sótt er um örörkulífeyri rafræn hér. Ítarlegt læknisvottorð (Læknisvottorð v/umsóknar um örorkubætur) þarf að fylgja umsókninni, má ekki vera eldra en þriggja mánaða.
Í stuttu máli:
- Miðað við a.m.k. 50% örorkumat
- Raunveruleg tekjuskerðing
- Framreiknað til 65 ára aldurs að ákveðnum skilyrðum uppfylltum
- Vanhæfni til að gegna starfi sínu í 3 ár
- Endurmetið eftir 3 ár og miðað við hæfni til að gegna almennum störfum