Fara í efni

Áhættu- og áhættustýringarstefna

Áhættu- og áhættustýringarstefna á PDF formi.

Samþykkt af stjórn sjóðsins 31. október 2022

Hjá Brú lífeyrissjóði starfar virk áhættustýring og innra eftirlitskerfi þar sem lögð er áhersla á sjálfstæði, skýrt hlutverk og ábyrgð í starfsemi sjóðsins. Reglubundið áhættumat á starfsfólki, áhættumælingar, úttektir og aðgerðir er grunnurinn að verklagi við framkvæmd áhættustýringar.

Áhættu- og áhættustýringarstefna Brúar lífeyrissjóðs tekur mið af reglugerð um eftirlitskerfi með áhættu lífeyrissjóða nr. 590/2017. Í reglugerðinni er kveðið á um áhættustýringu lífeyrissjóða til að tryggja að þeir hafi yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við starfsemi sína. 

 

Markmið áhættustefnu

Markmið með áhættustefnu sjóðsins er að auka öryggi í rekstri sjóðsins. Í áhættustefnu felst að stjórn og starfsmenn meta áhættu og viðeigandi áhættuþætti við ákvarðanatöku eftir því sem eðlilegt er hverju sinni. Sjóðurinn greinir og meðhöndlar áhættu í starfsemi sinni með reglubundnu áhættumati, markvissu eftirliti og aðgerðum. Áhætta í starfsemi sjóðsins er skilgreind samkvæmt leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins um áhættustýringu (eftirlitskerfi) samtryggingadeilda lífeyrissjóða nr. 1/2013 og leiðbeinandi tilmælum nr. 2/2014 um upplýsingakerfi eftirlitsskyldra aðila. Nær þessi áhætta bæði til atvika sem lúta að eignum og skuldbindingum sjóðsins sem og rekstrarlegum þáttum.

Fjárfestingarstefnan gegnir mikilvægu hlutverki við áhættustýringu sjóðsins og markar viðmið og vikmörk fyrir áhættuþætti hans. Sjóðurinn leitast við að ná sem bestri ávöxtun að teknu tilliti til áhættu. Við mótun áhættustefnu liggur til grundvallar mat á núverandi stöðu sjóðsins og þróun til framtíðar. Greind eru áhrif mismunandi eignasamsetningar eftir eignaflokkum og horft á vænta ávöxtun og áhættu.

Stjórnskipulag áhættustýringar

Stjórn ber ábyrgð á að móta áhættustefnu og að áhættustýring sé til staðar. Á grundvelli stefnunnar felur stjórn sjóðsins framkvæmdastjóra, sviðsstjóra áhættustýringar og öðru starfsfólki umsjón með framkvæmd hennar en stjórnin hefur eftirlit sem byggir á upplýsingagjöf, m.a. á áhættuskýrslum. Endurskoðunarnefnd, innri endurskoðun og ytri endurskoðandi gegna mikilvægu hlutverki varðandi eftirfylgni með virkni áhættustýringar.