Hvenær get ég farið á eftirlaun?
- Þú hefur val um að fara á eftirlaun milli 60 ára og 80 ára aldurs.
- Þú þarft ekki að vera hætt/ur störfum þegar taka eftirlauna hefst.
- Fjárhæð eftirlauna reiknast út frá áunnum réttindum og fylgir neysluverðsvísitölu.
- Eftirlaun greiðast ævilangt og eru útborguð mánaðarlega.
Viðmiðurnaraldur lífeyristöku er 67 ár þannig að lífeyrisréttindi hækka um 0,6-3,10% bæði í A-deild og V-deild fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er frestað framyfir 67 ára aldurinn en þó ekki lengur en til 80 ára aldurs. Á sama hátt er sjóðfélaga heimilt að hefja töku lífeyris áður en hann nær 67 ára aldri, þó ekki fyrr en frá 60 ára aldri og þá lækkar lífeyrisrétturinn miðað við 67 ára markið um 0,35-0,60% fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er flýtt.
Heimilt er að hefja töku lífeyris samhliða vinnu. Iðgjöld greiðast þá áfram í lífeyrissjóð.
Áhrif breytinga eftir 1. júní 2017
Sjóðfélagar sem greiddu iðgjöld í A deild fyrir breytingar
Sjóðfélagar sem greiddu iðgjöld í sjóðinn fyrir breytingar og halda því áfram, fara yfir í aldurstengda réttindaávinnslu en mismunur á réttindum í jafnri og aldurstengdri ávinnslu er mætt með sérstöku framlagi frá launagreiðendum.
Við iðgjaldaskil er jöfn ávinnsla* og aldurstengd ávinnsla reiknuð út og fær sjóðfélagi þau réttindi sem hærri eru.
Réttindi sjóðfélaga verða framvegis bundin tryggingafræðilegri stöðu og geta lækkað eða hækkað eftir afkomu sjóðsins. Þetta á bæði við um áunnin réttindi fyrir 1. júní 2017 og framtíðarréttindi sjóðfélaga.
Sjóðfélagar geta valið um að fara á lífeyri frá 60 ára til 80 ára aldurs. Viðmiðunaraldur lífeyristöku er 65 ár hjá þeim sjóðfélögum sem halda jafnri réttindaávinnslu. Hefji sjóðfélagi töku lífeyris fyrr, lækkar áætlaður lífeyrir miðað við 65 ára aldur um 0,45 - 0,65% fyrir hvern mánuð sem taka lífeyris er flýtt. Hefji sjóðfélagi töku lífeyris síðar, hækkar áætlaður lífeyrir miðað við 65 ára aldur, um 0,56 - 3,55% fyrir hvern mánuð sem taka lífeyris frestast.
* Jöfn réttindaávinnsla er 1,9% af árslaunum óháð ávöxtun sjóðsins og tímalengd.
Sjóðfélagar sem greiddu iðgjöld í V deild fyrir breytingar
Réttindi sem aflað var fyrir breytingar eru miðuð við 65 ára lífeyristökualdur. Lífeyrisréttindi sem áunnin voru fyrir breytingarnar hækka um 0,56 - 3,55% fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er frestað fram yfir 65 ára aldurinn en þó ekki lengur en til 80 ára aldurs. Á sama hátt lækkar lífeyrisrétturinn miðað við 65 ára markið um 0,45 - 0,65% fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er flýtt.
Réttindi sem aflað er eftir breytingarnar eru miðuð við 67 ára almennan lífeyristökualdur. Lífeyrisréttindi sem áunnin eru eftir breytingarnar hækka um 0,60 - 3,10% fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er frestað fram yfir 67 ára aldurinn en þó ekki lengur en til 80 ára aldurs. Á sama hátt lækkar lífeyrisrétturinn miðað við 67 ára markið um 0,35-0,60% fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er flýtt. Sjá samþykktir.
Hvernig sæki ég um?
Þegar þú hefur ákveðið að hefja töku eftirlauna fyllir þú út umsókn.
Þú átt kost á að óska eftir því að umsóknin verði send áfram á aðra sjóði þar sem þú átt geymd réttindi, sem sparar þér ómakið við að senda umsóknir líka þangað.
Hvar finn ég upplýsingar um lífeyrisréttindi mín?
Hægt er að nálgast upplýsingar um lífeyrisréttindi bæði í þessum sjóði sem og í öðrum lífeyrissjóðum í Lífeyrisgáttinni á sjóðfélagavefnum. Athugaðu að lífeyrisréttindi eru ólík á milli sjóða og viðmiðunaraldur til lífeyristöku er misjafn.
Skattur
Sjóðfélagi þarf að merkja á umsókninni viðeigandi skattþrep og hvort nýta eigi skattkort hjá lífeyrissjóðnum. Það er á ábyrgð sjóðfélaga að láta sjóðinn vita hvort hann óski eftir því að nýta rafrænan persónuafslátt sem og í hvaða skattþrepi skattgreiðslur eiga að vera. Staðgreiðsla skatta 2023, samkvæmt upplýsingum frá Skatturinn.is, er reiknuð í þremur þrepum:
- Skattþrep 1: 31,48% af tekjum 0 – 446.136 kr.
- Skattþrep 2: 37,98% af tekjum 446.137 - 1.252.501 kr.
- Skattþrep 3: 46,28% af tekjum yfir 1.252.501 kr.
Persónuafsláttur er 64.926 kr. á mánuði.
Umsóknartími
Umsóknarferli lífeyrisumsókna tekur u.þ.b. hálfan mánuð. Sjóðfélagi þarf að hafa sent inn umsókn sína fyrir 15. dag mánaðar á undan þeim mánuði sem hann hyggst fá fyrstu greiðslu eftirlauna.